Tíðarfar í apríl 2023
Stutt yfirlit
Tíðarfar
var hagstætt í apríl. Mánuðurinn var hægviðrasamur og hlýr á
landinu öllu. Það kólnaði þó talsvert síðustu vikuna.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík í apríl var 5,3 stig og er það 1,6 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 1,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Mánuðurinn var 7. hlýjasti aprílmánuður í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga. Á Akureyri var meðalhitinn 4,2 stig, 1,6 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 1,0 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,0 stig og 4,4 stig á Höfn í Hornafirði.
Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.
stöð | meðalhiti °C | vik 1991-2020 °C | röð | af | vik 2013-2022 °C |
Reykjavík | 5,3 | 1,6 | 7 | 153 | 1,2 |
Stykkishólmur | 4,0 | 1,3 | 11 | 178 | 0,8 |
Bolungarvík | 3,2 | 1,7 | 9 til 10 | 126 | 1,1 |
Grímsey | 2,1 | 0,9 | 20 | 150 | 0,4 |
Akureyri | 4,2 | 1,6 | 16 til 17 | 143 | 1,0 |
Egilsstaðir | 3,4 | 1,4 | 14 | 69 | 0,8 |
Dalatangi | 2,8 | 0,7 | 19 til 21 | 85 | 0,3 |
Teigarhorn | 3,3 | 0,4 | 36 | 151 | 0,1 |
Höfn í Hornaf. | 4,4 | 0,4 | |||
Stórhöfði | 5,2 | 1,3 | 11 | 147 | 1,2 |
Hveravellir | -0,1 | 2,2 | 5 | 59 | 1,8 |
Árnes | 4,3 | 1,4 | 14 | 143 | 1,0 |
Meðalhiti og vik (°C) í apríl 2023
Mánuðurinn
var hlýr á landinu öllu, en það kólnaði þó talsvert síðustu
vikuna. Að tiltölu var hlýjast inn til landsins suðvestan- og
norðaustanlands og inná hálendi. En það var kaldast að tiltölu
á annesjum norðaustan- og austanlands. Jákvætt hitavik miðað
við síðustu tíu ár var mest 2,2 stig við Veiðivatnahraun en
minnst 0,1 stig á Kambanesi.
Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í apríl miðað við síðustu tíu ár (2013 til 2022).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur 6,3 stig í Surtsey en lægstur -2,7 stig á Gagnheiði. Í byggð var meðalhitinn lægstur 0,5 stig í Svartárkoti.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 18,4 stig í Hallormsstað þ. 19. Mest frost í mánuðinum mældist -18,6 stig við Setur þ. 28. Í byggð mældist frostið mest -11,9 stig á Staðarhóli í Þingeyjarsýslu.
Úrkoma
Mánaðarúrkoman í Reykjavík mældist 87,0 mm sem er 50 % yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoma mánaðarins 21,7 mm sem er um 85 % af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 49,9 mm.
Dagar þegar úrkoma var 1,0 mm eða meiri voru 16 í Reykjavík, eða fimm dögum fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 4 daga mánaðarins, tveimur færri en í meðalári.
Snjór
Í Reykavík var jörð alhvít einn morgun mánaðarins, það var þ. 27. og mældist snjódýptin 11 cm. Það er heldur fátítt að alhvítur dagur sé skráður svo seint í Reykjavík. Það snjóaði víðar suðvestanlands þennan dag og það var t.a.m. talsverður snjór á Selfossi, Hellu og Hvolsvelli. Mánuðurinn var alauður á Akureyri, en þar er jörð að jafnaði alhvít fimm daga í apríl.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 170,4 sem er 5,3 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 165,7 sem er 38,2 stundum fleiri en í meðalári.
Vindur
Apríl var tiltölulega hægviðrasamur. Vindur á landsvísu var 0,8 m/s undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Austlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum. Hvassast var þ. 7. (suðaustanátt).
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur mánaðarins mældist 1012,5 hPa í Reykjavík og er það 3,2 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1037,4 hPa í Grímsey þ. 21. Lægsti mældi loftþrýstingur mánaðarins var 985,4 hPa á Teigarhorni þ. 11.
Fyrstu fjórir mánuðir ársins
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fjóra mánuði ársins mældist 1,0 stig sem er 0,5 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti mánaðanna fjögurra raðast í 63. til 65. hlýjasta sæti á lista 153 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna fjögurra 0,2 stig, sem er 0,2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 40. hlýjasta sæti á lista 143 ára.
Úrkoma í Reykjavík það sem af er ári hefur mælst 307,5 mm sem er 97% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 153,1 mm sem er 82% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Skjöl fyrir apríl
Meðalhiti
á sjálfvirkum veðurstöðvum í apríl 2023 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.