Fréttir
Mynd
Staðsetning eldinga til kl. 19 fimmtudaginn 21. febrúar 2019.

100 eldingar mældar í miklu þrumuveðri

Mesta þrumuveður á höfuðborgarsvæðinu frá því að mælingar hófust

22.2.2019

Þrumuveður gekk yfir SV-land síðdegis fimmtudaginn 21. febrúar 2019 og mældust í því um 100 eldingar. Þrumuveðrið kom úr suðri og sáust eldingar fyrst í því um 1000 km sunnan við Ísland um kl. 03 um morguninn, svo komu eldingarnar nær landinu eftir því sem leið á daginn. Frá kl. 17:30 til kl. 20:00 mældust 84 eldingar norðan við 63°N. Veðrið gekk yfir Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðið, Faxaflóa og Snæfellsnes.

Að jafnaði verða tvö þrumuveður af þessari stærð á Íslandi á ári. Hins vegar hefur ekki orðið svona mikið þrumuveður á höfuðborgarsvæðinu sl. 20 ár, eða eins langt og eldingamælingar ná. Tíðni þrumuveðra er mun lægri á Íslandi en í suðlægum löndum. Í Reykjavík eru að meðaltali tveir þrumudagar á ári, en fjórir undir Mýrdalsjökli og Vatnajökli. Á Norðurlandi verða þrumuveður að jafnaði annað hvert ár á hverjum stað.

Eldingar valda miklu manntjóni á jörðinni og áætlað hefur verið að alls farist um 24 þúsund manns á ári í eldingaslysum sem jafngildir því að einn Íslendingur myndi farast á ári. Eldingatíðni er hæst í hitabeltinu; manntjón er þar mikið en skráning slysa brotakennd. Nú eru yfir 150 ár síðan manntjón varð í eldingu á Íslandi. Öruggast er að halda sig innandyra eða inni í bíl í þrumuveðri.

mynd

Þrumuveðrið kom beint úr suðri. Hér má sjá breiddargráðu á staðsettum eldingum sem fall af tíma.

mynd

Fjöldi eldinga á hverjum 30 mínútum í þrumuveðrinu 21. febrúar 2019; norðan 63°N (rautt) og 55-63°N (grænt).

mynd

Spákort um óstöðugt loft (gulur litur) spáði veðrinu nokkuð austar en raunin varð.

mynd

Veðursjármyndir sýna öflugt endurkast frá skúragarðinum / þrumuklökkum þegar þeir komu úr suðri.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica