Fréttir
Atvinnuveganefnd við hús Veðurstofunnar
Mikil ánægja var með heimsóknina og ekki síst vakti athygli hvað veðrið var gott. Smelltu til að stækka myndina.

Sólin skein á atvinnuveganefnd Alþingis

Mikill stuðningur við áform Veðurstofunnar um bætta veðurþjónustu

13.9.2018

Atvinnuveganefnd Alþingis heimsótti Veðurstofuna í morgun og var margt rætt þegar farið var yfir verkefni og áherslur. Árni Snorrason, forstjóri, veitti nefndinni innsýn í fjölbreytt verkefni Veðurstofunnar meðal annars þau sem snúa að vöktun náttúrunnar og rannsóknum. Sérstaklega var rætt um uppbyggingu veðursjárkerfis og var mikill stuðningur meðal nefndarmanna við áform Veðurstofunnar um bætta veðurþjónustu. Farið var yfir verkefni Veðurstofunnar sem lúta að náttúruvá s.s. vöktun og hættumat. Sérstaklega farið yfir nýlegar skýrslur um jökulhlaup vegna eldgosa í Öræfajökli og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í tengslum við þessa stærstu eldstöð landsins. Loftslagsmál voru ofarlega í huga nefndarmanna og var rætt um mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu í þeim efnum. Árni forstjóri nefndi að í kringum formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu 2019-2021 myndist mörg tækifæri til að auka samvinnu ríkja á norðurslóðum, en sú samvinna er okkur Íslendingum mikilvæg til að auka getu okkur í að takast á við áhrif loftslagsbreytinga. Veðurstofan hefur einmitt komið að undirbúningi verkefna tengdum formennsku Íslands. Samþætting í starfi Veðurstofunnar vakti líka eftirtekt og svo hversu vel hefur gengið að afla tekna fyrir þjónustu og í rannsóknaverkefnum.

Samstarf Veðurstofu Íslands og dönsku veðurstofunnar um rekstur ofurtölvu vakti mikla athygli. Hér stendur nefndin í tölvuveri Veðurstofunnar á milli Þórs og Freyju. Frá vinstri: Ásmundur Friðriksson (D), Selma Hafliðadóttir, ritari nefndarinnar, Njáll Trausti Friðbertsson (D), Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (S), Inga Sæland (F), Sigurður Páll Jónsson (M), Halla Signý Kristjánsdóttir (B), Smári McCarthy (P), Ólafur Þór Gunnarsson (V).

Nefnd3

Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur, útskýrir flugveðurspána fyrir Njáli Trausta, Albertínu og Smára. Njáll Trausti og Smári voru sérstaklega áhugasamir enda Njáll Trausti flugumferðarstjóri á Akureyri og Smári í flugnámi.

Nefnd2

Nefndin leit við í spásal Veðurstofunnar. Hér útskýrir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á vakt, útlitið fyrir helgaveðrið fyrir þeim Höllu Signýju, Selmu og Ásmundi.

Nefnd4

Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur, útskýrir skjálftahrinur morgunsins fyrir Smára og Albertínu.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica