Fréttir
Stóra skriðan á Seyðisfirði er sú stærsta sem fallið hefur í þéttbýli á Íslandi

Stóra skriðan á Seyðisfirði sú stærsta sem fallið hefur á þéttbýli á Íslandi

Vöktun á hlíðum ofan Seyðisfjarðar aukin og vinnu við varnarkosti flýtt

22.12.2020

Í gær var haldinn fundur með íbúum Seyðisfjarðar og fulltrúum Almannavarna og viðbragðsaðila á staðnum, Náttúruhamfaratrygginga Íslands, RARIK og Veðurstofunnar. Á fundinum fóru sérfræðingar Veðurstofunnar meðal annars yfir aðdraganda atburðanna og umfang skriðufallanna.

Þann 13. desember, tveimur dögum áður en fyrsta skriðan féll á Seyðisfirði, hafði Veðurstofan varað við auknum líkum á skriðuföllum og grjóthruni á Austfjörðum. Mikil úrkoma hafði fallið á svæðinu í aðdraganda skriðufallanna og var uppsöfnuð úrkoma 569 mm á dögunum 14. til 18. desember. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma, á jafn stuttum tíma á Íslandi, eins og þessa fimm daga á Seyðisfirði. Til samanburðar nemur rigning í Reykjavík á meðalári um 860 mm.


Myndin sýnir klukkustundarúrkomu, dagsúrkomu og uppsafnaða úrkomu á Seyðisfirði frá því í byrjun október. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma, á jafn stuttum tíma á Íslandi, eins og þessa fimm daga á Seyðisfirði.

Harpa Grímsdóttir, hópstjóri ofanflóðavöktunar Veðurstofunnar, segir að veðrið hafi verið nokkuð sérstakt því úrkoman hafi fallið sem snjókoma til fjalla en rigning í neðri hluta hlíða. „Af þeim sökum töldum við ekki mikla hættu á skriðuföllum ofarlega úr fjöllum. Þá hafi ekki verið talið að mikið vatn streymdi á stallana í Strandartindi, sem gnæfir yfir skriðusvæðið“. Harpa segir að ofanflóðasérfræðingar Veðurstofunnar höfðu búist við jarðvegsskriðum í líkingu við þær sem féllu fyrstu dagana og að þær gætu farið stækkandi og viðbúnaður og tilmæli um rýmingar hafi miðast við það.

Skriða sem er án fordæma í þéttbýli á Íslandi

Um fimm mínútur fyrir þrjú á föstudag féll gríðarmikil aurskriða á svæðið rétt utan við Búðará á Seyðisfirði sem olli gríðarlegu tjóni. Talið er að fleiri en tíu hús hafi annað hvort gereyðilagst eða skemmst í henni. Búið var að rýma hluta af bænum, bæði innan og utan við Búðarána, en ekki á öllu því svæði sem skriðan féll. Viðbragðsaðilar og nokkrir íbúar voru á svæðinu og í nágrenninu og sluppu sumir naumlega undan skriðunni. Harpa segir að sú skriða hafi verið annars eðlis en þær skriður sem féllu fyrr í vikunni. „Þær athuganir sem farið hafi fram á henni eru aðeins frumathuganir en þær sýna skriðusár sem er allt að 20 m á hæð og svo virðist sem það nái djúpt ofan í setlög sem ekki hafi hrunið úr í árþúsundir. Við bjuggumst ekki við skriðu af þessari stærðargráðu og vanmátum aðstæður utan Búðarár þar sem skriðan féll. Við bjuggumst við skriðum, til dæmis í Búðará, en túlkun jarðfræðilegra greininga höfðu ekki gefið til kynna ummerki um stórar forsögulegar skriður þessum stað“, segir Harpa. „Eftir að skriðan féll þurftum við síðan að endurmeta aðstæður í skyndi út frá aðstæðum sem ekki hefðu verið uppi í hundruð, eða þúsundir ára“, segir Harpa.

Seydisfjördur-desember-2020_Moment5

Skriðusár stærstu skriðunnar þar sem hún féll í sjó fram. (Ljósmynd: Sérsveit ríkislögreglustjóra)

Hlíðin óstöðug áfram í einhvern tíma

Allnokkrar sprungur ganga út frá skriðusárum í hlíðunum ofan bæjarins. Veðurstofan fylgist grannt með aðstæðum til að meta hættuna á frekari skriðuföllum. Eftir að skriður falla getur hrunið áfram úr skriðusárinu í langan tíma en í flestum tilfellum eru þær skriður miklu minni. Hlíðin kann því að verða óstöðug eitthvað áfram og hrunið gæti úr skriðusárum í rigningartíð. Harpa segir ró vera að færast yfir allt svæðið í sunnanverðum Seyðisfirði. „Mælingar milli daga sýna að hreyfingin hefur hægt á sér, sem eru góðar fréttir. Þá sýna mælingar úr borholum og vatnsritamælum að vatnsþrýstingur fer minnkandi. Tíminn vinnur með okkur meðan ekki rignir og svæðið verður smá saman stöðugra“.

Vöktun á hlíðum í Seyðisfirði aukin

Fram kom á íbúafundinum að sérfræðingar Veðurstofunnar töldu mikilvægt að koma upp mælitækjum svo hægt sé að fylgjast með aðstæðum í hlíðum fjarðarins í rauntíma. Sú vinna er þegar hafin og er von á útfærslu fljótlega um hvernig slíkt kerfi fyrir Seyðisfjörð verði og því komið upp í kjölfarið.  Verið að gera áætlanir um búnað sem stöðugt sendir upplýsingar um hreyfingu á jarðvegi og vatnsstöðu í borholum. Í þeim áætlunum er gert ráð fyrir síritandi mælingum sem klukkutíma fyrir klukkutíma senda upplýsingar um hvort hreyfing sé í hlíðinni. Slík vöktun er talin bæta öryggið mikið.


Hér má sjá útlínur skriðanna sem fallið hafa.

Endurskoða þarf hættumat og vinnu við varnarkosti verður flýtt

Skriðuhætta í þéttbýlinu við sunnanverðan Seyðisfjörð á upptök í mismunandi hæð í hlíðinni eftir svæðum. Þekktustu skriðuhættusvæðin eru undir Strandartindi þar sem oft hefur orðið tjón í byggð, sem teygir sig út eftir mjórri ströndinni undir brattri hlíð. Skriður á þessu svæði eiga oft upptök í þykkum setlögum ofarlega í Strandartindi.

Öryggisviðbúnaður á svæðinu eftir að skriðan féll á föstudag miðast við að leggja mat á yfirvofandi hættu á skriðuföllum af mismunandi toga. Í fyrsta forgangi er að meta hættu á að mjög stór skriða, sambærileg við forsögulegu skriðurnar, falli úr meginfarvegunum þremur. Í öðru lagi að frekari skriður falli úr upptökum stóru skriðunnar á fimmtudag, en þar hafa opnast sprungur, einkum utan og ofan við upptök stóru skriðunnar. Í þriðja lagi að sambærilegar skriður og á föstudag falli úr Botnabrúninni milli meginfarveganna. Þar er um að ræða alla Botnabrúnina frá Skuldarlæk inn að Dagmálalæk. Og í fjórða lagi að minni jarðvegs- eða yfirborðsskriður falli úr hlíðinni, sambærilegar og fallið hafa á nokkrum stöðum undanfarna daga, samanber kortið hér að ofan.

Þekkt skriðuhættusvæði eru einnig undir fjallinu Bjólfi við norðanverðan Seyðisfjörð. Úrkoma í yfirstandandi skriðuhrinu hefur ekki staðið með sama hætti upp á þessa hlíð og á fjöllin sunnan fjarðarins. Mælingar á vatnsþrýstingi í borholum og vettvangsathuganir, m.a. könnun á vatnsrennsli í skurðum, benda jafnframt til þess að jarðlög á svæðinu séu ekki mjög óstöðug nú, enda hefur ekki orðið vart við skriðuföll á þessu svæði til þessa í yfirstandandi vætutíð. Skriðuupptakasvæði ofan við miðjar hlíðar Bjólfsins eru jafnframt ekki talin hættuleg nú vegna þess að þar hefur snjóað en ekki rignt eins og í sambærilegri hæð sunnan fjarðarsins. Ekki þykir því ástæða til þess að hafa áhyggjur af skriðuhættu norðan Fjarðarár.

Í gangi er vinna við mat á varnarkostum fyrir sunnanverðan Seyðisfjörð og verður þeirri vinnu flýtt. Tómas Jóhannesson, fagstjóri á Veðurstofunni segir að nú þegar sé farið að rýna í þau gögn sem safnast hafa til að endurmeta hættuna og vinna frumdrög að mögulegum varnarkostum. „Við munum gera það með kollegum okkar t.d. frá Noregi og Sviss og er tækniskýrsla um varnarkosti væntanleg á næstu vikum og frumathugun um varnarkosti í sunnanverðum Seyðisfirði verður skilað í vor“, segir Tómas. Það er svo stjórnvalda og sveitarfélagsins að leggja mat á þær hugmyndir um varnarkosti sem koma fram og taka ákvörðun um í hverskonar framkvæmdir eða aðgerðir verður ráðist í.

Alþingi samþykkti nýverið fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár, en hún gerir ráð fyrir auknum framlögum ríkisins til byggingar varnarmannvirkja vegna ofanflóða um 1,6 milljarð árlega og stendur árleg fjárheimild næstu ára í um 2,7 milljörðum króna. Þetta aukna fjármagn hefur í för með sér að uppbyggingu ofanflóðamannvirkja á hættusvæðum í byggð á Íslandi verður flýtt.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica