Fréttir

Tíðarfar í júlí 2020

Stutt yfirlit

4.8.2020

Júlí var fremur kaldur miðað við það sem algengast hefur verið á síðari árum. Hiti var hins vegar nærri meðallagi áranna 1961 til 1990. Að tiltölu var einna hlýjast um landið suðaustanvert, en hvað kaldast um landið norðanvert og norðaustanvert þar sem mánuðurinn var allvíða kaldari en júní. Þrátt fyrir þetta var tíð í aðalatriðum hagstæð. Vindur og úrkoma voru víðast nærri meðallagi.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í júlí var 10,7 stig og er það 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,3 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 10,1 stig, -0,5 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990, en -1,3 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 9,9 stig og 10,5 stig á Höfn í Hornafirði. Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2010-2019 °C
Reykjavík 10,7 0,2 86 til 87 150 -1,3
Stykkishólmur 9,9 0,0 108 175 -1,2
Bolungarvík 8,8 -0,3 103 123 -1,4
Grímsey 7,6 -0,1 86 til 87 147 -1,3
Akureyri 10,1 -0,5 97 til 98 140 -1,3
Egilsstaðir 9,5 -0,8 58 66 -1,3
Dalatangi 8,3 0,4 44 82 -0,5
Teigarhorn 8,8 0,1 75 til 80 148 -0,6
Höfn í Hornaf. 10,5


-0,4
Stórhöfði 9,8 0,2 93 til 96 144 -0,7
Hveravellir 7,3 0,3 35 56 -1,2
Árnes 11,1 0,2 82 til 84 141 -1,0
Meðalhiti og vik (°C) í júlí 2020.



Hitavik sjálfvirkra stöðva í júlí miðað við síðustu tíu ár (2010–2019).

Fremur kalt var á landinu í júlí miðað við það sem verið hefur á öldinni, ýmist sá næstkaldastur eða þriðjikaldastur síðustu 20 árin. Miðað við síðustu tíu ár voru hitavik jákvæð á örfáum stöðvum á Suðausturlandi, mest +0,4 stig á Ingólfshöfða. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest á fjöllum austanlands, -2,3 stig á Vatnsskarði eystra og víðar þar um slóðir á bilinu -1,8 til -2,0 stig.
Meðalhiti mánaðarins var hæstur við Skarðsfjöruvita 12,0 stig en lægstur 3,1 stig á Gagnheiði. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 6,9 stig á Fonti á Langanesi.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 24,8 stig á Egilsstaðaflugvelli þ.12. Mest frost í mánuðinum mældist -2,0 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 1. og í Miðfjarðarnesi þann 3. Á stöðinni á Dyngjujökli (þar fara þó ekki fram staðlaðar mælingar) fór frostið mest -9,5 stig þann 25. Ekki hefur sést meira frost á hitamæli á landinu í júlí. Frostnætur urðu alls 13 í mánuðinum. Er það óvenjulegt í júlí, en hins vegar var það aðeins á fáum stöðvum í senn, í ýmsum landshlutum. Júlílágmarkshitamet voru sett á allmörgum stöðvum.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 44,7 mm, 14 prósent undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 35,3 mm og er það rétt ofan meðallags áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 27,7 mm.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meira í Reykjavík voru 7, 3 færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 6 daga, einum færri en í meðalári. Mikil úrkoma féll um norðvestan- og norðanvert landið í hvassviðri um miðjan mánuð og munu sólarhringsúrkomumet hafa fallið á fáeinum stöðvum, en uppgjöri er ekki lokið. Vart varð við skriðuföll og ár urðu vatnsmiklar.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 217,5 sem er 46 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 187,8 og er það 29 stundum fleiri en í meðalári.

Vindur

Vindhraði á landsvísu var nærri meðallagi. Norðlægar áttir voru algengari en suðlægar, en vestlægar og austlægar skiptust á. Nokkuð hvasst varð þann 17. og 18. og féllu þá júlívindhraðamet á fáeinum stöðvum.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1008,9 hPa og er það -1,2 hPa neðan meðallags áranna 1961 til 1990. Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1019,3 hPa á Teigarhorni þ. 21. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 979,8 hPa á Skjaldþingsstöðum þann 16.

Fyrstu sjö mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu sjö mánuði ársins var 4,7 stig sem er 0,6 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 41. sæti á lista 150 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna sjö 4,1 stig. Það er 1,0 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 35. sæti á lista 140 ára. Úrkoman hefur verið 13% umfram meðallag í Reykjavík, en 30% umfram meðallag á Akureyri.

Skjöl fyrir júlí

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júlí 2020 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica