Fréttir
Blíða yfir Bessastöðum á árinu 2022. Tignarlegt ský myndaðist yfir gosstöðvunum.

Tíðarfar í ágúst

Stutt yfirlit

2.9.2022


Ágústmánuður var að tiltölu kaldur um allt land. Þó voru hlýindi um norðaustanvert landið undir lok mánaðar og hæsti hiti sumarsins mældist á Mánárbakka þ.30. Fremur sjaldgæft er að hæsti hiti ársins mælist svo síðla árs. Mánuðurinn var almennt þurrari og sólríkari en í meðalári bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Hiti

Í ágúst var meðalhiti í Reykjavík 10,2 stig sem er 0,9 stigum undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 1,1 stigi undir meðallagi undanfarins áratugar. Á Akureyri var meðalhitinn 10,0 stig eða 0,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,9 stigum undir meðallagi undanfarinna tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 10,1 stig og á Höfn í Hornafirði var hann 10,2 stig.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1991-2020 °C röð af vik 2012-2021 °C
Reykjavík 10,2 -0,9 96 152 -1,1
Stykkishólmur 10,1 -0,4 63 177 -0,5
Bolungarvík 9,1 -0,5 65 125 -0,7
Grímsey 8,3 -0,5 54 149 -0,7
Akureyri 10 -0,7 66 142 -0,9
Egilsstaðir 10,2 -0,2 31 68 -0,1
Dalatangi 9,5 0,3 21 84 0,0
Teigarhorn 9,7 0,0 27 til 29 150 -0,1
Höfn í Hornaf. 10,2


-0,3
Stórhöfði 9,8 -0,6 78 146 -0,6
Hveravellir 6,1 -1,2 42 til 43 58 -1,4
Árnes 10,3 -0,7 82 til 83 143 -0,7

Meðalhiti og vik (°C) í ágúst 2022

Ágúst var kaldur um allt land. Meðalhiti í ágúst var lægri en meðalhiti ágústmánaðar undanfarinn áratug á nánast öllum veðurstöðvum landsins. Jákvætt hitavik miðað við undanfarin tíu ár var mest 0,1 stig í Seley . Neikvætt hitavik var mest -1,8 stig í Bláfjallaskála.


Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í ágúst miðað við síðustu tíu ár (2012 til 2021)

Meðalhiti mánaðarins mældist hæstur 11,5 stig á Steinum undir Eyjafjöllum en lægstur 4,0 stig á Þverfjalli. Lægsti mánaðarmeðalhiti í byggð mældist 7,4 stig í Möðrudal.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 25,0 stig á Mánárbakka þ. 30., en það er jafnframt hæsti mældi hiti sumarsins. Fremur sjaldgæft er að hámarkshiti sumars mælist svo seint á árinu. Lægsti hiti mánaðarins mældist -4,3 stig á Þingvöllum þ.16.

Úrkoma

Heildarúrkoma mánaðarins mældist 54,8 mm í Reykjavík, eða um 85% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 28,6 mm í ágúst, en það er 69% af meðalúrkomu ágústmánaðar á tímabilinu 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældust 66,4 mm og 107,9 mm á Höfn í Hornafirði.

Úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri 8 daga mánaðarins í Reykjavík, eða þremur dögum sjaldnar en í meðalári á tímabilinu 1991 til 2020. Fjöldi daga þegar úrkoma mældist 1,0 mm á Akureyri var 9 sem er einum degi oftar en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Í Reykjavík mældust sólskinsstundir mánaðarins 189,2 en það er 24,4 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 164,8 sólskinsstundir í ágúst, sem er 26,8 stundum yfir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020.

 Vindur

Vindur á landsvísu var 0,3 m/s yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Hvassast var þ. 30 (SSA-átt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1008,1 hPa og er það 0,5 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1028,5 hPa á Teigarhorni þ. 30. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 982,1 hPa á Höfn í Hornafirði þ.19.

Sumarið það sem af er (júní til ágúst)

Sumarið var kalt, sér í lagi þegar sumur þessarar aldar eru skoðuð. Mjög hlýir dagar voru fáir.

Meðalhiti í Reykjavík var 10,1 stig sem er 0,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Sumarið (júní til ágúst) í Reykjavík var það næstkaldasta á þessari öld, það var kaldara sumarið 2018. En á langa listanum er meðalhiti sumarmánaðanna þriggja í 84. til 85.sæti á lista 152 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 10,3 stig, 0,2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 60. sæti á lista 142 ára. Meðalhiti sumarsins (júní til ágúst) á Akureyri er 2,5 stigum lægri en meðalhiti sumarsins í fyrra, en það sumar var það hlýjasta á Akureyri frá upphafi mælinga.

Úrkoma í Reykjavík mældist 193,4 mm sem er 23% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoma sumarmánaðanna þriggja 96,0 mm sem er jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 4 fleiri en í meðalári í Reykjavík og einnig 4 fleiri en í meðalári á Akureyri.

Sólskinsstundir mældust 537,8 í Reykjavík sem er jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 478,2 sem er 2 færri en að meðaltali áranna 1991 til 2020.

Fyrstu átta mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu átta mánuði ársins var 5,7 stig sem er við meðallag áranna 1991 til 2020 og 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 37. sæti á lista 152 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna átta 5,1 stig. Það er 0,2 stigum yfir meðallagi sama tímabils á árunum 1991 til 2020 en 0,2 stigum undir meðallagi undanfarins áratugar. Þar raðast meðalhitinn í 22. til 23. sæti á lista 142 ára.

Úrkomusamt hefur verið í Reykjavík það sem af er ári, en heildarúrkoman þar mældist 774,3 mm fyrstu átta mánuði ársins. Það er 47% umfram meðallag sömu mánaða árin 1991 til 2020. Heildarúrkoma hefur aðeins tvisvar sinnum mælst meiri í Reykjavík yfir fyrstu 8 mánuði ársins en nú, en það var árið 1921 (788,5 mm ) og 1925 (778,0 mm). Heildarúrkoma fyrstu átta mánuða ársins mældist 344,8 mm á Akureyri, en það er 12% yfir meðallagi 1991 til 2020.

Skjöl fyrir ágúst

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í ágúst 2022 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.

 








Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica