Fréttir
Wioletta Maszota, veðurathuganamaður, við úrkomumælinn í Stykkishólmi en þar var alveg úrkomulaust frá 21. maí til 26. júní eða í 37 daga og er það lengsti þurrkur sem mælst hefur þar frá upphafi mæli
Wioletta Maszota, veðurathuganamaður, við úrkomumælinn í Stykkishólmi en þar var alveg úrkomulaust frá 21. maí til 26. júní eða í 37 daga og er það lengsti þurrkur sem mælst hefur þar frá upphafi mælinga árið 1856.

Tíðarfar í júní 2019

Stutt yfirlit

1.7.2019


Mánuðurinn var óvenju þurr. Langur þurrkakafli var á Suður- og Vesturlandi fram eftir mánuðinum. Mjög sólríkt var í þeim landshlutum og fremur hlýtt á meðan svalara var norðan- og austanlands. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í júní var 10,4 stig og er það 1,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,3 stigum yfir meðallagi síðustu 10 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 9,6 stig, 0,5 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 8,9 stig og 9,0 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2009-2018 °C
Reykjavík 10,4 1,3 19 149 0,3
Stykkishólmur 8,9 0,8 45 174 -0,5
Bolungarvík 8,4 1,3 41 122 -0,2
Grímsey 6,4 0,5 54 146 -0,8
Akureyri 9,6 0,5 55 139 -0,4
Egilsstaðir 7,9 -0,8 49 65 -1,3
Dalatangi 6,7 0,5 31 81 -0,4
Teigarhorn 8,0 0,8 35 147 0,1
Höfn í Hornaf. 9,0


-0,1
Stórhöfði 9,1 1,1 23 til 26 142 0,4
Hveravellir 6,6 1,7 14 55 -0,2
Árnes 10,7 1,5 19 140 0,4

Meðalhiti og vik (°C) í júní 2019

Í júní var hlýtt að tiltölu á sunnanverðu landinu á meðan kaldara var norðan og austanlands. Á mynd má sjá hitavik sjálfvirkra stöðva miðað við síðustu tíu ár. Jákvætt hitavik var mest 1,1 stig á Setri en neikvætt hitavik var mest í Bjarnarey, -1,4 stig.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í júní miðað við síðustu tíu ár (2009-2018).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 10,8 stig við Lómagnúp og í Skálholti. Lægstur var meðalhitinn 1,5 stig á Gagnheiði. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 6,2 stig á Rauðanúpi.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 25,3 stig við Skarðsfjöruvita þ. 12. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 24,1 stig á Akureyri þ. 27.

Mest frost í mánuðinum mældist -6,6 stig á Gagnheiði þ. 1. og 2. Mest frost í byggð mældist -6,0 stig á Staðarhóli þ. 7.

Úrkoma

Mánuðurinn var mjög þurr um allt land. Óvenju langur þurrkakafli var á Suður- og Vesturlandi langt fram eftir mánuðinum. Síðustu dagar maímánaðar voru líka þurrir á þeim slóðum og því var víða nánast óslitinn þurrkur í hátt í fjórar vikur.

Í Stykkishólmi var alveg úrkomulaust frá 21. maí til 26. júní eða í 37 daga og er það lengsti þurrkur sem mælst hefur þar frá upphafi mælinga árið 1856. Fyrra met var 35 dagar frá árinu 1931 þegar þurrt var í Stykkishólmi frá 15. maí til 20. júní.

Úrkoma á Suðausturlandi mældist óvenju lítil, þetta var til að mynda þurrasti júní í Snæbýli (athugað frá 1977) og á Stafafelli í Lóni (athugað frá 1990).

Úrkoma í Reykjavík mældist 29,5 mm sem er um 60% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 14,3 mm sem er 50% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 12,3 mm sem er 30% af meðalúrkomu. Í Höfn mældist úrkoman aðeins 7,2 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 5, sex færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 4 daga sem er tveimur færri en í meðalári. Í Stykkishólmi voru úrkomudagarnir 3 og á Höfn í Hornafirði voru þeir 2.

Sólskinsstundafjöldi

Júní var mjög sólríkur, einkum um landið sunnan- og vestanvert.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 303,9 sem er 142,6 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Aðeins fjórum sinnum hafa sólskinsstundirnar verið fleiri í Reykjavík í júní, mest 338,3 stundir árið 1928, en einnig mældust sólskinsstundirnar fleiri en nú árin 2012, 1924 og 2008. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 186,3, sem er 9,7 stundum fleiri en að meðaltali 1961 til 1990.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,6 m/s yfir meðallagi. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi fyrstu 3 vikur mánaðarins en þá urðu sunnan- og vestanáttir tíðari.

Loftþrýstingur

Loftþrýstingur var hár í mánuðinum.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1017,8 hPa og er það 7,7 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1040,6 hPa á Reykjavíkurflugvelli þ. 11. Svo hár þrýstingur hefur aldrei mælst hér á landi í júnímánuði. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 1001,7 á Keflavíkurflugvelli þ. 18.

Fyrstu sex mánuðir ársins

Meðalhiti fyrstu sex mánuði ársins var 4,5 stig sem er 1,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 11. sæti á lista 149 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna sex 3,4 stig. Það er 1,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 17.-19. sæti á lista 139 ára. Úrkoman hefur verið tæp 10% umfram meðallag í Reykjavík, en um meðallag á Akureyri.

Skjöl fyrir júní

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júní 2019 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægtsækja í sérstaka töflu.









Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica