Fréttir

Tíðarfar í febrúar 2022

Stutt yfirlit

2.3.2022


Febrúar var kaldur, snjóþungur og óvenju illviðrasamur um land allt. Nokkur slæm óveður gengu yfir landið, þau verstu þ. 7. og aftur dagana 21. til 22. og ollu töluverðu tjóni. Samgöngur riðluðust margoft í mánuðinum bæði vegna hvassviðris og snjóþyngsla. Mánuðurinn var með snjóþyngri mánuðum í Reykavík um árabil.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í febrúar var -1,3 stig og er það -1,9 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en -2,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn -2,9 stig, -2,1 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en -3,1 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn -1,8 stig og -1,0 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2012-2021 °C
Reykjavík -1,3 -1,9 107 til 108 152 -2,9
Stykkishólmur -1,8 -1,6 107 177 -2,6
Bolungarvík -2,1 -1,5 80 125 -2,7
Grímsey -1,5 -1,3 85 149 -2,4
Akureyri -2,9 -2,1 93 142 -3,1
Egilsstaðir -3,7 -2,7 56 68 -3,9
Dalatangi -0,2 -1,5 64 84 -2,6
Teigarhorn -1,2 -2,0 115 150 -3,1
Höfn í Hornaf. -1,0


-3,1
Stórhöfði 0,3 -1,7 108 145 -2,4
Hveravellir -8,0 -2,6 51 58 -3,7
Árnes -3,1 -2,2 107 143 -3,4

Meðalhiti og vik (°C) í febrúar 2022

Febrúar var kaldur um land allt. Á landsvísu var þetta kaldasti febrúarmánuður síðan 2002, en þá var hann töluvert kaldari. Að tiltölu var kaldast inn til landsins og á hálendinu. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -4,4 stig í Veðivatnahrauni en minnst -1,9 stig á Gjögurflugvelli.

 

Hitavik sjálfvirkra stöðva í febrúar miðað við síðustu tíu ár (2012-2021).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 0,8 stig á Steinum undir Eyjafjöllum en lægstur -8,9 stig á Sandbúðum. Í byggð var meðalhitinn lægstur -7,2 stig í Möðrudal.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 9,5 stig á Neskaupsstað þ. 25. Mest frost í mánuðinum mældist -26,8 stig í Möðrudal þ. 14.

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 113,8 mm sem er 26% yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 98,2 mm sem er 88% yfir meðallagi. Aðeins fjórum sinnum áður hefur mælst meiri úrkoma á Akureyri í febrúarmánuði, síðast árið 2014. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 71,6 mm og 99,1 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 14, jafnmargir og í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 14 daga mánaðarins, fjórum fleiri en í meðalári.

Snjór

Febrúar var mjög snjóþungur um land allt.

Mánuðurinn var með snjóþyngri mánuðum í Reykavík um árabil. Það þarf að fara aftur til ársins 2000 til að finna svo mikinn og þrálátan snjó í einum mánuði, en meiri snjór var í febrúar það ár. Aðeins 3 sinnum hefur snjór verið meiri að magni í febrúar frá því að samfelldar mælingar á snjódýpt hófust í Reykjavík (það var árin 1925, 1957 og 2000).

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 24 sem er 12 dögum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Alhvítir dagar í febrúarmánuði voru síðast fleiri árið 2016 (27 dagar) en snjómagnið var þó minna en nú og þar á undan árið 2000 (28 dagar). Snjóþyngsli eru þó alls ekki óþekkt í Reykjavík, til að mynda var snóþungt í desember 2014, desemeber 2011 og janúar 2012. Þegar við lítum lengra aftur í tímann má nefna janúar 1993, sem er snjóþyngsti mánuður sem vitað er um í Reykjavík, einnig voru langir snjókaflar veturinn 1989 og sömuleiðis 1983 og 1984. 

Mánuðurinn var einnig snjóþungur á Akureyri en þar hefur þó oft verið snjóþyngra. Alhvítir dagar á Akureyri voru 25, níu fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. 

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 60, sem er 1,6 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 30,7 sem er 3,2 stundum færri en í meðalári.

Vindur

Mánuðurinn var óvenju illviðrasamur. Samgöngur riðluðust margoft í mánuðinum bæði vegna hvassviðris og snjóþyngsla. Vindur á landsvísu var 0,8 m/s yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Nokkur mjög slæm óveður gengu yfir landið. Þau verstu voru  þ. 7. (suðaustan), þ. 21. (suðaustan) og þ. 21. (suðvestan). Töluvert tjón hlaust af þessum veðrum og miklar samgöngutruflanir voru um land allt.

Einnig var mjög hvasst þ. 8. (suðvestan), þ. 20. (norðaustan), þ. 25. (suðaustan) og þ. 28. (norðaustan).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýsingur í Reykjavík mældist 988,5 hPa og er það 10,3 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1016,1 hPa á Egilsstaðaflugvelli þ. 10. Lægstur mældist loftþrýsingurinn 945,5 hPa á Seltjarnarnesi þ. 22.

Fyrstu tveir mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tvo mánuði ársins var -0,1 stig sem er -0,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en -1,2 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 61. til 62. sæti á lista 152 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna tveggja -1,3 stig. Það er -0,6 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en -1,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 59. til 60. sæti á lista 142 ára.  Það hefur verið úrkomusamt það sem af er ári, úrkoman í Reykjavík hefur verið 45% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020 og á Akureyri hefur úrkoman verið 23% umfram meðallag.

Skjöl fyrir febrúar

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í febrúar 2022 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica