Tíðarfar í júní 2023
Stutt yfirlit
Mánuðurinn var
hlýr á austurhelmingi landsins. Að tiltölu var hlýjast inn til
landsins á Austurlandi. Meðalhitamet júnímánaðar féllu á
þónokkrum stöðum, t.d. á Akureyri og Egilsstöðum, og á
Hallormsstað mældist hæsti mánaðarmeðalhiti sem mælst hefur í
júní á Íslandi. Í Reykjavík var mánuðurinn úrkomusamur og
sólarsnauður, en þar var nýliðinn mánuður fimmti úrkomusamasti
og sjötti sólskinsminnsti júnímánuður frá upphafi mælinga.
Hiti
Mánuðurinn var hlýr á Norður- og Austurlandi. T.a.m. hefur júnímánuður aldrei mælst eins hlýr á Akureyri og Egilsstöðum og mánuðurinn skipast á meðal hlýjustu júnímánaða frá upphafi mælinga víða á norðan- og austanverðu landinu.
Meðalhiti í Reykjavík í júní mældist 9,7 stig og er það 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,2 stigum undir meðallagi undanfarins áratugar. Á Akureyri var meðalhitinn 12,4 stig sem er 2,8 stigum yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 2,0 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi mældist meðalhitinn 9,6 stig og á Höfn í Hornafirði mældist hann 10,4 stig.
Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.
Meðalhiti (t) í júní 2023 á nokkrum stöðvum. Einnig má sjá vik miðað við meðalhita júnímánaðar 1991 til 2020 (vik 30) annars vegar og 2013 til 2022 (vik 10) hins vegar í °C, ásamt röðun meðalhita mánaðarins í samanburði við aðra júnímánuði frá því að mælingar hófust.
stöð | t | vik 30 | röð | af | vik 10 |
Reykjavík | 9,7 | -0,1 | 54 | 153 | -0,2 |
Stykkishólmur | 9,6 | 0,7 | 18 | 178 | 0,4 |
Bolungarvík | 9,5 | 1,4 | 13 | 126 | 0,9 |
Grímsey | 8,9 | 2,3 | 3 | 150 | 1,4 |
Akureyri | 12,4 | 2,8 | 1 | 143 | 2,0 |
Egilsstaðir | 12,7 | 3,8 | 1 | 69 | 3,0 |
Dalatangi | 8,2 | 1,5 | 6 | 85 | 0,9 |
Teigarhorn | 9,1 | 1,4 | 3 | 151 | 0,8 |
Höfn í Hornaf. | 10,4 | 1,0 | |||
Stórhöfði | 8,8 | 0,1 | 52 til 53 | 147 | 0,2 |
Hveravellir | 7,5 | 1,3 | 6 | 59 | 1,0 |
Árnes | 10,3 | 0,3 | 34 | 143 | 0,3 |
Mánuðurinn var að tiltölu hlýr á austari helmingi landsins, sérstaklega á norðausturfjórðungi landsins, en nær meðallagi á suðvesturhorninu. Að tiltölu var kaldast vestast á landinu en hlýjast var inn til landsins á Austurlandi. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 4,2 stig á Eyjabökkum og Fjarðarheiði en neikvætt hitavik var mest -0,5 stig á Bláfeldi.
Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í júní miðað við síðustu tíu ár (2013 til 2022).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur 12,8 stig í Hallormsstað, en það er hæsti mánaðarmeðalhiti sem mælst hefur í júní á Íslandi. Lægstur var meðalhitinn 4,4 stig á Þverfjalli.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 27,9 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 17. Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur á Íslandi í júní síðan 1988. Lægstur mældist hitinn -4,8 stig í Árnesi þ. 7.
Úrkoma
Mánuðurinn var úrkomusamur á suður- og vesturhelmingi landsins. Í Reykjavík mældist úrkoma mánaðarins 93,4 mm, en það er meira en tvöföld meðalúrkoma júnímánaða árin 1991 til 2020. Nýliðinn mánuður var fimmti úrkomumesti júnímánuður frá upphafi úrkomumælinga í Reykjavík á níunda áratug 19. aldar. Hins vegar mældist úrkoman aðeins 14,9 mm á Akureyri, eða 72% meðallags. Í Stykkishólmi mældist einnig tvöföld meðallagsúrkoma, eða 64,1 mm.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 10, einum fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 4 daga mánaðarins, jafn oft og í meðalári.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir mánaðarins mældust 102,7 í Reykjavík, eða 86,8 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Þetta er sjötti sólskinssnauðasti júnímánuður í Reykjavík frá upphafi sólskinsstundamælinga. Á Akureyri mældust sólksinsstundirnar 224,3 sem er 34,4 stundum yfir meðallagi.
Vindur
Vindur á landsvísu var 0,1 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Suðvestlægar áttir voru ríkjandi fyrri hluta mánaðar en suðaustlægar síðari hluta mánaðarins.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1012,6 hPa sem er jafnt meðallagi júnímánaða 1991 til 2020.
Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1033,3 hPa í Urriðaholti í Garðabæ þ. 1. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 981,4 hPa þ. 28. á Höfn í Hornafirði.
Fyrstu sex mánuðir ársins
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu sex mánuði ársins var 3,4 stig sem er 0,3 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,6 stigum undir meðallagi undanfarins áratugar. Meðalhitinn það sem af er ári raðast í sæti 55 á lista 153 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna sex 3,5 stig sem er 0,7 stigum yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 0,3 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn á Akureyri raðast í 13. sæti á lista 143 ára.
Nokkuð úrkomusamt hefur verið í Reykjavík á árinu en úrkomusnautt á Akureyri. Heildarúrkoma janúar til júnímánaða mældist 521,4 mm í Reykjavík, en það er 30% yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og um 16% yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri mældust á sama tímabili 182,2 mm, eða einungis um 80% meðallags tímabilsins 1991 til 2020 og 71% meðalúrkomu undanfarins áratugar.
Skjöl fyrir júní
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júní 2023 (textaskjal)
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu