Fréttir
Teigarhorn-forsidumynd
Tíðarfar á Teigarhorni í 150 ár.

Teigarhorn verðlaunað af Alþjóðaveðurfræðistofnuninni fyrir yfir 100 ára samfelldar veðurathuganir.

Öflun og varðveisla upplýsinga tryggir þekkingu núlifandi og komandi kynslóða um veðráttu.

29.12.2022

24. nóvember síðastliðinn var stór stund á hinum merka stað Teigarhorni í Berufirði, en þá var afhjúpaður viðurkenningarskjöldur frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni fyrir yfir 100 ára samfelldar veðurathuganir á staðnum. Í raun hafa veðurathuganir átt sér stað í Berufirðimun lengur, eða samfleytt í 150 ár.  Í nóvember 1872 hófust veðurathuganir á Djúpavogi, þær mælingar voru fluttar að Teigarhorni  árið 1881 og hafa verið þar allt fram á þennan dag.  Einungis er ein önnur veðurstöð á landinu sem hefur fengið slíka veðurkenningu frá Alþjóðaverðurfræðistofnuninni, en sú fyrri er veðurstöðin í Stykkishólmi.


Vidurkenningin Mynd 1: Alþjóða veðurfræðistofnunin vill undirstrika mikilvægi langra og samfelldra veðurathugana með því að veita völdum veðurstöðvum sérstaka viðurkenningu sem langtímaveðurathugunarstöðvar fyrir mælingar sínar.

Tæknin að mestu leyst mannsins hönd

Teigarhorn-liklega-seint-a-19-old-mynd-Nicole-WeiwadtÍ fyrstu var það Níels Pétur Weywadt sem sá um veðurathuganir á Teigarhorni og dóttir hans Nicoline Waywadt tók svo við mælingunum eftir hans daga og sá um þær  til ársins 1921. Næstu 75 árin voru það feðgarnir Jón Kr. Lúðvíksson og Kristján Jónsson sem sinntu athugunum. Og síðastur var Herbert Hjörleifsson, sem gerði athuganir á árunum 1995 til 2009.Mynd 2: Teigarhorn, líklega seint á 19. öldinni. Mynd: Nicoline Weiwadt - sem sá um veðurathuganir á Teigarhorni frá árinu 1888-1921.

Nú hefur tæknin að mestu leyst mannsins hönd af hólmi í veðurathugunum. Sjálfvirk veðurstöð var sett upp á Teigarhorni árið 2009 sem mælir hita, vind og lofþrýsting. Og nú í nóvember var sjálfvirkum úrkomumæli bætt við. 

Samfelldar mælingar eru raunveruleg verðmæti fyrir samfélagið

Leifur-steinarsson

Mynd 3: Hitamælaskýli og úrkomumælir sem Leifur Steinarsson, starfsmaður Veðurstofu Íslands, er að mála í júlí 1968. Mynd: Flosi Hrafn Sigurðsson

Boðið var til hádegisfundar í tilefni af áfanganum á Fólksvagni Teigarhorns, fjölmargir sóttu fundinn og voru þær Kristín Björg Ólafsdóttir, sérfræðingur á sviði veðurfarsrannsókna með erindið „Þoka í grennd – tíðarfarið að Teigarhorni“, og Guðrún Nína Petersen, veðurfræðingur með erindið „Veðurspámennskan er ekkert grín!“. Kristín fór yfir mikilvægi viðurkenningarinnar og hvers vegna Alþjóða veðurfræðistofnunin telur ástæðu til að verðlauna slíkar mælingar. „Með slíku er undirstrikað mikilvægi langra og samfelldra veðurathugana á völdum veðurstöðvum en langar, samfelldar mælingar eru raunveruleg vísinda- og menningarleg verðmæti fyrir samfélagið. Öflun og varðveisla slíkra upplýsinga tryggir þekkingu núlifandi og komandi kynslóða um veðráttu og loftslagsbreytingar fyrr og nú. Fyrir utan auðvitað að slíkar upplýsingar eru uppistaðan í veðurspám og loftslagsvísindum öllum. Það eru þær sem setja núverandi loftslagsbreytingar í samhengi og er forsenda árangursríkra aðgerða á því sviði“, sagði Kristín.

Kristin-med-erindi

Mynd 4: Kristín Björg Ólafsdóttir, sérfræðingur á sviði veðurfarsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands.

Hitamet á Íslandi mældist að Teigarhorni

Hitamet

Mynd 5: Hitametið þann 22. júní 1939 - lesið af Jóni Kr. Lúðvíkssyni sem sá um veðurathuganir á Teigarhorni frá árinu 1921-1958.

Gaman er að segja frá því að hæsti hiti sem mælst hefur á Íslandi mældist að Teigarhoni þann 22. júní 1939 þegar tilkynnt var um 30,3 stiga hita. Jón Kr. Lúðvíksson las af mælinum þann dag og skrifaði eftirfarandi færslu með: “22. þ.m. steig hiti hátt eins og skýrsla sýnir. Var vel að gætt að sól náði ekki að hita mælira. Tel ég því hita rjétt mælda”. Þegar hámarksmælir var tekinn í notkun, sýndi hann of lágan hita um 0,2 stig og var hámarkið því hækkað í útgefnum skýrslum. Hitametið stendur því enn þann dag í dag, 30,5 stig.

 

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica