Fréttir

Tíðarfar ársins 2025

Yfirlit

28.1.2026


Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga. Meðalhiti í byggðum landsins var 5,2 stig sem er 1,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og hefur aldrei verið hærri. Hiti var vel yfir meðallagi nær alla mánuði ársins. Tíðarfar vorsins var einstaklega gott. Vorið var það hlýjasta sem hefur verið skráð á landsvísu og maí var langhlýjasti maímánuður frá upphafi. Um miðjan maí var 10 daga löng hitabylgja yfir öllu landinu sem er sú mesta sem vitað er um hér á landi í maímánuði. Í heild var árið óvenju hægviðrasamt, illviðri voru fátíð og tíð góð. Það var tiltölulega blautt í byrjun árs en þurrt í árslok. Árið var snjólétt á landinu öllu.

Tíðarfar vetrarins 2024 til 2025 var að mestu hagstætt. Hitafar var þó nokkuð tvískipt. Desember og janúar voru kaldir en febrúar og mars voru hlýir og snjóléttir. Veturinn í heild var tiltölulega hægviðrasamur og tíð góð. Töluvert var þó um illviðri í febrúar. Mikið sunnanhvassviðri gekk yfir landið dagana 5. og 6. febrúar sem bætist í hóp verstu óveðra síðustu ára.

Vorið var, eins og áður kom fram, einstaklega hlýtt. Tíð var mjög góð og gróður tók óvenju snemma við sér það. Það var sérlega hlýtt í aprílbyrjun og um miðjan maí var 10 daga löng hitabylgja yfir öllu landinu. Ný meðal- og hámarkshitamet fyrir maímánuð voru sett á flestum veðurstöðvum landsins. Maíhámarkshitametið fyrir landið var fellt fjórum sinnum í þremur ólíkum landshlutum og fór hitinn hæst í 26,6 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 15. maí.

Júní var aftur á móti kaldur og víða var meðalhiti júnímánaðar lægri en meðalhitinn í maí. Loftþrýstingur var óvenju lágur og það var mjög úrkomusamt á Norður- og Norðausturlandi. Júlí og ágúst einkenndust af hlýindum. Júlí var óvenjuhlýr, sá hlýjasti á landsvísu frá upphafi mælinga (ásamt júlí 1933). Hlýir dagar voru margir í júlí og ágúst. Mjög hlýtt var 14. júlí þegar hiti mældist 20 stig eða meiri á um 70% allra veðurstöðva. Nýtt ágústhámarkshitamet fyrir landið var sett 16. ágúst þegar hitinn mældist 29,8 stig á Egilsstaðaflugvelli.

September var mjög úrkomusamur á Norður- og Austurlandi. Sérlega úrkomusamt var á Austfjörðum og á Ströndum og þar var mánuðurinn víða með blautari septembermánuðum sem vitað er um. Vætutíð mánaðarins fylgdu talsverðir vatnavextir og eitthvað var um skriður og grjóthrun, mest þá á Austfjörðum.

Fyrri hluti októbermánaðar var mjög hlýr en seinni hlutinn var kaldur og talsverður snjór var á norðurhluta landsins. Að kvöldi þess 27. október fór að snjóa á höfuðborgarsvæðinu og þar kyngdi niður snjó þar til seinnipart næsta dags. Snjódýptin í Reykjavík mældist mest 40 cm en það er langmesta snjódýpt sem mælst hefur þar októbermánuði. Snjórinn olli miklum samgöngutruflunum og umferðaröngþveiti í borginni.

Nóvember var kaldur og þurr um land allt. Vindur var óvenjulega hægur og tíð var góð.

Desember var mjög hlýr og var hiti langt yfir meðallagi á landinu öllu. Á landsvísu var þetta þriðji hlýjasti desembermánuður frá upphafi mælinga. Jólin voru sérstaklega hlý. Nýtt desemberhámarkshitamet fyrir landið var sett þegar hiti mældist 19,8 stig á Seyðisfirði seint á aðfangadagskvöld.

Hiti

Ársmeðalhiti í byggðum landsins var 5,2 stig sem er 1,1 stigi yfir meðalhita áranna 1991 til 2020. Á landsvísu var árið 2025 það hlýjasta frá upphafi mælinga. Áður var árið 2014 hlýjasta árið á landsvísu.

Meðalhiti ársins í Reykjavík var 6,1 stig sem er 1,0 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,9 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 5,7 stig sem er 1,3 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri var meðalhitinn 5,2 stig sem er 1,0 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,9 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Egilsstöðum var meðalhitinn 5,1 stig sem er 1,2 stigum yfir meðallagi. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhiti ársins 6,5 stig sem er 1,0 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhita ársins og vik fleiri stöðva má sjá í töflu 1.

Árið var það hlýjasta á mörgum af þessum stöðvum, meðal annars í Stykkishólmi þar sem hiti hefur verið mældur samfleytt í 180 ár, allt frá árinu 1845. Árið var einnig það hlýjasta í Reykjavík, Bolungarvík, Grímsstöðum á Fjöllum, Dalatanga og Stórhöfða og næsthlýjasta árið á Egilsstöðum, Teigarhorni og Keflavíkurflugvelli.

Á þessum stöðvum voru það ýmist árin 2014, 2016 eða 2003 sem voru áður þau hlýjustu eða álíka hlý, mismunandi eftir landshlutum.

Tafla 1: Meðalhiti og vik ársins 2025 á nokkrum stöðum

stöð hiti °C vik 1991-2020 röð af vik 2015-2024
Reykjavík 6,1 1,0 1 155 0,9
Hvanneyri 5,2 # 3 28 1,0
Bláfeldur 5,8 # 2 28 1,0
Stykkishólmur 5,7 1,3 1 180 1,2
Bolungarvík 5,1 1,3 1 128 1,1
Litla-Ávík 4,8 # 2 30 1,0
Blönduós 4,8 # 1 24 1,1
Grímsey 4,6 1,1 3 152 0,8
Akureyri 5,2 1,0 3 145 0,9
Grímsstaðir 2,8 1,4 1 119 1,3
Miðfjarðarnes 4,2 # 2 26 0,8
Skjaldþingsstaðir 5,1 # 1 32 1,1
Egilsstaðir 5,1 1,2 2 71 1,1
Dalatangi 5,4 0,9 1 87 0,6
Teigarhorn 5,4 0,9 2 152 0,7
Höfn í Hornaf. 6,0


0,6
Fagurhólsmýri 6,3 1,0 2 123 0,9
Vatnsskarðshólar 7,0 1,3 1 86 1,1
Stórhöfði 6,5 1,0 1 149 1,0
Árnes 5,3 0,9 2 145 0,9
Hjarðarland 4,9 0,9 4 36 0,8
Hveravellir 1,1 1,1 2 61 1,1
Eyrarbakki 5,7 0,8 3 145 0,7
Keflavíkurflugvöllur 6,1 1,0 2 73 1,0


Ársmeðalhitinn var hæstur 7,3 stig í Surtsey. Lægstur var ársmeðalhitinn -0,1 stig á Gagnheiði og lægsti ársmeðalhitinn í byggð var 2,5 stig í Möðrudal.

Ársmeðalhitinn var vel yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum landsins (sjá mynd 1). Að tiltölu var hlýjast á hálendinu norðan- og norðaustanlands en kaldast við austurströndina. Jákvætt hitavik var mest 1,4 stig á Hallormsstaðahálsi, Mývatni, við Hafnarfjall í Siglufirði, Upptyppingum og Grímsstöðum á Fjöllum en vikin voru minnst 0,5 stig í Seley, Vattarnesi og Kambanesi.


Mynd 1: Hitavik sjálfvirkra stöðva árið 2025 miðað við síðustu tíu ár (2015-2024).

Hæsti hiti ársins mældist 29,8 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 16. ágúst. Það er hæsti hiti sem mælst hefur í ágústmánuði á Íslandi. Þetta er jafnframt hæsti hiti sem mælst hefur á sjálfvirkri veðurstöð á Íslandi og hæsti hiti sem skráður hefur verið á landinu frá árinu 1946, þegar hitinn fór í 30,0 stig á Hallormsstað. Mesta frost ársins mældist -25,9 stig í Möðrudal þ. 30. janúar. Það var einnig lægsti hiti ársins í byggð.

Hæsti hiti ársins í Reykjavík mældist 21,8 stig þ. 14. júlí, en mesta frostið -10,9 stig þ. 1. janúar. Af öllum stöðvum höfuðborgarsvæðisins mældist hitinn hæstur 24,8 stig á Hólmsheiði þ. 14. júlí, en mesta frostið -21,7 stig í Víðidal þ. 9. janúar. Á Akureyri mældist hæsti hiti á árinu 24,5 stig þ. 7. júlí, en mesta frostið -17,1 stig þ. 9. janúar.


Mynd 2: Ársmeðalhiti í byggðum landsins frá 1874 til 2025. Brotna línan sýnir meðalárshita áranna 1991 til 2020; árin sem eru hlýrri en meðaltalið eru merkt með rauðum punkti en þau sem eru kaldari með bláum punkti.

Árið 2025 einkenndist af miklum hlýindum. Eins og fram kom hér að ofan var árið 2025 það hlýjasta á landsvísu frá upphafi mælinga (sjá mynd 2). Árið 2024 var aftur á móti óvenjukalt ef miðað er við hitafar þessarar aldar og því talsverður munur á milli ára eða um 1,8 stig. Flest árin eftir síðustu aldamót hafa verið hlý og þegar meðalárshita áranna 1874 til 2025 er raðað í hitaröð eru fjögur af fimm hlýjustu árum landsins frá þessari öld (sjá mynd 3). Köldustu árin eru aftur á móti öll frá 19. öld þegar hiti var talsvert lægri en nú.



Mynd 3: Ársmeðalhiti í byggðum landsins. Súluritið sýnir fimm hlýjustu og fimm köldustu árin, ásamt meðaltali áranna 1991 til 2020.

Hiti var vel yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 alla mánuði ársins, nema í janúar, júní, október og nóvember. Maí var langhlýjasti maímánuður frá upphafi mælinga, júlí var hlýjasti júlímánuðurinn (ásamt júlí 1933 sem var jafnhlýr) og desember var þriðji hlýjasti desembermánuður frá upphafi.

Vorið (apríl og maí) var jafnframt það hlýjasta sem skráð hefur verið á landsvísu. Hitabylgjan í maí, sem stóð yfir dagana 13.– 22. maí, var sú mesta sem vitað er um í maímánuði. Ný landshámarkshitamet voru sett í þremur mánuðum ársins, í maí, ágúst og desember (sjá töflu fyrir neðan).

Mánuður Ný hámarkshitamet fyrir einstaka mánuði Eldra met
Maí 26,6 stig, Egilsstaðaflugvöllur 15.maí 2025 25,6 stig, Vopnafjörður 26. maí 1992
Ágúst 29,8 stig, Egilsstaðaflugvöllur 16.ágúst 2025 29,4 stig, Hallormsstaðaskógur 24. ágúst 2021
Desember  19,8 stig, Seyðisfjörður 24. desember 2025 19,7 stig,  Kvísker 2. desember 2019



Mynd 4: Landsmeðalhiti hvers sólarhrings á árinu 2025 sýndur sem vik frá landsmeðalhita síðustu 10 ára (2015-2024). Hitasveiflur eru alltaf meiri yfir vetrarmánuðina. Janúar var að mestu kaldur en febrúar og mars hlýir. Það var sérlega hlýtt í aprílbyrjun og maí var langhlýjasti maímánuður sem vitað er um. Júní var aftur á móti kaldur en það var að mestu hlýtt í júlí og fram í miðjan október. Seinni helmingur októbermánaðar og nóvember voru kaldir. Árið endaði á óvenjulega hlýjum desember.

Á mynd 4 má sjá landsmeðalhita hvers dags á árinu 2025 sem vik frá meðalhita síðustu tíu ára.

Hlýindi ársins voru á margan hátt óvenjuleg en hitabylgjan sem stóð yfir dagana 13. til 22. maí 2025 er sá atburður sem sker sig hvað mest úr. Hún orsakaðist af langvarandi hæð við Færeyjar sem færðist síðan smám saman yfir Ísland. Hæðin beindi hlýju lofti úr suðri til landsins dögum saman og var hiti langt yfir því sem vanalegt er á þessum árstíma. Þrátt fyrir að dæmi séu til um svipuð veðurskilyrði, var hitabylgjan þessa daga óvenjuleg að því leyti hversu snemma árs hún átti sér stað, hversu lengi hún stóð og hversu útbreidd hún varð. Hiti mældist 20 stig eða meiri einhvers staðar á landinu 10 daga í röð en það er fátítt að slíkir dagar komi í maí. Hlýindin náðu hámarki helgina 17. til 18. maí. Þá daga fór hitinn upp í 20 stig eða meira á um helmingi allra veðurstöðva landsins. Maíhámarkshitametið fyrir landið var fellt fjórum sinnum í þremur ólíkum landshlutum og fór hitinn hæst í 26,6 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 15. maí. Auk þess voru ný maíhámarkshitamet skráð á nánast öllum veðurstöðvum landsins. Sjá ítarlegri umfjöllun um hitabylgjuna hér .

Maímánuður í heild sinni var líka hlýrri en nokkru sinni fyrr. Meðalhiti í byggðum landsins var 8,4 stig og fór þar með vel yfir fyrra met frá 1935 þegar meðalhitinn var 7,6 stig. Mánuðurinn var einnig sá hlýjasti á langflestum veðurstöðvum landsins. Á Norðaustur- og Austurlandi eru ný maímánaðarhitamet miklu hærri en gömlu metin. Meðalhitinn á Grímsstöðum á Fjöllum er t.d. 1,8 stigum hærri en fyrra met þar og á Egilsstöðum er munurinn 1,6 stig. Munurinn er ekki eins afgerandi á sunnan- og vestanverðu landinu.

Vorið (apríl og maí) var jafnframt það hlýjasta á landsvísu, áður var vorið 1974 það hlýjasta. Þar munaði miklu um hlýindin í maí en apríl var líka óvenjulega hlýr og þá sérstaklega fyrstu 10 daga mánaðarins.

Sumarið í heild var tiltölulega hlýtt, þá sérstaklega júlí og ágúst, en júní var kaldur. Júlí var óvenjuhlýr, sá hlýjasti á landsvísu frá upphafi mælinga (ásamt júlí 1933). Hlýir dagar voru margir í júlí og ágúst. Mjög hlýtt var 14. júlí þegar hiti mældist 20 stig eða meiri á um 70% allra veðurstöðva. Hæstur fór hitinn í 29,5 stig á Hjarðarlandi í Biskupstungum, sem er á meðal hæstu hitatalna sem þekkjast hér á landi. Nýtt ágústhámarkshitamet fyrir landið var svo sett 16. ágúst þegar hitinn mældist 29,8 stig á Egilsstaðaflugvelli.

Dagar þegar hiti mældist 20 stig eða meiri einhvers staðar á landinu voru 64 þetta árið sem er í meira lagi (11 í maí, 3 í júní, 28 í júlí, 20 í ágúst, 1 í september og 1 í október). Slíkir dagar voru jafn margir árið 2021, þegar sumarið var einstaklega hlýtt og sólríkt á Norðaustur- og Austurlandi.

Desember var óvenjulega hlýr og var hiti langt yfir meðallagi á landinu öllu. Á landsvísu var þetta þriðji hlýjasti desembermánuður frá upphafi mælinga. Það var hlýrra í desember 1933 og 2002. Jólin voru sérstaklega hlý þegar sunnan hvassviðri gekk yfir landið. Nýtt desemberhámarkshitamet fyrir landið var sett þegar hiti mældist 19,8 stig á Seyðisfirði seint á aðfangadagskvöld.

Á mynd 5 má sjá hitavik hvers mánaðar 2025 frá fjórum veðurstöðvum, Reykjavík, Stykkishólmi, Akureyri og Dalatanga miðað við meðalhita áranna 1991 til 2020. Þar má sjá að hiti var vel yfir meðallagi alla mánuði ársins nema í janúar, júní, október og nóvember. Janúar og nóvember voru talsvert kaldari á Norður- og Austurlandi heldur en á Suður- og Vesturlandi.



Mynd 5: Hitavik hvers mánaðar 2025 í Reykjavík, Stykkishólmi, Akureyri og Dalatanga miðað við meðalhita áranna 1991 til 2020. Hitasveiflur eru alltaf meiri yfir vetrarmánuðina og vikin því hlutfallslega meiri þar.

Úrkoma

Ársúrkoma var undir meðallagi síðustu tíu ára um mest allt land en víða yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Blautt var í byrjun árs en þurrt í lok þess.

Ársúrkomu nokkurra mannaðra veðurstöðva má sjá í töflu 2, ásamt mestu sólarhringsúrkomu, fjölda úrkomudaga o.fl. Á mynd 6 má sjá ársúrkomu þessara sömu stöðva sem hlutfall af meðalúrkomu síðustu tíu ára (2015 til 2024).

Tafla 2: Ársúrkoma (mm) í fyrsta dálki. (2) Hlutfall miðað við árin 1991 til 2020. (3) Hlutfall miðað við árin 2015 til 2024 (nýliðinn áratug). (4) Mesta sólarhringsúrkoma (mm). (5) Fjöldi úrkomudaga. (6) Fjöldi daga með úrkomu 1,0 mm eða meira. (7) Fjöldi alhvítra daga. (8) Fjöldi alauðra daga.

stöð ársúrk. hlutf9120 % hlutf 1524 % mest d. úrkd Úrkd>=1 alhv alautt
Reykjavík 924,2 106 100 26,6 229 164 32 303
Augastaðir 907,1 # # 38,2 172 132 49 263
Hítardalur 1186,7 # 98 63,5 172 130 17 279
Stykkishólmur 831,8 113 108 37,1 219 135 26 321
Ásgarður 690,2 # 86 26,1 205 126 55 228
Lambavatn 973,5 102 95 37,1 219 142 38 291
Hænuvík 1009,6 # 94 51,4 189 140 30 279
Litla-Ávík 872,0 # 98 45,9 246 150 58 234
Ásbjarnarstaðir 711,0 # 95 39,7 234 119 44 284
Hraun á Skaga 477,9 87 98 26,1 206 108 45 247
Sauðanesviti 993,5 112 105 36,2 226 145 51 261
Hrísey 592,9 # 88 58,7 160 113 72 243
Akureyri 604,2 105 96 26,2 186 111 81 241
Þverá í Dalsmynni 671,9 # 89 92,9 204 107 77 188
Staðarhóll 461,5 72 80 30,3 176 90 88 227
Grímsstaðir 386,0 99 90 19,0 210 94 46 244
Miðfjarðarnes 426,9 # 73 31,6 200 81 33 256
Skjaldþingsstaðir 1131,2 # 93 95,6 194 122 47 262
Hánefsstaðir 1909,0 # 95 108,6 222 150 93 214
Dalatangi 1598,9 97 94 70,8 242 156 67 266
Gilsá 1868,3 # 109 110,0 226 145 65 269
Stafafell 2066,9 119 # 119,5 217 156 26 307
Kálfafell 1855,2 # # 59,8 215 165 9 235
Vatnsskarðshólar 1662,3 96 94 52,1 242 188 18 301
Drangshlíðardalur 2211,4 # 97 62,6 247 180 21 317
Hjarðarland 1415,9 106 105 48,0 200 156 52 296
Vogsósar 1269,1 # 90 46,2 248 181 36 295
Keflavíkurflugvöllur 976,8 88 91 21,3 237 169 25 316



Mynd 6: Ársúrkoma 2025 nokkurra úrkomustöðva, sem hlutfall af meðalúrkomu síðustu tíu ára (2015-2024).

Ársúrkoma í Reykjavík mældist 924,2 mm sem er 6% yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en jöfn meðalársúrkomu síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi mældist ársúrkoman 831,8 mm sem er 13% yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist ársúrkoman 604,2 mm sem er 5% yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 96% af meðalársúrkomu síðustu tíu ára. Á Dalatanga mældist ársúrkoman 1598,9 mm sem er 97% af meðalársúrkomu áranna 1991 til 2020.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 164, tíu fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Í Stykkishólmi voru slíkir úrkomudagar 135, jafnmargir og í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 111, þremur fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Á Dalatanga mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 156 daga, fimm færri en í meðalári.

Mest mældist sólarhringsúrkoman í Reykjavík 26,6 mm þ. 29. október og féll sú úrkoma öll sem snjór. Í Stykkishólmi mældist mesta sólarhringsúrkoman á aðfangadagsmorgun 37,1 mm, en það var mjög úrkomusamt á Snæfellsnesi og Vestfjörðum í jólahlýindunum. Á Akureyri mældist mesta sólarhringsúrkoman 26,2 mm þ. 6. febrúar þegar mikið sunnan hvassviðri gekk yfir landið. Á Dalatanga mældist sólarhringsúrkoman mest 70,8 mm (sem snjór) þ. 20. janúar, en þann sólarhring snjóaði óvenjumikið um allt Austurland.

Mesta sólarhringsúrkoma ársins á sjálfvirkri stöð mældist 179,8 mm á Kvískerjum í Öræfum þ. 23. maí. Á mannaðri stöð mældist mesta sólarhringsúrkoman 119,5 mm á Stafafelli í Lóni þ. 24. maí. Á mönnuðu stöðvunum er úrkomusólarhringurinn frá kl. 9 til kl. 9 en á sjálfvirku stöðvunum frá kl. 00 til kl. 24.



Mynd 7: Mánaðarúrkoma í Reykjavík, Stykkishólmi, Akureyri og Dalatanga sýnd sem hlutfall af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Gildi á y-ás eru í prósentum, þar sem 100% táknar meðalúrkomu hvers mánaðar. Hærri/lægri gildi sýna blautari/þurrari mánuði en að jafnaði. Kvarði y-áss er ekki línulegur; bilin á milli prósentusvæða eru ójöfn til að bæði þurrir mánuðir og einstaklega blautir mánuðir sjáist skýrt á sömu mynd.

Á mynd 7 má sjá úrkomuvik hvers mánaðar 2025 í Reykjavík, Stykkishólmi, Akureyri og Dalatanga sem hlutfall af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Úrkoma var yfir meðallagi í janúar á öllum stöðvunum nema í Stykkishólmi. Febrúar var úrkomusamur um allt land en sérlega blautt var á sunnan- og vestanverðu landinu. Í mars var áfram úrkomusamt í Reykjavík og Stykkishólmi en þurrara norðaustanlands. Veturinn (des 2024 -mars 2025) var úrkomusamur í heild sinni á vestanverðu landinu en þurr á Norðausturlandi og Austurlandi. Það var mjög hlýtt í febrúar og mars og því var óvenjusnjólétt þessa mánuði þrátt fyrir úrkomusama tíð.

Vorið var tiltölulega þurrt í flestum landshlutum, nema á Norðausturlandi. Í apríl var þurrt á vestanverðu landinu en blautara norðan- og austanlands. Úrkoma var yfir meðallagi í Stykkishólmi og á Akureyri í maí en undir meðallagi í Reykjavík og á Dalatanga.

Júní var mjög úrkomusamur á norðan- og norðaustanverðu landinu. Úrkoman á veðurstöðvum á þessu svæði var langt yfir því sem vanalegt er í júnímánuði, meðal annars á Akureyri og Dalatanga. Stór hluti mánaðarúrkomunnar féll dagana 3. og 4. í norðanhvassviðri sem gekk yfir landið. Á meðan var mánuðurinn tiltölulega þurr á Suður- og Vesturlandi. Júlí var tiltölulega þurr, nema í Stykkishólmi þar sem úrkoma var nærri tvöföld meðalúrkoma áranna 1991 til 2020. Þar féll um helmingur mánaðarúrkomunnar á einum degi (32,6 mm þann 18. júlí). Í ágúst var úrkoma í meðallagi í Reykjavík en undir meðallagi á hinum þremur stöðvunum.

September var úrkomusamur, þá sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Sérlega úrkomusamt var á Austfjörðum og á Ströndum og þar var mánuðurinn víða með blautari septembermánuðum sem vitað er um. Á Dalatanga mældist úrkoma mánaðarins 399,6 mm sem er meira en tvöföld meðalúrkoma í september og sú næstmesta sem mælst hefur þar í septembermánuði frá upphafi mælinga 1938. Úrkoma mældist meiri í september 1951 (429,8 mm). Vætutíðinni í september fylgdu talsverðir vatnavextir og eitthvað var um skriður og grjóthrun, mest þá á Austurlandi.

Síðustu þrír mánuðir ársins voru tiltölulega þurrir í flestum landshlutum. Úrkoma var þó vel yfir meðallagi í Reykjavík og sums staðar á Suðvesturlandi í október. Sá mánuður var aftur á móti óvenjulega þurr á Norðaustur- og Austurlandi og á Dalatanga var mánuðurinn t.a.m. þriðji þurrasti októbermánuður þar frá upphafi mælinga. Nóvember var þurr á öllu landinu en óvenjuþurr á Suður- og Vesturlandi, þá sérstaklega fyrri helmingur mánaðarins. Desember var líka að mestu þurr, en töluverð úrkoma var á vestanverðu landinu í hlýindunum dagana 23. til 26, þá sérstaklega á Snæfellsnesi og Vestfjörðum.

Snjór

Árið 2025 var snjólétt. Fjöldi alhvítra daga var vel undir meðallagi á nær öllum veðurstöðvum sem athuga snjóhulu.

Alhvítir dagar ársins í Reykjavík voru 32, sem er 23 færri en meðalfjöldi alhvítra daga áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi voru 26 alhvítir dagar á árinu sem er 20 færri en í meðalári. Á Akureyri voru alhvítir dagar ársins 81, 14 færri en að meðaltali 1991 til 2020. Alhvítir dagar ársins voru 67 á Dalatanga, 13 færri en að meðaltali.

Á mynd 8 má sjá fjölda alhvítra daga í hverjum mánuði í Reykjavík, Stykkishólmi, Akureyri og á Dalatanga, sem vik frá meðalfjölda alhvítra daga áranna 1991 til 2020. Þar má sjá að það var snjólétt um allt land alla mánuði ársins nema í janúar og október.


Mynd 8: Fjöldi alhvítra daga hvers mánaðar í Reykjavík, Stykkishólmi, Akureyri og Dalatanga, sýnt sem vik frá meðalfjölda alhvítra daga áranna 1991 til 2020.

Í janúar var fjöldi alhvítra daga yfir meðallagi á öllum fjórum stöðvunum. Á Dalatanga var fjöldi alhvítra daga vel yfir meðallagi. Það snjóaði óvenjulega mikið á Austurlandi um miðjan janúar. Snjódýptin mældist mest 90 cm á Dalatanga að morgni þess 20. janúar en það er mesta snjódýpt sem hefur verið skráð þar.

Það var óvenjusnjólétt seinnipart vetrar á öllu landinu og hálendið var orðið að mestu snjólaust snemma vors.

Í byrjun júní kom þó smá hret þegar norðanhvassviðri gekk yfir landið. Talsvert snjóaði til fjalla en líka sums staðar á láglendi á Norðurlandi og olli þónokkrum vandræðum fyrir bændur og ferðafólk. Þetta hret var þó ekki nærri því eins slæmt og júníhretið í fyrra.

Í október var talsvert meiri snjór á landinu en vanalegt er á þessum árstíma. Það snjóaði töluvert á Norður- og Austurlandi í október og þar var víða alhvítt seinni hluta mánaðarins. Að kvöldi þess 27. október fór að snjóa á höfuðborgarsvæðinu og þar kyngdi niður snjó þar til seinnipart næsta dags. Að morgni þ. 28. október mældist jafnfallinn snjór í Reykjavík 27 cm og þ. 29. október mældist snjódýptin 40 cm. Aldrei áður hefur viðlíka snjódýpt mælst í októbermánuði í Reykjavík en fyrra met var 15 cm sem mældust þ. 22. október 1921. Snjórinn olli miklum samgöngutruflunum og umferðaröngþveiti í borginni. Einnig snjóaði töluvert á Suðurnesjum, þó ekki nærri því eins mikið og á höfuðborgarsvæðinu.

Snjólétt var í nóvember og desember.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1422,2 sem er 54 stundum fleiri en að meðaltali árin 1991 til 2020 og 54 stundum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1230,1, eða 179 fleiri en að meðaltali árin 1991 til 2020 en 102 stundum fleiri en meðalfjöldi síðustu tíu ára.

Á mynd 9 má sjá fjölda sólskinsstunda í hverjum mánuði í Reykjavík og á Akureyri sem vik frá meðalfjölda sólskinsstunda áranna 1991 til 2020. Sólskinsstundir vetrarins voru undir meðallagi bæði í Reykjavík og á Akureyri. Vorið (apríl og maí) var aftur á móti einstaklega sólríkt, sérstaklega á Akureyri þar sem vorið var það næstsólríkasta frá upphafi samfelldra sólskinsstundamælinga á Akureyri árið 1928 (það var sólríkara vorið 1968). Sólskinsstundir sumarsins voru í meðallagi á Akureyri en töluvert undir meðallagi í Reykjavík. Júní var þungbúinn á Akureyri en júlí og ágúst sólríkari. Í Reykjavík var sólskinsstundafjöldi lítillega yfir meðallagi í júní en undir í júlí og ágúst. Töluverð gosmóða lá yfir höfuðborginni og stórum hluta landsins um miðjan júlí vegna eldgoss á Reykjanesi.

Sólskinsstundir voru yfir meðallagi í Reykjavík í september, nóvember og desember, en undir meðallagi í október.Á Akureyri voru sólskinsstundir lítillega undir eða yfir meðallagi síðustu fjóra mánuði ársins.


Mynd 9: Sólskinsstundavik hvers mánaðar í Reykjavík og Akureyri miðað við meðalfjölda sólskinsstunda áranna 1991 til 2020.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1005,2 hPa sem er rétt yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, eða 0,1 hPa yfir.

Hæsti loftþrýstingur ársins á landinu mældist 1047,4 hPa á Öndundarhorni þ. 27. desember. Lægsti loftþrýstingur ársins mældist 940,9 hPa á Siglufirði þ. 3. febrúar.

Á mynd 10 má sjá loftþrýstingsvik hvers mánaðar í Reykjavík miðað við meðallag áranna 1991 til 2020.



Mynd 10: Loftþrýstingsvik hvers mánaðar í Reykjavík miðað við meðalloftþrýsting áranna 1991 til 2020. Loftþrýstingur var yfir meðallagi í janúar, mars, apríl, október, nóvember og desember. Mánaðarvikin voru neikvæði í febrúar, maí, júní, júlí, ágúst, og september. Vikin voru mest í júní þegar þrýstingur var vel undir meðallagi.

Vindhraði og vindáttir

Árið 2025 var óvenjulega hægviðrasamt og illviðri voru fátíð. Meðalvindhraði ársins á landsvísu var 0,5 m/s undir meðalagi áranna 1991 til 2020. Vindhraði var undir meðallagi nær alla mánuði ársins (sjá mynd 11). Það var sérlega hægviðrasamt í janúar, júlí, mars og í nóvember.

Suðlægar áttir voru tíðar á árinu. Á mynd 12 má sjá ríkjandi vindáttir hvers mánaðar.

Versta veður ársins gerði dagana 5. og 6. febrúar, þegar mikið sunnan hvassviðri gekk yfir landið. Vindhraði var mikill og hviður mældust mjög háar um nær land allt og bættist veðrið í hóp verstu óveðra síðustu ára. Samgöngur lágu niðri og veðrið olli töluverðu tjóni víða um land. Veðrið reyndist einna verst á Austfjörðum, og það varð til að mynda mikið tjón í Stöðvarfirði. Óveðrinu fylgdi líka talsvert eldingaveður á vestan- og sunnanverðu landinu sem olli tjóni víða.



Mynd 11: Vik meðalvindhraða hvers mánaðar á landsvísu miðað við meðalvindhraða síðustu 20 ára. Blá og rauð svæði sýna mestu og minnstu vik síðustu 25 ára. Vindhraði var undir meðallagi nær alla mánuði ársins nema í febrúar, júní og desember þegar vindhraði var lítillega yfir meðallagi. Það var sérstaklega hægviðrasamt miðað við árstíma í janúar, júlí, mars og í nóvember.



Mynd 12: Allar vindaathuganir á sjálfvirkum veðurstöðvum eru þáttaðar niður í austur og norðurstefnur, mánaðarmeðaltöl reiknuð og borin saman við meðalvindvigra síðustu 20 ára (2005 til 2024). Austlægar og norðlægar áttir fá jákvæð gildi sem eru sýnd með grænum og bláum lit, vestlægar og suðlægar áttir fá neikvæð gildi og sýnd með appelsínugulum og rauðum lit. Norðlægar áttir voru tíðari í janúar, júní, september og nóvember. Suðlægar áttir voru ríkjandi í febrúar, mars, maí, júlí og ágúst. Austlægar áttir voru tíðar í janúar, apríl, september, nóvember og desember. Vestlægar áttir voru tíðari en í meðalári í mars, maí, júlí og október.
















Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica