Fréttir

Tíðarfar í maí 2022

Stutt yfirlit

2.6.2022


Maímánuður var hægviðrasamur og að tiltölu hlýr á sunnanverðu landinu en kaldur á því norðanverðu. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi. Á Akureyri var úrkomusamt þennan mánuðinn en í Reykjavík var hlýtt og sólríkt.

Hiti

Meðalhiti maímánaðar í Reykjavík var 7,7 stig. Það er einu stigi yfir meðallagi 1991 til 2020 og 1,1 stigi yfir meðallagi undanfarins áratugar. Á Akureyri var meðalhitinn 6,3 stig sem er 0,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en við meðallag undanfarinna tíu ára. Meðalhitinn var 5,7 stig í Stykkishólmi og 7,0 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2012-2021 °C
Reykjavík 7,7 1,0 24 152 1,1
Stykkishólmur 5,7 0,1 61 til 62 177 0,0
Bolungarvík 4,6 -0,1 60 125 -0,3
Grímsey 3,5 -0,1 58 149 -0,5
Akureyri 6,3 0,1 55 142 0,0
Egilsstaðir 5,7 0,2 31 68 0,3
Dalatangi 4,3 0,1 33 84 0,1
Teigarhorn 5,6 0,3 35 150 0,5
Höfn í Hornaf. 7,0


1,0
Stórhöfði 7,0 0,8 18 146 1,1
Hveravellir 2,6 1,0 7 58 1,2
Árnes 7,7 1,2 19 143 1,5

Maí var hlýr um allt sunnanvert landið og inn til landsins á Norðausturlandi, en kaldur að tiltölu á Vestfjörðum og Norðurlandi. Jákvætt hitavik miðað við undanfarin tíu ár var mest 1,8 stig á Ölkelduhálsi. Mesta neikvæða hitavikið var -1,2 stig á Raufarhöfn.



Meðalhiti mánaðarins mældist hæstur 8,7 stig á Steinum undir Eyjafjöllum en lægstur -0,6 stig á Gagnheiði. Lægsti mánaðarmeðalhiti í byggð mældist 2,2 stig á Fonti á Langanesi.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 22,5 stig á Hjarðarlandi þ. 29. Lægstur mældist hitinn -10,4 stig á Gagnheiði annan dag mánaðarins. Lægsti mældi hiti í byggð var -8,6 stig á Þingvöllum sama dag.

Úrkoma

Heildarúrkoma mánaðarins í Reykjavík mældist 44,0 mm, eða um 84% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 50,6 mm í maí, en það er rúmlega tvöföld meðalúrkoma maímánaðar á tímabilinu 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældust 59,9 mm sem er 49% umfram meðallag maímánaðar árin 1991 til 2020.

Fjöldi daga þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri var 11 í Reykjavík, einn dag umfram meðallag tímabilsins 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman einnig 1,0 mm eða meiri 11 daga mánaðarins, en þar er það er sex dögum oftar en í meðalári.

Snjór

Jörð var alauð allan mánuðinn í Reykjavík en hún var flekkótt þrjá morgna mánaðarins á Akureyri.

Sólskinsstundafjöldi

Í Reykjavík mældust sólskinsstundir mánaðarins 259,3, en það er rúmum 50 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist 184,1 sólskinsstund í maí, eða 13,1 stund yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,4 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum. Hvassast var þ. 10 (NNA-átt) og þ. 12. (NNA-átt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1006,6 hPa, en það er 6,4 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1034,1 hPa á Grundarfirði þ. 29. Lægsti mældi loftþrýstingur mánaðarins var 987,4 hPa á Keflavíkurflugvelli þ. 25.

Fyrstu fimm mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fimm mánuði ársins mældist 3,0 stig, eða 0,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,1 stigi yfir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhitinn í Reykjavík raðast í 24. sæti á lista 152 ára. Meðalhiti janúar til maí var 2,0 stig á Akureyri. Það er 0,5 stigum yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 0,1 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri raðast meðalhiti mánaðanna fimm í 22. sæti á lista 142 ára.

Það hefur verið úrkomusamt í Reykjavík það sem af er ári. Maí var fyrsti mánuður ársins með úrkomu undir meðallagi og sólskinsstundafjölda umfram meðallag í Reykjavík. Heildarúrkoma ársins hingað til mældist 57 % umfram meðalúrkomu fyrstu fimm mánaða áranna 1991 til 2020, eða 580,9 mm. Aðeins einu sinni hefur heildarúrkoma janúar til maímánaða mælst meiri en í ár, en það var árið 1921 þegar það mældust 629,6 mm í Reykjavík. Á Akureyri mældist heildarúrkoma fyrstu fimm mánaða ársins 248,8 mm, eða 18% umfram meðallag tímabilsins 1991 til 2020.

Vorið

Vorið var hægviðrasamt og hlýtt, en meðalhiti vorsins var yfir meðallagi á landinu öllu (vik frá meðallagi áranna 1991 til 2020; vik frá meðallagi áranna 2012 til 2021). Meðalhitinn mældist 6,4 stig í Reykjavík (1,2; 1,1), 5,4 stig á Akureyri (1,0; 0,7), 4,9 stig í Stykkishólmi (0,7; 0,4) og 4,4 stig á Egilsstöðum (0,7; 0,6).

Vorúrkoma í Reykjavík var 115,6 mm, eða 0,3 mm umfram meðallag undanfarins áratugar. Það er 4 mm umfram meðalvorúrkomu 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 64,5 mm þetta vorið sem er 14,2 mm umfram meðallag áranna 1991 til 2020 og 12,4 mm umfram meðaltal síðustu tíu ára.

Í Reykjavík var apríl þungbúinn en maí sólríkur. Í heildina voru sólskinsstundir vorsins 20,1 umfram meðallag undanfarins áratugar og 20,2 umfram meðallag áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 20,3 fleiri sólskinsstundir en að meðallagi tímabilsins 1991 til 2020, en fjöldi sólskinsstunda var 7,4 stundum undir meðaltali síðustu tíu ára.

Skjöl fyrir maí

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í maí 2022 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.

 








Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica