Fréttir
Þetta var algeng sjón í fjölmiðlum í janúar. Gular og appelsínugular viðvaranir.

Tíðarfar í janúar 2020

Stutt yfirlit

4.2.2020


Janúar var mjög illviðrasamur. Meðalvindhraði var óvenju hár og sá hæsti síðan í febrúar 2015. Illviðrisdagar voru óvenju margir, með því mesta sem hefur verið. Úrkoma var vel yfir meðallagi um mest allt land. Mjög snjóþungt var á Vestfjörðum og féllu tvö stór snjóflóð á Flateyri og það þriðja í Súgandafirði þ. 14. Samgöngur riðluðust margoft í mánuðinum vegna óveðurs.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í janúar var 0,3 stig og er það 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -0,4 stig, 1,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn -0,1 stig og 1,7 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 °C röð af vik 2010-2019 °C
Reykjavík 0,3 0,8 58 150 -0,8
Stykkishólmur -0,1 1,2 55 til 56 175 -0,8
Bolungarvík -0,5 0,7 60 123 -1,0
Grímsey 0,9 2,1 28 147 -0,2
Akureyri -0,4 1,8 37 140 -0,1
Egilsstaðir -0,4 2,1 19 66 0,0
Dalatangi 2,6 2,2 21 82 0,4
Teigarhorn 1,7 1,9 28 til 30 148 0,2
Höfn í Hornaf. 1,7


0,2
Stórhöfði 1,9 0,6 59 144 -0,7
Hveravellir -5,2 1,5 22 56 -0,6
Árnes -1,0 1,1 50 141 -0,6

Meðalhiti og vik (°C) í janúar 2020

Að tiltölu var hlýjast á Austurlandi en kaldast á Vestfjörðum og inná hálendi. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,4 stig á Vattarnesi en neikvætt hitavik var mest í Þúfuveri, -1,6. stig.


Hitavik sjálfvirkra stöðva í janúar miðað við síðustu tíu ár (2010-2019).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey 2,9 stig en lægstur -6,8 stig í Sandbúðum. Í byggð var meðalhitinn lægstur -4,1 stig í Svartárkoti.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 15,3 stig á Dalatanga þ. 22. Mest frost í mánuðinum mældist -21,8 stig í Veiðivatnahrauni þ. 3. Mest frost í byggð mældist -20,5 í Víðidal þ. 3.

Úrkoma

Úrkomusamt var á landinu í janúar.

Úrkoma í Reykjavík mældist 124,0 mm sem er 64 % umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 77,9 mm sem er 41 % umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 131,4 mm sem er nærri tvöfalt meiri úrkoma en að meðallagi.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meira í Reykjavík voru 23, 10 fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 20 daga mánaðarins , 9 fleiri en í meðalári.

Snjór

Mikið fannfergi var á Vestfjörðum í janúar. Stór snjóflóð féllu á Flateyri og í Súgandafirði þ. 14 og ollu þar miklu eignatjóni. Öngþveiti varð á Keflavíkurflugvelli í miklu hríðarveðri á Reykjanesi þ. 13.

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 15, einum fleiri en að meðaltali 1971 til 2000. Alhvítt var allan mánuðinn á Akureyri, það er 9 dögum meira en að meðaltali 1971 til 2000. Janúar var síðast alhvítur á Akureyri árið 2014.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 31,7 sem er 4,8 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 2,2 sem er 4,5 stundum færri en í meðalári.

Vindur

Mánuðurinn var óvenju illviðrasamur og miklar samgöngutruflanir urðu vegna veðurs.

Meðalvindhraði í byggðum landsins var óvenjumikill, hefur aðeins einu sinni verið álíka mikill síðan farið var að mæla með sjálfvirkum stöðvum um land allt. Það var í febrúar 2015.

Illviðrisdagar voru óvenju margir, með því mesta sem hefur verið.

Hvassast var á landinu þ. 8. (suðvestanátt) , þ. 14 (norðaustanátt), dagana 19. og 20. (suðvestanátt) og þ. 23. (suðvestanátt). Þessa daga var meðalvindhraði allra sjálfvirkra stöðva í byggð meiri en 10 m/s. Nokkrar samgöngutruflanir urðu fleiri daga í mánuðinum.

Loftþrýstingur

Loftþrýstingur var lágur í janúar.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 984,4 hPa og er það 15,9 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Mánaðarþrýstimeðaltalið er það lægsta í nokkrum mánuði í Reykjavík síðan í febrúar 1997 og lægsta í janúar síðan 1993.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1026,0 hPa á Brú í Jökuldal þ. 21. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 941,1 í Grindavík þ. 10.

Skjöl fyrir janúar

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í janúar 2020 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.













Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica