Tíðarfar ársins 2023
Yfirlit
Veðurfar ársins 2023 var að mestu hagstætt. Það var hægviðrasamt, þurrt, snjólétt og illviðri tiltölulega fátíð. Árið var þó í svalara lagi ef miðað er við hitafar síðustu ára. Á landsvísu var hitinn 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,4 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára. Að tiltölu var kaldast á Norðurlandi en hlýrra suðvestanlands og við suðurströndina. Óvenjukalt var fram eftir janúarmánuði og aftur í mars. Júní var aftur á móti óvenju hlýr á Norður- og Austurlandi, víða sá hlýjasti frá upphafi mælinga í þeim landshlutum. Árið var tiltölulega þurrt og var úrkoma undir meðallagi um mest allt land. Það voru nokkur þurr tímabil á árinu, t.d. í mars og í júlí, en það rigndi líka hressilega inná milli. Það var óvenju þungbúið og blautt á sunnan- og vestanverðu landinu í maí og júní.Veturinn 2022 til 2023 var óvenjulega kaldur á landinu öllu. Nær samfelld kuldatíð ríkti á landinu frá 7. desember til 19. janúar. Kuldatíðin var sérstaklega óvenjuleg á Suðvesturlandi og voru þessar 6 vikur t.d. þær köldustu í Reykjavík síðan 1918 (en þá var mikið kaldara). Á þessu tímabili var þrýstingur sérlega hár, vindur hægur og það var óvenju þurrt og bjart, sérstaklega suðvestanlands. Það var umhleypingasamt seinni hluta janúar og í febrúar, hlýrra og blautara. En í mars kólnaði aftur og önnur samfelld kuldatíð stóð yfir frá 6. til 28. mars. Að tiltölu var þá kaldast á norðaustan- og austanverðu landinu. Það var óvenju þurrt og sólríkt á suðvesturlandi á þessu tímabili. Töluverður snjór var hins vegar um landið norðan- og austanvert. Mikill fjöldi snjóflóða féll á Austfjörðum í lok mars, þau stærstu í Neskaupstað og ollu þar miklu eignatjóni.
Vorið var tiltölulega hlýtt ef frá er talið vikulangt kuldakast í lok apríl. Það var þurrt og sólríkt norðanlands en úrkomusamt suðvestanlands. Maí var sérlega úrkomusamur og þungbúinn sunnan og vestan til og var mánuðurinn víða á meðal blautustu maímánaða frá upphafi mælinga. Nokkur slæm suðvestan- og sunnanhvassviðri gengu yfir landið seint í maí sem ollu töluverðum skemmdum á gróðri. Tré, runnar og annar gróður misstu lauf og létu á sjá langt fram eftir sumri.
Fyrstu tveir sumarmánuðirnir voru mjög ólíkir. Óvenjuleg hlýindi voru á Norður- og Austurlandi í júní. Þetta var hlýjasti júnímánuður frá upphafi mælinga á Akureyri og Egilsstöðum (og víðar í þessum landshlutum). Á meðan var óvenju þungbúið og úrkomusamt á sunnan- og vestanverðu landinu. Í júlí voru aftur á móti norðan- og norðaustanáttir ríkjandi allan mánuðinn. Þá var kalt á Norður- og Austurlandi en hlýrra suðvestanlands. Það var óvenju þurrt og sólríkt á sunnan- og vestanverðu landinu og var þetta víða langþurrasti júlímánuður frá upphafi mælinga. Ágústmánuður var tiltölulega hlýr um meginhluta landsins, hægviðrasamur og þurr framan af. September var svalari og úrkomusamari.
Haustið var hægviðrasamt, snjólétt og veður almennt gott. Það var tiltölulega hlýtt sunnanlands en kaldara fyrir norðan.
Desember
var svo tiltölulega kaldur, en hægviðrasamur
og þurr.
Hiti
Meðalhiti ársins í Reykjavík var 5,0 stig sem er 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,3 stig sem er 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri var meðalhitinn 4,0 stig sem er 0,2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Egilsstöðum var meðalhitinn 3,8 stig sem er 0,1 stigi undir meðallagi. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhiti ársins 5,7 stig sem er 0,3 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á landsvísu var hitinn 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.
Meðalhita
ársins og vik fleiri stöðva má sjá í töflu 1.
stöð | hiti °C | vik 1991-2020 | röð | af | vik 2013-2022 |
Reykjavík | 5,0 | -0,1 | 38 til 40 | 153 | -0,3 |
Hvanneyri | 4,5 | # | 12 til 13 | 26 | 0,0 |
Bláfeldur | 4,8 | # | 17 til 18 | 26 | -0,3 |
Stykkishólmur | 4,3 | -0,1 | 38 | 178 | -0,4 |
Bolungarvík | 3,9 | 0,2 | 27 | 126 | -0,2 |
Litla-Ávík | 3,6 | # | 20 til 21 | 28 | -0,4 |
Blönduós | 3,2 | # | 20 | 20 | -0,7 |
Grímsey | 3,5 | 0,0 | 27 | 150 | -0,5 |
Akureyri | 4,0 | -0,2 | 43 til 44 | 143 | -0,5 |
Grímsstaðir | 1,3 | -0,1 | 42 til 43 | 117 | -0,5 |
Miðfjarðarnes | 3,2 | # | 13 til 14 | 24 | -0,4 |
Skjaldþingsstaðir | 3,8 | # | 14 til 15 | 30 | -0,4 |
Egilsstaðir | 3,8 | -0,1 | 27 | 69 | -0,5 |
Dalatangi | 4,5 | 0,0 | 28 til 29 | 85 | -0,4 |
Teigarhorn | 4,5 | -0,1 | 37 | 150 | -0,5 |
Höfn í Hornaf. | 5,2 | # | -0,4 | ||
Fagurhólsmýri | 5,4 | 0,1 | 30 | 121 | -0,2 |
Vatnsskarðshólar | 6,0 | 0,3 | 17 | 84 | 0,1 |
Stórhöfði | 5,7 | 0,3 | 20 til 21 | 147 | 0,2 |
Árnes | 4,3 | -0,1 | 37 | 144 | -0,3 |
Hjarðarland | 4,0 | -0,1 | 20 | 34 | -0,3 |
Hveravellir | -0,2 | -0,2 | 27 | 59 | -0,5 |
Eyrarbakki | 4,8 | -0,1 | 39 til 40 | 143 | -0,3 |
Keflavíkurflugvöllur | 5,2 | 0,0 | 23 | 71 | -0,1 |
Tafla 1: Meðalhiti og vik ársins 2023 á nokkrum stöðum
Ársmeðalhitinn var hæstur 6,7 stig í Surtsey. Lægsti ársmeðalhitinn var á Gagnheiði -1,7 stig og lægstur í byggð í Möðrudal 0,9 stig.
Ársmeðalhitinn var rétt um eða undir meðallagi áranna 1991 til 2020 á mest öllu landinu nema við suðurströndina. Á mynd 1 má sjá hitavik sjálfvirkra stöðva miðað við síðustu tíu ár. Að tiltölu var kaldast á Norðurlandi en að tiltölu hlýrra suðvestanlands og við suðurströndina. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,2 stig í Bláfjöllum og Ölkelduhálsi, en neikvætt hitavik var mest -0,9 stig á Skagatá.
Mynd 1: Hitavik sjálfvirkra stöðva árið 2023 miðað við síðustu tíu ár.
Hæsti hiti ársins mældist 27,9 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 17. júní. Mest frost ársins mældist -26,2 stig við Veiðivatnahraun þ. 22. desember. Mest frost í byggð mældist -25,7 stig við Mývatn þ. 12. mars.
Hæsti
hiti ársins í Reykjavík mældist 20,6 stig þ. 20. ágúst en
mesta frostið mældist -14,8 stig þ. 11. mars. Af öllum stöðvum
höfuðborgarsvæðisins mældist hitinn hæstur 22,3 stig í
Urriðaholti í Garðabæ þ. 20. ágúst, en mesta frostið -23,5
stig í Víðidal þ. 18. janúar. Á Akureyri mældist hæsti hitinn
á árinu 24,3 stig þ. 25.ágúst, en mesta frostið -19,3 stig þ.
12. mars.
Mynd
2:
Landsmeðalhiti hvers sólarhrings á árinu 2023 sýndur sem vik frá
landsmeðalhita síðustu 10 ára (2013-2022). Hitasveiflur eru
alltaf meiri yfir vetrarmánuðina. Það var kalt fram eftir
janúarmánuði. Þá tók við umhleypingasamt veður þar til í
mars sem var óvenjulega kaldur. Vorið var hlýtt, ef frá er talin
köld vika í lok apríl. Júní var óvenjulega hlýr á Norður- og
Austurlandi. Það var tiltölulega kalt í júlí en hlýrra í
ágúst og fram í september. Haustið var tiltölulega kalt
norðanlands en hlýrra fyrir sunnan. Desember var kaldur um land
allt.
Veturinn 2022 til 2023 (desember 2022 til mars 2023) var óvenjulega kaldur á landinu öllu. Á landsvísu var veturinn sá kaldasti síðan 1995 (desember 1994 til mars 1995). Nær samfelld kuldatíð ríkti á landinu frá 7. desember til 19. janúar. Kuldatíðin var sérstaklega óvenjuleg á suðvesturlandi og voru þessar 6 vikur t.d. þær köldustu í Reykjavík síðan 1918 (en þá var mikið kaldara). Það kólnaði svo aftur í mars og nánast samfelld kuldatíð ríkti frá 6. til 28. mars. Þá var að tiltölu kaldast á norðaustan- og austanverðu landinu.
Júní var óvenjulega hlýr á Norður- og Austurlandi. Þetta var hlýjasti júnímánuður frá upphafi mælinga á Akureyri og Egilsstöðum (og víðar í þessum landshlutum) og jafnframt hlýjasti sumarmánuðurinn þar þetta árið.
Mynd
3: Hitavik hvers mánaðar 2023 í Reykjavík og Akureyri miðað við
meðalhita áranna 1991 til 2020. Janúar var kaldur bæði í
Reykjavík og á Akureyri, en febrúar hlýr. Mars var óvenjulega
kaldur á báðum stöðum. Vorið var tiltölulega hlýtt á
Akureyri og júnímánuður óvenjulega hlýr, sá hlýjasti frá
upphafi mælinga á Akureyri. En þar var mun svalara í júlí.
Apríl var hlýr í Reykjavík, en hiti var um meðallag í maí,
júní og júlí. Hiti var yfir meðallagi í ágúst bæði á
Akureyri og í Reykjavík en í meðallagi í september. Haustið var
tiltölulega kalt á Akureyri en hlýrra í Reykjavík. Desember var
kaldur, sérlega kaldur á Akureyri.
Úrkoma
Árið var tiltölulega þurrt og úrkoma var undir meðallagi um mest allt land. Það voru nokkur þurr tímabil á árinu, en það rigndi líka hressilega inn á milli. Úrkomudagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru óvenjulega fáir á mörgum veðurstöðvum, þó svo að heildarúrkoma ársins hafi oft verið minni.
Það var þurrt fram eftir janúarmánuði á suðvestanverðu landinu. Það var áframhald af óvenjulegri kuldatíð, sem hófst í byrjun desember árið á undan, sem einkendist af köldu, hægu og þurru veðri.
Mars var óvenju þurr vestantil á landinu og þar mældist úrkoma víða sú minnsta sem mælst hefur í áratugi. Í Reykjavík mældist heildarúrkoman í mars aðeins 5,0 mm sem er aðeins 6% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Þetta var næstþurrasti marsmánuður í Reykjavík frá upphafi mælinga.
Júlí var mjög þurr á sunnan- og vestanverðu landinu. Mjög þurrt var á Snæfellsnesi og allt austur að Höfn. Á allmörgum stöðvum í þeim landshlutum mældist heildarúrkoman vel innan við 10 mm og er víða sú minnsta sem vitað er um í júlí. Úrkoma í Stykkishólmi mældist aðeins 4,7 mm, og er þetta næstþurrasti júlímánuður frá upphafi úrkomumælinga sem hófust þar árið 1857. Það var mjög þurrt á Reykjanesi. Á Keflavíkurflugvelli mældist úrkoman aðeins 9,5 mm og er þetta þurrasti júlímánuður sem vitað er um þar, einnig mældist mjög lítil úrkoma í Grindavík. Á Vogsósum í Ölfusi mældist heildarúrkoma mánaðarins aðeins 0,9 mm. Við Írafossvirkjun í Grímsnesi mældist heildarúrkoma mánaðarins 4,9 mm sem er aðeins um 5% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Lítil sem engin úrkoma mældist í Vestmannaeyjum. Á Vatnskarðshólum mældust einnig aðeins 4,9 mm sem er það langminnsta sem mælst hefur þar. Í Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 11,6 mm sem er það minnsta sem hefur mælst þar í júlímánuði.
Það var svo mjög þurrt fram eftir ágústmánuði, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Á mörgum stöðum féll meirihluti mánaðarúrkomunnar á einum til tveimur sólarhringum seint í mánuðinum. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru óvenju fáir víða í ágúst, þó svo að heildarúrkoma mánaðarins hafi ekki verið óvenjulega lítil.
Sumarið í heild var þó ekki sérlega þurrt þar sem maí og júní voru óvenjulega blautir sunnan- og vestanlands. Úrkoman mældist víða meira en tvöföld meðalúrkoma í þessum landshlutum og á nokkrum stöðum voru mánuðirnir með blautari maí- og júnímánuðum frá því að mælingar hófust. September var svo mjög blautur á Norður- og Austurlandi. Sumsstaðar í þeim landshlutum, t.a.m. á Akureyri, féll meira en helmingur sumarúrkomunnar í september og mikið af þeirri úrkomu féll á einum til tveim sólarhringum.
Dagana 18. og 19. september gerði mikið vatnsveður á Austfjörðum, Norðurlandi og norðanverðum Vestfjarðarkjálkanum. Nokkrar skriður féllu í kjölfarið og ár flæddu yfir bakka sína. Á Austfjörðum mældist heildarúrkoman þessa daga vel yfir 200 mm á nokkrum veðurstöðvum. Á vissum svæðum á Norðurlandi rigndi óvenjumikið og á nokkrum veðurstöðvum þar mældist sólarhringsúrkoman þ. 19. sú mesta frá upphafi mælinga. Það var einnig mjög blautt þessa daga norðarlega á Ströndum og sumsstaðar á norðanverðum Vestfjörðum.
Úrkoma var svo vel undir meðallagi á landinu öllu í nóvember og desember.
Ársúrkomu nokkurra veðurstöðva má sjá í töflu 2, ásamt mestu sólarhringsúrkomu, fjölda úrkomudaga o.fl.
stöð | ársúr | hlutf9120 % | hlutf1322 % | mest d. | úrkd | Úrkd>=1 | alhv | alautt |
Reykjavík | 910,4 | 104 | 98 | 25,9 | 214 | 144 | 46 | 297 |
Stykkishólmur | 716,1 | 97 | 95 | 49,0 | 186 | 118 | 46 | 307 |
Ásgarður | 723,9 | 87 | 88 | 49,3 | 196 | 125 | 102 | 154 |
Hólar í Dýrafirði | 1241,1 | # | 107 | 85,0 | 214 | 125 | 70 | 209 |
Litla-Ávík | 771,2 | # | 87 | 22,0 | 242 | 146 | 102 | 203 |
Sauðanesviti | 845,1 | 96 | 87 | 32,8 | 214 | 136 | 67 | 224 |
Akureyri | 482,0 | 84 | 74 | 55,9 | 183 | 96 | 69 | 249 |
Grímsstaðir | 324,7 | 83 | 72 | 16,8 | 191 | 76 | 123 | 170 |
Miðfjarðarnes | 547,3 | # | 86 | 41,8 | 211 | 93 | 4 | 253 |
Skjaldþingsstaðir | 1183,6 | # | 90 | 93,2 | 195 | 118 | 74 | 238 |
Dalatangi | 1507,6 | 91 | 86 | 108,3 | 261 | 144 | 79 | 243 |
Vatnsskarðshólar | 1486,2 | 86 | 81 | 45,8 | 232 | 155 | 44 | 273 |
Hjarðarland | 1322,2 | 99 | 99 | 50,9 | 175 | 142 | 57 | 280 |
Keflavíkurflugvöllur | 1034,4 | 94 | 95 | 36,1 | 218 | 150 | 34 | 291 |
Tafla 2: Ársúrkoma (mm) í fyrsta dálki. (2) Hlutfall miðað við 1991 til 2020. (3) Hlutfall miðað við árin 2013 til 2022 (nýliðinn áratug). (4) Mesta sólarhringsúrkoma (mm). (5) Fjöldi úrkomudaga. (6) Fjöldi daga með úrkomu 1,0 mm eða meira. (7) Fjöldi alhvítra daga. (8) Fjöldi alauðra daga.
Ársúrkoma í Reykjavík mældist 910,4 mm sem er 4% umfram meðalársúrkomu áranna 1991 til 2020, en 98% af meðalársúrkomu síðustu tíu ára. Á Akureyri mældist ársúrkoman 482,0 mm sem er 84% af meðalársúrkomu áranna 1991 til 2020, en aðeins 74% af meðalársúrkomu síðustu 10 ára. Ársúrkoman hefur ekki mælst eins lítil á Akureyri síðan 2001.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 144, fimm færri en að meðaltali 1991 til 2020. Á Akureyri voru slíkir dagar 96, sex færri en í meðalári.
Mesta sólarhringsúrkoma ársins á sjálfvirkri stöð mældist 169,6 mm í Neskaupstað þ. 19. september. Á mannaðri stöð mældist mesta sólarhringsúrkoman 156,9 mm á Hánefsstöðum í Seyðisfirði. Á mönnuðu stöðvunum er úrkomusólarhringurinn frá kl. 9 til kl. 9 en á sjálfvirku stöðvunum frá kl.00 til kl. 24.
Mest mældist sólarhringsúrkoman í Reykjavík 25,9 mm þ. 3. febrúar. Á Akureyri mældist mesta sólarhringsúrkoman 55,9 mm þ. 19. september. Aðeins einu sinni hefur mælst meiri sólarhringsúrkoma á Akureyri, það var þ. 23. september 1946 þegar hún mældist töluvert meiri eða 91,8 mm.
Mynd
4: Úrkoma hvers mánaðar í Reykjavík og Akureyri sem hlutfall að
meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Reykjavík var úrkoma yfir
meðallagi í febrúar, apríl og október. Maí og júní voru
óvenjublautir og voru með úrkomusömustu maí og júnímánuðum
frá upphafi. Mars var sérlega þurr og mældist mánaðarúrkoman í
Reykjavík aðeins 5,0 mm, sem er það næstminnsta sem mælst hefur
þar í mars. Júlí og nóvember voru líka óvenju þurrir. Árið
var þurrt á Akureyri og var úrkoma undir meðallagi alla mánuði
ársins nema í mars og september. Meira en helmingur af
septemberúrkomunni á Akureyri féll á einum sólarhring (55,9 mm
þ. 19.september).
Snjór
Árið var tiltölulega snjólétt.
Alhvítir
dagar ársins í Reykjavík voru 46 sem er 9 færri en meðalfjöldi
áranna 1991 til 2020. Alhvítir dagar ársins á Akureyri voru 69,
sem er 26 dögum færri en í meðalári.
Það var mjög snjóþungt á Austfjörðum í lok mars. Mikið snjóaði á svæðinu aðfaranótt þess 27. mars og í kjölfarið féll mikill fjöldi snjóflóða. Þau stærstu í Neskaupstað, þar sem þau ollu miklu eignatjóni.
Mynd 5: Fjöldi alhvítra daga hvers mánaðar í Reykjavík og Akureyri, sýnt sem vik frá meðalfjölda áranna 1991 til 2020. Í Reykjavík var talsverður snjór í janúar en fjöldi alhvítra daga var undir meðallagi í febrúar, mars og apríl. Mars var alauður í Reykjavík. Haustið var snjólétt í Reykjavík, en í desember voru alhvítir dagar 2 fleiri en í meðalári. Á Akureyri var fjöldi alhvítra daga undir meðallagi í janúar, febrúar og apríl en yfir meðallagi í mars. Haustið var óvenjulega snjólétt á Akureyri en enginn alhvítur dagur var skráður í október né í nóvember. Þónokkur snjór var í desember á Akureyri.
Sólskinsstundir
Sólskinsstundir í
Reykjavík mældust 1495,3, sem er 127 stundum fleiri en að
meðaltali áranna 1991 til 2020, en 171 stund fleiri en að
meðaltali síðustu tíu ára. Mars var óvenjulega sólríkur í
Reykjavík. Þetta var næstsólríkasti marsmánuður þar frá
upphafi mælinga. Júlí var einnig mjög sólríkur á
suðvesturhorninu, og aðeins einu sinni áður hafa mælst fleiri
sólskinsstundir í júlímánuði í Reykjavík. Maí og júní voru
aftur á móti óvenjulega þungbúnir í Reykjavík.
Sólskinsstundirnar hafa aldrei mælst eins fáar í maímánuði í
Reykjavík og aðeins sex sinnum hafa mælst færri sólskinsstundir
þar í júnímánuði en nú.
Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar
1257,1 eða 206 stundum fleiri en að meðaltali áranna 1991 til
2020, en 178 stundum fleiri en að meðaltali síðustu tíu ára.
Mynd 6: Sólskinsstundavik hvers mánaðar í Reykjavík og Akureyri miðað við meðalfjölda sólskinsstunda áranna 1991 til 2020. Í Reykjavík var fjöldi sólskinsstunda yfir meðallagi alla mánuði ársins nema í febrúar, maí, júní og október. Mars og júlí voru óvenjulega sólríkir í höfuðborginni, en maí og júní voru óvenjulega þungbúnir. Árið var sólríkt á Akureyri. Fjöldi sólskinsstunda var yfir meðallagi alla mánuði ársins nema í janúar, mars og júlí þegar sólskinsstundafjöldinn var rétt undir meðallagi.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1007,6 hPa sem er 2,5 hPa yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Hæsti loftþrýstingur ársins á landinu mældist 1041,2 hPa á Önundarhorni og í Skaftafelli þ. 1. mars. Lægsti loftþrýstingur ársins mældist 955,3 hPa á Reykhólum þ. 14. desember.
Mynd
7: Loftþrýstingsvik hvers mánaðar í Reykjavík miðað við
meðalloftþrýsting áranna 1991 til 2020. Loftþrýstingur í
Reykjavík var yfir meðallagi alla mánuði ársins nema í maí,
júní og september. Vikin voru mest í mars þegar þrýstingur var
vel yfir meðallagi.
Vindhraði og vindáttir
Árið
var fremur hægviðrasamt og illviðri tiltölulega fátíð.
Meðalvindhraði á landinu var 0,2 m/s undir meðallagi áranna 1991
til 2020.
Mynd 8: Vik meðalvindhraða hvers mánaðar á landsvísu frá meðallagi áranna 1991 til 2020. Árið í heild var tiltölulega hægviðrasamt. Vindhraði á landsvísu var yfir meðallagi í febrúar, maí, júlí og september. Aðra mánuði ársins var vindur undir meðallagi. Síðasti fjórðungur ársins var sérlega hægviðrasamur.
Mynd
9: Allar vindathuganir á sjálfvirku stöðvunum eru þáttaðar í
austur- og norðurstefnur, mánaðarmeðaltöl reiknuð og borin
saman við meðalvindvigra síðustu 20 ára (2003-2022). Austlægar
og norðlægar áttir fá jákvæð gildi, vestlægar og suðlægar
neikvæð. Norðlægar áttir voru ríkjandi meiri hlutann í janúar
en suðvestlægar áttir voru ríkjandi í febrúar. Norðaustlægar
áttir voru allsráðandi í mars, en austlægar áttir í apríl. Í
maí og júní voru suðvestlægar áttir ríkjandi en norðanátt í
júlí. Austlægar áttir voru ríkjandi í september, október og
nóvember en vestlægar í desember.
Lauslegt yfirlit um einstaka mánuði
- Janúar
Janúar var kaldur um allt land, kaldasti janúarmánuður aldarinnar hingað til á landsvísu. Fyrri hluti mánaðarins mjög kaldur, sérstaklega á vestari helmingi landsins þar sem var bjart, þurrt og hægviðrasamt. Þ. 20. janúar lauk svo óvenjulega langri og samfelldri kuldatíð sem hófst í byrjun desember. Umhleypingasamt var það sem eftir var mánaðar.
- Febrúar
Febrúar var hlýr um allt land. Mánuðurinn var umhleypingasamur, sérstaklega fyrri hluti mánaðar. Hann var einnig úrkomusamur á vestanverðu landinu en þurrari á Norðaustur- og Austurlandi. Það endurspeglast í sólskinsstundafjölda, en febrúar var t.a.m. sólríkur á Akureyri en fremur sólarsnauður í Reykjavík. Töluverðir vatnavextir voru í ám í kjölfar leysinga um miðjan mánuðinn. Ástandið var verst á vestanverðu landinu. Þar flæddu ár víða yfir bakka sína og skildu sums staðar eftir sig stærðar klaka eftir að hafa rutt sig. Víða urðu talsverðar skemmdir á túnum og vegum.
- Mars
Mars var mjög kaldur um land allt, kaldasti marsmánuður á landinu síðan 1979. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi nánast allan mánuðinn og að tiltölu var kaldast á norðaustan- og austanverðu landinu. Óvenju þurrt og sólríkt var á suðvestanverðu landinu. Í Reykjavík var mánuðurinn bæði næstþurrasti og næstsólríkasti marsmánaður frá upphafi mælinga, en heildarúrkoma mánaðarins þar mældist aðeins 5,0 mm. Það var mjög úrkomusamt á Austfjörðum í lok mánaðar og töluverð snjóþyngsli. Fjöldi snjó- og krapaflóða féllu þar í lok mánaðar, þau stærstu í Neskaupstað og ollu þar miklu tjóni.
- Apríl
Tíðarfar var hagstætt í apríl. Mánuðurinn var hægviðrasamur og hlýr á landinu öllu. Það kólnaði þó talsvert síðustu vikuna.
- Maí
Maí var hlýrri en að meðallagi um allt land, sérstaklega á norðaustan- og austanverðu landinu. Það var sólríkt og þurrt á Norðaustur- og Austurlandi en óvenju þungbúið og úrkomusamt á vestanverðu landinu. Aldrei hafa mælst eins fáar sólskinsstundir í maímánuði í Reykjavík og þar mældist meira en tvöföld meðalmaíúrkoma. Nokkuð var um hvassviðri síðari hluta mánaðar, en þá voru suðvestlægar áttir ríkjandi.
- Júní
Mánuðurinn var hlýr á austurhelmingi landsins. Að tiltölu var hlýjast inn til landsins á Austurlandi. Meðalhitamet júnímánaðar féllu á þónokkrum stöðum, t.d. á Akureyri og Egilsstöðum, og á Hallormsstað mældist hæsti mánaðarmeðalhiti sem mælst hefur í júní á Íslandi. Í Reykjavík var mánuðurinn úrkomusamur og sólarsnauður, en þar var nýliðinn mánuður fimmti úrkomusamasti og sjötti sólskinsminnsti júnímánuður frá upphafi mælinga.
- Júlí
Júlí var mjög þurr á sunnan- og vestanverðu landinu. Á allmörgum stöðvum í þeim landshlutum mældist heildarúrkoman innan við 10 mm og er víða sú minnsta sem vitað er um í júlí. Sólskinsstundir í Reykjavík voru óvenju margar og hafa aðeins einu sinni mælst fleiri. Norðan- og norðaustanáttir voru ríkjandi allan mánuðinn. Það var kalt á norðan- og austanverðu landinu en að tiltölu hlýrra á Suðvesturlandi.
- Ágúst
Ágúst var hlýr um meginhluta landsins, nema allra austast. Það var óvenju hægviðrasamt og úrkoma undir meðallagi. Það var mjög þurrt fram eftir mánuðinum, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Á mörgum stöðum féll meirihluti mánaðarúrkomunnar á einum til tveimur sólarhringum seint í mánuðinum.
- September
Hiti í september var nærri meðallagi áranna 1991 til 2020. Úrkoma var yfir meðallagi á mest öllu landinu. Mikið vatnsveður gerði á Austfjörðum, Norðurlandi og á norðanverðum Vestfjarðarkjálkanum dagana 18. og 19.
- Október
Tíðarfar var nokkuð hagstætt í október. Hiti á landsvísu var nærri meðallagi áranna 1991 til 2020. Það var að tiltölu kaldast á Norðausturlandi en hlýrra suðvestanlands. Það var sérlega hægviðrasamt í lok mánaðar.
- Nóvember
Nóvember var þurr um land allt og tíðarfar gott. Það var hlýtt á sunnanverðu landinu en kaldara norðanlands. Austlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum en það var tiltölulega hægviðrasamt.
- Desember
Desember var kaldur um land allt, en tíð almennt góð. Mánuðurinn var hægviðrasamur og þurr. Að tiltölu var kaldast inn til landsins á norðanverðu landinu en hlýrra við suðurströndina.