Tíðarfar í apríl 2019
Hlýjasti aprílmánuður frá upphafi mælinga á sex veðurstöðvum
Óvenjulega hlýtt var á landinu öllu í apríl. Þetta var hlýjasti aprílmánuður frá upphafi mælinga í Reykjavík, Stykkishólmi, Bolungarvík, Grímsey, á Akureyri og á Hveravöllum. Suðaustlægar áttir voru ríkjandi. Þurrt og bjart var norðanlands en blautara syðra. Gróður tók vel við sér.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík mældist 6,5 stig, 3,6 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 2,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 6,9 stig, 5,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 4,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 5,8 stig og 6,0 stig á Höfn í Hornafirði.
Mánuðurinn var hlýjasti aprílmánuður frá upphafi mælinga í Reykjavík, Stykkishólmi, Bolungarvík, Grímsey, á Akureyri og á Hveravöllum. Á landsvísu var mánuðurinn sá næsthlýjasti, hlýrra var í apríl 1974.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | meðalhiti °C | vik 1961-1990 °C | röð | af | vik 2009-2018 °C |
Reykjavík | 6,5 | 3,6 | 1 | 149 | 2,8 |
Stykkishólmur | 5,8 | 4,2 | 1 | 174 | 2,9 |
Bolungarvík | 5,1 | 4,3 | 1 | 122 | 3,3 |
Grímsey | 4,6 | 4,7 | 1 | 146 | 3,3 |
Akureyri | 6,9 | 5,3 | 1 | 139 | 4,2 |
Egilsstaðir | 5,5 | 4,3 | 2 | 65 | 3,3 |
Dalatangi | 4,3 | 2,8 | 4 | 81 | 1,8 |
Teigarhorn | 4,8 | 2,6 | 6 | 147 | 1,7 |
Höfn í Hornaf. | 6,0 | 2,1 | |||
Stórhöfði | 5,6 | 2,2 | 5 | 142 | 1,7 |
Hveravellir | 1,5 | 4,8 | 1 | 55 | 3,7 |
Árnes | 6,1 | 4,0 | 2 | 140 | 3,1 |
Meðalhiti og vik (°C) í apríl 2019
Óvenjulega hlýtt var á landinu öllu í apríl, mánuðurinn var sá hlýjasti frá upphafi mælinga á allmörgum stöðvum og hitamet slegin víða. Vikin voru mest á Norðurlandi en minni við suður- og austurströndina. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 4,5 stig við Mývatn en minnst 1,5 stig í Papey.
Hitavik sjálfvirkra stöðva í apríl miðað við síðustu tíu ár (2009-2018).
Meðalhiti mánaðarins var hæstur 7,2 stig við Sandfell í Öræfum en lægstur -1,2 stig á Gagnheiði. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, 2,6 stig.
Mest frost í mánuðinum mældist -18,2 stig á Setri þ. 1. Mest frost í byggð mældist -15,5 stig í Möðrudal þ. 3.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 19,3 stig á Þingvöllum þ. 30. Fjöldi aprílhitameta féll á veðurstöðvum landsins, flest þ. 30. en að auki var sumardagurinn fyrsti sem var þ. 25., mjög hlýr. Nýtt aprílhitamet var m.a. sett í Reykjavík þann 30. þegar hitinn mældist 17,1 stig, sem er það hæsta síðan hitinn mældist 15,2 stig þ. 29.apríl 1942.
Úrkoma
Þurrt var norðanlands á meðan úrkomusamara var sunnantil á landinu.
Úrkoma í Reykjavík mældist 81,4 mm sem er 40 % umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman aðeins 7,5 mm sem er um 25% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Ekki hefur rignt eins lítið á Akureyri í aprílmánuði síðan árið 2000. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 45,7 mm og 161,2 mm á Höfn í Hornafirði.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 19, fimm fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 2 daga, 4 færri en í meðalári.
Snjór
Alhvítir dagar voru 3 í Reykjavík og er það jafnt meðallagi áranna 1971 til 2000. Aldrei varð alhvítt á Akureyri en þar eru að jafnaði 9 alhvítir dagar í apríl.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 116,4, sem er 23,7 stundum færri en í meðalári. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 168,5, sem er 38,8 stundum fleiri en í meðalári.
Vindur
Suðaustlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum. Vindur á landsvísu var 0,1 m/s yfir meðallagi. Suðaustanhvassviðri gekk yfir landið dagana 12. og 13. og aftur þ. 16.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1011,0 hPa og er það 0,5 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1034,6 hPa á Egilsstaðaflugvelli þ. 7. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 983,2 hPa í Straumsvík þ. 23.
Fyrstu fjórir mánuðir ársins
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fjóra mánuði ársins var 2,3 stig sem er 1,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,3 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 14. sæti á lista 149 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna fjögurra 1,2 stig. Það er 2,0 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 17. til 18. sæti á lista 139 ára. Úrkoma hefur verið 20% umfram meðallag í Reykjavík, en 15% umfram meðallag á Akureyri.
Skjöl fyrir apríl
Meðalhiti
á sjálfvirkum veðurstöðvum í apríl 2019 (textaskjal).
Daglegtyfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægtsækja í sérstaka töflu.