Sveitarfélög skipta sköpum þegar kemur að því að byggja upp loftslagsþolin samfélög
Fjármagn og stuðningur stjórnvalda lykillinn að árangri
Norræn ráðstefna um aðlögun að loftslagsbreytingum, NOCCA23 , fór fram í Reykjavík í byrjun þessarar viku. Áherslumál ráðstefnunnar í ár voru áskoranir norrænna sveitarfélaga vegna áhrifa loftslagsbreytinga og hvaða leiðir þau geta farið til þess að búa sig undir þær. Það samræmist vel verkefni sem þegar er farið af stað á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, Veðurstofu Íslands, Byggðastofnunar og Skipulagsstofnunar og miðar að því að hámarka aðlögunargetu íslenskra sveitarfélaga gagnvart neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga og lágmarka um leið efnahagslegt tjón og neikvæð áhrif á íslenskar byggðir, samfélög og byggðarþróun en ein af afurðum þess verkefnisins er leiðarvísi fyrir íslensk sveitarfélög til mótunar aðlögunaráætlana. Nýverið var tilkynnt að fimm sveitarfélögum hafi verið boðin þátttaka í verkefninu.
Á ráðstefnunni voru saman komnir aðilar sem starfa á sviði aðlögunar, starfsmenn og stefnumótendur frá sveitarfélögum og ráðuneytum, fagstofnunum og fyrirtækjum, háskólum og félagasamtökum.
Mynd 1 Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis,- orku og loftslagsráðherra flutti inngangserindi á NOCCA23 þar sem hann lýsti sögu mannkyns við sögu aðlögunar
Öll Norðurlöndin að takast á við sömu áskoranir
Fundarmönnum var tíðrætt um að mikilvægi þess að byggja upp sterkt þekkingarsamfélag aðila með fjölbreyttan bakgrunn. Ráðstefnur sem þessi séu liður í því. Ljóst sé að þær áskoranir sem Norðurlöndin standa frammi fyrir vegna áhrifa loftslagsbreytinga séu keimlíkar og tækifæri séu til staðar til þess að takast á við þær á sameiginlegum grunni.
„Í nýjustu skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um áhrif loftslagsbreyting er lögð rík áhersla lögð á samlegð aðlögunar- og mótvægisaðgerða og það er mjög mikilvægt að samfélög á norðurslóðum taki höndum saman hvað þetta varðar. Ráðstefna sem þessi gefur okkur færi á að nýta slagkraft norræns samstarfs til þess að ryðja úr vegi hindrunum og ná árangri í þessu gríðarstóra verkefni,“ segir Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands.
Mynd 2 Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands fór yfir aðlögunarmál á Íslandi í kjölfar ávarps ráðherra
Aðlögun að loftslagsbreytingum hefur hlotið sífellt meiri athygli á Norðurlöndunum á síðastliðnum árum. Mikil gróska er í rannsóknum og þróun aðferða til þess að miðla upplýsingum, meta áhættur og kortleggja afleiðingar. Í framsögum á ráðstefnunni voru meðal annars kynnt ýmis tæki og tól svo sem vefsvæði, kortagrunnar, vinnuaðferðir og tilraunaverkefni á sviði aðlögunar sem önnur lönd geta yfirfært á sín svæði.
„Við þurfum von, innblástur, hvatningu og samstarf,“ sagði Bodil Ståhl frá SMHI (Sænsku veður- og vatnafræðistofnuninni) en Bodil kynnti verkfæri sem hún og samstarfsfólk hennar hefur verið að þróa. Markmið þess er að hvetja stjórnendur, starfsfólk og íbúa sveitarfélaga til þess að sjá fyrir sér hvernig samfélagið lítur út í framtíðinni, þegar aðlögunaraðgerðir hafa gert sitt gagn.
Leiðir til að takast á við óvissu til langs tíma
Það var af fundargestum að heyra að allir tækju með sér skilaboð heim sem til þess að segja frá, nýta og yfirfæra yfir á sitt heimaland. Fulltrúi Svíþjóðar benti meðal annars á að sú yfirgripsmikla samráðsvinna sem farið hefur fram á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins á Íslandi síðustu mánuði vegna undirbúnings aðlögunaráætlunar sé eitthvað sem Svíar ættu að líta til í næsta hring aðlögunaráætlunar þar í landi.
„Aðlögun er ekki eitthvað eitt skref sem þarf að taka. Hún felur í sér stöðuga viðleitni til þess að undirbúa sig undir afleiðingar loftslagsbreytinga sem sífellt erfiðara er að spá fyrir um. Greining á leiðum til aðlögunar er tækifæri fyrir stefnumótendur, stjórnendur og sveitarfélög til þess að takast á við þessa óvissu í langtímaáætlunum um aðlögun,“ sagði Rick Pieter Kool. Á ráðstefnunni kynnti Rick aðferð sem hann hefur verið að þróa sem gagnast sveitarfélögum meðal annars þegar skilgreina þarf við hvaða aðstæður aðlögunaraðgerða er þörf, bæði í tíma og rúmi.
Stuðningur við sveitarfélög forsenda árangurs
Fundarmönnum varð tíðrætt um mikilvægi sveitarfélaga og þátttöku nærsamfélagsins þegar kemur að því að byggja upp loftslagsþol. Til þess að sveitarfélög geti tekist á við þetta aðkallandi verkefni þurfi þau fjármagn og stuðning frá æðsta stigi stjórnsýslunnar en þar virðist vanta upp á alls staðar á Norðurlöndunum. Auk þess skorti enn skilning á meðal stjórnenda og íbúa á viðfangsefninu og því hversu aðkallandi það er.
Lykillinn að árangursríkri aðlögun sveitarfélaga er að fá íbúa og hagaðila að borðinu frá allt frá upphafi. Þannig nýtist staðbundin þekking við stefnumótun og skipulag og traust og skilningur myndast í samfélaginu fyrir þeim fyrir þeim breytingum sem nauðsynlegar eru. Rauði þráðurinn í umræðunni var sá að stefnur og áætlanir þurfi að taka mið af fólki og þeim áskorunum sem við því blasa í nærumhverfinu.
„Traust er mikilvægasti þátturinn, við verðum að treysta hvort öðru og sérstaklega nágrönnum okkar. Við verðum að vinna með íbúum þó það geti verið vandasamt, þreytandi og taki oft á tímum langan tíma. En ef við tökum ekki tillit til íbúa þá verður okkur ekkert ágengt. Byggjum á trausti, fólk veit að það er eitthvað slæmt að eiga sér stað varðandi loftslagsið og það verður að bregðast við,“ sagði Lars Kaalund.
Mynd 3 Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, stýrði pallborði undir lok seinni ráðstefnudagsins. Í pallborðinu sátu stefnumótendur á sviði loftslagsmála frá Íslandi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og Noregi.
NOCCA23
Ráðstefnan í ár er sjötta ráðstefnan sem haldin hefur verið af þessu tagi en síðasta ráðstefna fór fram í Norrköping í Svíþjóð árið 2018.
Richard Klein, frá SEI (Umhverfisstofnun Stokkhólms), er stundum titlaður sem „faðir NOCCA“. Hann var einn þeirra sem hélt inngangserindi í ár, en þar sagði hann: „Á þeim þrettán árum frá því að fyrsta norræna ráðstefnan um loftslagsbreytingar og aðlögun var haldin í Stokkhólmi hafa framfarir átt sér stað hvað varðar stefnur, áætlanir og innleiðingu aðlögunar. Byggt hefur verið á sífellt vaxandi og þverfaglegum rannsóknum sem nú standa frammi fyrir nýjum spurningum“.
NOCCA23 var styrkt af Norrænu ráðherranefndinni en fyrirhugað er að niðurstöður ráðstefnunnar verði teknar saman í stefnuskjali um áframhaldandi norrænt samstarf á sviði aðlögunar.
„Með stuðningi og fjárframlagi frá Norrænu ráðherranefndinni í gegnum tíðina hefur okkur gefist tækifæri til þess að takast á við ýmis viðfangsefni sem skipta máli fyrir norræn samfélög og í dag er stærsta viðfangsefnið loftslagsbreytingar sem eru og munu hafa mikil áhrif á samfélög á norðurslóðum“ segir Árni Snorrason forstjóri Veðurstofu Íslands.