Tíðarfar í júní 2016
Stutt yfirlit
Tíð var hagstæð, þurrkur háði sums staðar gróðri fram eftir mánuði – en þegar upp var staðið varð úrkoma nærri meðallagi. Mjög hlýtt var í mánuðinum um nær allt land, á hálendinu er þetta hlýjasti júní síðan mælingar hófust þar fyrir rúmri hálfri öld og um meginhluta landsins er mánuðurinn í hópi þriggja til sjö hlýjustu júnímánaða frá upphafi mælinga. Sólskinsstundir voru venju fremur fáar suðvestanlands.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík var 10,9 stig, 1,9 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 0,7 ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhiti á Akureyri var 11,8 stig, 2,7 stigum ofan meðaltals 1961 til 1990 og 1,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | meðalh. °C | vik 1961-1990 | röð | af | vik 2006-2015 |
Reykjavík | 10,9 | 1,9 | 7 | 146 | 0,7 |
Stykkishólmur | 10,8 | 2,7 | 3 | 171 | 1,3 |
Bolungarvík | 10,2 | 3,2 | 4 | 119 | 1,4 |
Grímsey | 8,6 | 2,6 | 4 | 143 | 1,4 |
Akureyri | 11,8 | 2,7 | 4 | 135 | 1,8 |
Egilsstaðir | 11,1 | 2,4 | 3 | 62 | 2,0 |
Dalatangi | 7,7 | 1,6 | 9 | 78 | 0,8 |
Teigarhorn | 8,7 | 1,5 | 10 | 144 | 0,9 |
Höfn í Hornafirði | 10,3 | 0,0 | 0,0 | ||
Stórhöfði | 8,8 | 0,8 | 49 | 140 | -0,2 |
Hveravellir | 9,0 | 4,2 | 1 | 51 | 2,4 |
Árnes | 11,4 | 2,1 | 6 | 137 | 1,0 |
Meðalhiti og vik (°C) í maí 2016
Að tiltölu var hlýjast á hálendinu, jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest í Sandbúðum, +3,3 stig. Kaldast að tiltölu var í Vestmannaeyjum og á Stórhöfða var hitinn -0,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára, en +0,1 stig ofan þess í Vestmanneyjabæ.
Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Torfum í Eyjafirði, 12,5 stig, en lægstur á Brúarjökli 2,9 stig. Á láglendi var meðalhiti lægstur í Seley, 6,5 stig.
Mest frost í mánuðinum mældist -2,2 stig á Gagnheiði þann 13. Mest frost í byggð mældist -1,4 stig á Möðruvöllum þann 13. Frostlaust var allan mánuðinn á mönnuðu stöðvunum. Lægsti hiti á þeim mældist 0,4 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 14.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 24,9 stig þ.3. á Egilsstaðaflugvelli. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 21,4 stig í Hjarðarlandi í Biskupstungum þann 3. Þann 1. júní mældist hámarkshiti á Egilsstaðaflugvelli 23,2 stig og er það nýtt landsdægurhámark þess dags.
Úrkoma
Þurrt var framan af mánuði, en síðan skipti um og var síðari hlutinn úrkomusamari.
Úrkoman í Reykjavík mældist 50,7 mm og er það í meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 33,5 mm. Er það um 20 prósent umfram meðalúrkomu og það mesta í júní frá 2005, svipað magn mældist þó í júní 2008. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 44,8 mm sem er um 10 prósent umfram meðaltal og 65,7 mm á Höfn í Hornafirði.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 11 í Reykjavík, eins og í meðallári. Á Akureyri voru slíkir dagar 5, einum færri en í meðalári.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 132,1 eða 29 stundum færri en að meðallagi á árunum 1961 til 1990 og 62 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Sólskinsstundir í júní voru þó færri en nú bæði 2013 og 2014. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 179,3 og er það í meðallagi.
Vindur
Meðalvindhraði var um 0,5 m/s undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og á sjálfvirku stöðvunum var hann 0,6 m/s undir meðallagi síðustu tíu ára. Austlægar áttir voru tíðari en vestlægar og oftar var áttin suðlæg heldur en norðlæg.
Loftþrýstingur
Loftþrýstingur var sérlega hár framan af mánuðinum en aftur á móti með lægra móti síðasta þriðjung hans. Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1012,3 hPa, 2,2 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990.
Hæstur mældist þrýstingurinn í Önundarhorni þ.1. og á Reykjavíkurflugvelli og Fonti þann 2., 1036,9 hPa. Þrýstingur hefur aðeins þrisvar mælst jafnhár eða hærri í júní hér á landi. Hæst er vitað um 1040,4 hPa í Stykkishólmi 21. júní 1939 - þá varð þrýstingur reyndar hærri en nú á fleiri stöðvum. Síðan er vitað um 1038,2 hPa í Stykkishólmi þann 9. júní árið 1903 - og 6. júní 1897 mældist þrýstingur á Akureyri 1036,9 hPa, jafnmikill og hæst nú. Reyndar er nákvæmni þessara eldri mælinga ekki upp á aukastaf - svo nákvæmlega var vart hægt að mæla hæð loftvoganna sjálfra yfir sjávarmáli á þeim tíma.
Lægsti þrýstingur í nýliðnum júnímánuði mældist 982,6 hPa í Surtsey þann 20. Þetta er lægsti þrýstingur sem mælst hefur á landinu í júní síðan 2002.
Fyrstu sex mánuðir ársins
Í Reykjavík var hiti 1,0 stigi ofan meðallagsins 1961 til 1990 en -0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Reykjavík var fyrrihluti ársins í fyrra talsvert kaldari en nú. Raðast hiti þessa tíma nú í 26. til 27. sæti af 146 í Reykjavík. Á Akureyri var hiti nú 1,1 stigum ofan meðallags sömu mánaða 1961 til 1990 en -0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára og raðast í 38. sæti af 135. Fyrrihluti ársins var 0,3 stigum kaldari á Akureyri í fyrra heldur en nú.
Úrkoma er um 84 prósent af meðallagi í Reykjavík en í rétt rúmu meðallagi á Akureyri. Fyrstu sex mánuðir ársins 2010 voru nokkru þurrari í Reykjavík heldur en nú.
Skjöl fyrir júní
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júní 2016 (textaskjal)
Þessa grein, Tíðarfar í júní 2016, er einnig hægt að sækja eða lesa sem pdf.
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt sækja í sérstaka töflu.