Fréttir

Tíðarfar í febrúar 2024

Stutt yfirlit

4.3.2024


Febrúar var kaldur og snjór þakti stóran hluta landsins meiri hluta mánaðarins. Tíð var þó tiltölulega góð, það var hægviðrasamt og illviðri óvenjulega fátíð. Norðaustlægar áttir voru algengastar. Það var tiltölulega þurrt suðvestanlands en úrkomusamara norðaustanlands.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í febrúar var -0,9 stig. Það er 1,4 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -2,9 stig, 2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 2,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins -1,6 stig og 0,1 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2014-2023 °C
Reykjavík -0,9 -1,4 92 153 -1,8
Stykkishólmur -1,6 -1,5 107 179 -1,9
Bolungarvík -1,8 -1,1 77 127 -1,8
Grímsey -0,9 -0,8 68 151 -1,4
Akureyri -2,9 -2,0 94 144 -2,5
Egilsstaðir -3,0 -2,0 53 70 -2,4
Dalatangi 0,5 -0,8 49 86 -1,4
Teigarhorn -0,3 -1,1 84 152 -1,6
Höfn í Hornaf. 0,1


-1,5
Stórhöfði 1,2 -0,9 84 148 -1,1
Hveravellir -7,6 -2,2 50 60 -2,6
Árnes -2,8 -1,9 100 145 -2,4

Meðalhiti og vik (°C) í febrúar 2024

Febrúar var kaldur og hiti var vel undir meðallagi á landinu öllu. Að tiltölu var kaldast í innsveitum en hlýjast við strendur á sunnan- og austanverðu landinu. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var minnst -1,0 stig við Ingólfshöfða og á Surtsey, en mest -3,0 stig á Þingvöllum.


Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í febrúar miðað við síðustu tíu ár (2014 til 2023).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 2,4 stig. Lægstur var meðalhitinn við Sátu norðan Hofsjökuls, -8,5 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -6,6 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 10,2 stig á Skrauthólum á Kjalarnesi þ. 17. Mest frost í mánuðinum mældist -26,8 stig við Setur sunnan Hofsjökuls þ. 4. Mest frost í byggð mældist -25,4 stig í Svarárkoti þ. 5.

Úrkoma

Það var tiltölulega þurrt suðvestanlands en úrkomusamara norðaustanlands.

Úrkoma í Reykjavík mældist 55,3 mm sem er um 60% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 74,7 mm sem er um 45% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman í febrúar 56,1 mm og 60,0 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 10 sem eru 4 færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 11 daga sem eru einum fleiri en í meðalári.

Snjór

Það var alhvítt meiri hluta mánaðarins bæði bæði í Reykjavík og á Akureyri, og um mest allt land.

Það voru 17 alhvítir dagar í Reykjavík í febrúar, sem er 5 dögum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Alhvítir dagar á Akureyri voru 26, sem er 10 fleiri að meðaltali 1991 til 2020.

Sólskinsstundafjöldi

Það var sólríkt í Reykjavík. Þar mældust sólskinsstundir 92,0 sem er 30,4 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 43,2 sem er 9,3 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Vindur

Mánuðurinn var hægviðrasamur og illviðri óvenjulega fátíð. Vindur á landsvísu var 0,6 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Norðaustlægar áttir voru algengastar. Hvassast var 2. (suðvestanátt) og 12. (norðaustanátt)

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur mánaðarins var 995,4 hPa í Reykjavík. Það er 3,4 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1020,7 hPa á Egilsstaðaflugvelli þ. 17. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 953,4 hPa hPa á Kirkjubæjarklaustri-Stjórnarsandi þ. 21.

Fyrstu tveir mánuðir ársins

Það hefur verið kalt á landinu það sem af er ári. Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tvo mánuði ársins var -0,5 stig sem er 1,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti fyrstu tveggja mánaða ársins raðast í 86. til 87. hlýjasta sæti á lista 154 ára. Fyrstu tveir mánuðir ársins hafa ekki verið eins kaldir í Reykjavík síðan 2002. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna tveggja -2,2 stig sem er 1,5 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhitinn þar raðast í 90. sæti á lista 144 ára.

Heildarúrkoman í Reykjavík fyrstu tvo mánuði ársins mældist 148,0 mm sem er 83% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist heildarúrkoma mánaðanna tveggja 111,1 mm sem er jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir febrúar

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í febrúar 2024 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica