Tíðarfar í júlí
Stutt yfirlit
Júlí var fremur kaldur um land allt, miðað við það sem algengast hefur verið á síðari árum. Að tiltölu hlýjast á Suðausturlandi og á Ströndum, en kaldast á Norðausturlandi og við Faxaflóa. Úrkoma var yfir meðallagi víðast hvar. Vestanáttir voru óvenjutíðar í mánuðinum.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík í júlí var 10,6 stig og er það -1,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og einnig -1,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta er kaldasti júlímánuður í Reykavík á þessari öld (júlí 2002 og 2018 voru þó álíka kaldir). Á Akureyri var meðalhitinn 11,2 stig, -0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en -0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var hitinn 10,5 stig og 10,8 stig á Höfn í Hornafirði.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | meðalhiti °C | vik 1991-2020 °C | röð | af | vik 2012-2021 °C |
Reykjavík | 10,6 | -1,1 | 99 | 152 | -1,1 |
Stykkishólmur | 10,5 | -0,2 | 60 | 177 | -0,3 |
Bolungarvík | 9,9 | -0,1 | 59 | 125 | -0,1 |
Grímsey | 8,0 | -0,5 | 72 til 73 | 149 | -0,9 |
Akureyri | 11,2 | -0,1 | 57 | 142 | -0,3 |
Egilsstaðir | 10,4 | -0,4 | 37 | 68 | -0,6 |
Dalatangi | 9,0 | 0,3 | 22 | 84 | -0,1 |
Teigarhorn | 9,6 | 0,2 | 25 | 150 | -0,1 |
Höfn í Hornaf. | 10,8 | 0,0 | |||
Stórhöfði | 9,9 | -0,5 | 91 | 146 | -0,4 |
Hveravellir | 7,9 | -0,3 | 27 til 28 | 58 | -0,5 |
Árnes | 10,9 | -0,9 | 95 | 143 | -1,0 |
Meðalhiti og vik (°C) í júlí 2022
Júlí var fremur kaldur um allt land og ekki mikið um mjög hlýja daga. Mánuðurinn var að tiltölu hlýjastur á Suðausturlandi og á Ströndum. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,7 stig á Gjögurflugvelli. Að tiltölu var kaldast á Norðausturlandi en einnig var kalt við Faxaflóa. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -1,9 stig við Bláfjallaskála.
Hitavik sjálfvirkra stöðva í júlí miðað við síðustu tíu ár (2012-2021).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur við Skarðsfjöruvita og við Lómagnúp, 11,9 stig en lægstur 4,4 stig á Gagnheiði. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 6,9 stig á Fonti á Langanesi.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 23,3 stig á Fáskrúðsfirði þ. 7. Mest frost í mánuðinum mældist -1,6 stig á Gagnheiði þ. 4. og aftur þ. 30. Mest frost í byggð mældist -0,2 stig í Víðidalnum í Reykjavík þ. 13.
Úrkoma
Mánuðurinn var fremur úrkomusamur.
Úrkoma í Reykjavík mældist 72,6 mm sem er 45% umfram meðallag áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 47,5 mm sem er 40% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 47,5 mm og 101,1 mm á Höfn í Hornafirði.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 13, þremur fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 9 daga mánaðarins, tveimur fleiri en í meðalári.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 147,4 í júlí sem er 35,8 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 165,3, sem er 12,8 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Vindur
Vindur á landsvísu var jafn meðallagi áranna 1991 til 2020. Vestanáttir voru óvenjutíðar í mánuðinum.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1009,4 hPa og er það 0,2 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Hæsti loftþrýsingur mánaðarins mældist 1022,9 hPa á Teigarhorni þ. 9. Lægstur mældist þrýstingurinn 984,5 hPa á Höfn í Hornafirði þ. 12.
Fyrstu sjö mánuðir ársins
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu sjö mánuði ársins var 5,0 stig sem er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,1 stigi undir meðalhita síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 31. sæti á lista 152 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna sjö 4,4 stig sem er 0,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,1 stigi undir meðalhita síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 21. sæti á lista 142 ára.
Það hefur verið óvenju úrkomusamt það sem af er ári í Reykavík. Heildarúrkoma mánaðanna sjö var 719,5 mm sem er 55% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Heildarúrkoma hefur aðeins einu sinni mælst meiri í Reykjavík yfir þessa sjö mánuði en nú, en það var árið 1921 þegar heildarúrkoman var 760,4 mm. Á Akureyri hefur heildarúrkoma mánaðanna sjö mælst 316,2 mm sem er 20% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Skjöl fyrir júlí
Meðalhiti
á sjálfvirkum veðurstöðvum í júlí 2022 (textaskjal).