Tíðarfar í maí
Stutt yfirlit
Maí var óvenju hlýr og hiti vel yfir meðallagi. Sérlega hlýtt var fyrstu vikuna og aftur í kringum þ. 21. Víða var úrkoma í meira lagi. Gróður tók vel við sér.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík í maí var 8,6 stig, og er það 2,3 stigum fyrir ofan meðallag áranna 1961 til 1990, en 1,7 stigi yfir meðallagi síðustu 10 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 8,4 stig, 3,0 stigum fyrir ofan meðallag áranna 1961 til 1990 og 2,3 stigi yfir meðallagi síðustu 10 ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 7,7 stig og 7,6 stig á Höfn í Hornafirði. Á Hveravöllum var meðalhitinn 4,2 stig sem er hlýjasti maímánuður frá upphafi mælinga á þeim stað.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | meðalhiti °C | vik 1961-1990 °C | röð | af | vik 2007-2016 °C |
Reykjavík | 8,6 | 2,2 | 4 | 146 | 1,7 |
Stykkishólmur | 7,7 | 2,8 | 4 | 172 | 1,8 |
Bolungarvík | 6,3 | 2,4 | 11 | 120 | 1,5 |
Grímsey | 5,5 | 2,7 | 3 | 144 | 1,7 |
Akureyri | 8,4 | 3,0 | 6 | 136 | 2,3 |
Egilsstaðir | 8,1 | 3,3 | 2 | 63 | 2,8 |
Dalatangi | 5,5 | 2,2 | 9 | 79 | 1,3 |
Teigarhorn | 6,3 | 1,8 | 14 | 145 | 1,0 |
Höfn í Hornaf. | 7,6 | 0,9 | |||
Stórhöfði | 7,0 | 1,1 | 19 | 141 | 0,6 |
Hveravellir | 4,2 | 3,6 | 1 | 53 | 2,6 |
Árnes | 8,7 | 2,6 | 3 | 137 | 2,2 |
Meðalhiti og vik (°C) í maí 2017
Hlýtt var í veðri í maí um allt land. Hlýjast var inn til landsins og á hálendi norðaustanlands. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest á Brúáröræfum, +4.3 stig.
Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Skaftafelli, 9,1 stig en lægstur á Brúárjökli 1,6 stig. Á láglendi var meðalhitinn lægstur á Fonti, 4,3 stig.
Óvenju hlýtt var á landinu öllu og fór hiti víða yfir 20 stig. Hæsti hiti mánaðarins mældist 23,7 stig í Bakkagerði þann 4. Í Ásbyrgi og í Bjarnarey mældist hitinn 22,8 stig þann 3. og þann 21. fór hitinn í Húsafelli í 22,4 stig
Mesta frost í mánuðinum mældist -6,4 stig á Brúárjökli þann 20. Mest frost í byggð mældist -3,7 stig á Staðarhóli þann 7.
Úrkoma
Úrkoma var óvenjulega mikil í maí. Í Reykjavík mældust 84,4 mm sem er um 92% umfram meðallag 1961-1990. Á Akureyri mældist úrkoman 62,2 mm sem er mesta úrkoma sem mælst hefur í maímánuði frá upphafi mælinga, eldra met var 59,2 mm árið 1929. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 37,9 mm og 185,0 mm á Höfn sem er sú mesta í maí þar síðan 1978.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 19 í Reykjavík, 9 fleiri en í meðalári. Tvisvar hafa verið fleiri úrkomudagar í Reykjavík í maí eða í 23 dagar árin 1896 og 1991. Slíkir dagar voru einnig 19 á Akureyri, 14 fleiri en í meðalári og hafa aldrei verið jafn margir. Árin 1929 og 1993 voru 12 úrkomudagar á Akureyri sem er það næstmesta þar í maí.
Snjór
Snjór var að mestu horfinn í byrjun mánaðar. Alautt var allan mánuðinn bæði í Reykjavík og á Akureyri.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinstundir í Reykjavík mældust 168,4, 23 stundum undir meðallagi áranna 1961-1990. Á Akureyri mældust sólskinstundirnar 156,5, 17 færri en að meðaltali 1961 til 1990.
Vindur
Vindhraði á landsvísu var í rúmu meðallagi, 0,4 m/s yfir meðallagi síðustu 10 ára á sjálfvirku stöðvunum. Hvassast var dagana 1. og 2. maí og svo dagana 10.-12. maí. Austanátt var ríkjandi.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýtstingur í Reykjavík mældist 1012,7 hPa og er það 0,3 hPa yfir meðallagi áranna 1961-1990. Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1040,8 hPa á Reykjavíkurflugvelli þann 21., sá mesti sem mælst hefur í maí í rúm 20 ár. Þrýstingur fór síðast yfir 1040 hPa á Raufarhöfn 1996. Lægsti loftþrýstingurinn mældist 988,7 í Vestmannaaeyjabæ þ. 16.
Vorið (apríl til maí)
Vorið var hlýtt, sérstaklega norðan og austanlands. Maí var sérlega hlýr á meðan apríl var nær meðallagi. Hiti í Reykjavík var 1,2 stigi ofan meðallags 1961-1990 og 0,4 stigi ofan meðallags síðustu 10 ára. Á Akureyri var hitinn 2,1 stigi frá meðalagi 1961-1990 og 1,1 stigi ofan meðallags síðustu 10 ára. Aðeins fimm sinnum áður hefur vorið verið hlýrra á Akureyri. Á Egilstöðum var vorið það fimmta hlýjasta af 63.
Úrkoma var óvenjumikil. Í Reykjavík mældist úrkoman 233,9 mm, meir en tvöföld meðalúrkoma að vori og sú næstmesta frá upphafi mælinga. Vorið 1989 var úrkomusamara í Reykjavík en nú. Á Akureyri mældist úrkoman einnig meir en tvöföld meðalúrkoma að vori og sú mesta sem mælst hefur.
Fyrstu fimm mánuðir ársins
Fyrstu fimm mánuðir ársins hafa verið hlýir á landinu. Febrúar og maí voru sérlega hlýir. Í Reykjavík var hiti 1,7 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og 0,6 stigum ofan meðallagi síðustu 10 ára. Í Reykjavík hafa þessir fimm mánuðir aðeins sex sinnum verið hlýrri en nú. Á Akureyri var hiti 2,5 stigum ofan meðallagsins 1991-1990 og 1,3 stigum ofan meðallagi síðustu 10 ára. Aðeins fimm sinnum hafa fyrstu fimm mánuðir ársins verið hlýrri á Akureyri. Úrkoma var um 50 prósent umfram meðallag áranna 1961-1990 í Reykjavík og um 25 prósent umfram meðallag á Akureyri.
Skjöl fyrir maí
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í maí 2017 (textaskjal) .
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu .