Fréttir
Sérfræðingar Veðurstofunnar að störfum á Hofsjökli. Þetta er 33. vorleiðangurinn til mælinga á vetrarafkomu Hofsjökuls. (Ljósmynd: Þorsteinn Þorsteinsson)

Snjóalög undir meðaltali á Hofsjökli við vetrarlok

Mælingar með snjósjá stórauka þekkingu á dreifingu vetrarsnævar á jöklinum

10.6.2020

Snjóalög á Hofsjökli eru undir meðaltali við vetrarlok í ár. Þetta er niðurstaða árlegs vorleiðangurs sérfræðinga á Veðurstofu Íslands sem mældu snjóþykkt á jöklinum dagana 27.4.– 4.5. sl. Aðeins á norðanverðum Hofsjökli náði snjóþykkt langtímameðaltali.

Borað var gegnum snjólag vetrarins á 20 stöðum og vatnsgildi vetrarafkomu reiknað í hverjum punkti. Þær tölur eru síðan nýttar til að meta vatnsgildi vetrarsnævar á tilteknum ísasviðum jökulsins og má út frá því meta hversu mikill massi bættist á jökulinn frá haustinu 2019 fram til aprílloka 2020.


Myndin sýnir hefðbundna mælipunkta og legu sniða sem mæld voru með snjósjá í vorferðinni á Hofsjökul. Sniðin 2020 eru rauðlituð. Á norðanverðum jöklinum er aðallega mælt á Sátujökli. Mælilínan á SA-hlutanum er á Þjórsárjökli og línurnar á SV-hlutanum á Blágnípujökli og Blautukvíslarjökli.

Skil milli vetrarlags og hjarnsins frá fyrra ári óvenju greinileg

Þynnst var snjólagið 1.2 m á norðanverðum Sátujökli og neðst á Blautukvíslarjökli en þykkast 5.7 m á hábungunni í 1790 m hæð. Metþykkt mældist þar 8.1 m vorið 2012, meðaltalið frá upphafi mælinga 1988 er 6.5 m og vatnsgildið að jafnaði um 3 m (3000 mm). Þar er um vetrarafkomu að ræða en dæmigerð heildarúrkoma jökulársins á hábungunni (frá hausti til hausts) er a.m.k. 3500 mm. Til samanburðar má nefna að ársúrkoma í Reykjavík er að jafnaði um 800 mm, á Akureyri tæpir 500 mm og á Fagurhólsmýri um 1800 mm.

Á ákomusvæði jökulsins voru svonefnd hausthvörf – skilin milli vetrarlagsins og hjarns frá fyrra ári – óvenju greinileg. Hjarnið er mun grófara en nýlegur, fínkorna vetrarsnjórinn og eðlisþyngd jókst að jafnaði um rúm 20% þegar komið var niður fyrir hausthvörf. Nákvæmni í greiningu á þykkt vetrarlagsins var því með besta móti.



Hausthvörf og snjóþykkt.  Á myndinni eru niðurstöður mælinga á eðlisþyngd á 6 m löngum snjókjarna sem boraður var í 1600 m hæð, norðan við miðjan jökul. Efst er mjög eðlislétt nýsnævi. Hausthvörf greindust á 541 cm dýpi en þar eykst eðlisþyngdin skyndilega úr 0.48 g/cm3 í tæplega 0.57 g/cm3, þ.e. um nær 20%.




Myndin sýnir mælda snjóþykkt í 9 punktum á mælilínunni, sem liggur frá norðurjaðri jökulsins upp á hábunguna. Til samanburðar eru sýnd gögn síðustu þriggja ára og 30 ára meðaltal tímabilsins 1988–2017.

Vetrarafkoma 2019-2020

Út frá mælingum á ísasviðum Sátujökuls, Þjórsárjökuls og Blágnípujökuls má áætla að vatnsgildi vetrarafkomu á Hofsjökli öllum veturinn 2019–2020 - þ.e. dýpi vatnslags sem dreift væri yfir jökulinn - hafi að jafnaði verið 1.6 m, sem er nærri 90% af langtímameðaltali. Flatarmál jökulsins er nú um 809 km2 (skv. útlínum haustið 2019) og nemur vetrarafkoman því alls um 1.3 gígatonnum (GT, þ.e. milljörðum tonna).

Ársafkoma jökla er reiknuð frá hausti til hausts og fæst hún þegar leysing sumarsins hefur verið mæld og sumarafkoma reiknuð út frá henni. Ársafkoman er neikvæð ef meira tapast að sumri en bætst hefur á að vetri. Frá upphafi mælinga á Hofsjökli árið 1988 hefur ársafkoma verið neikvæð í 27 skipti af 32, en of snemmt er að spá um niðurstöðu jökulársins 2019-2020.

Mælingar með snjósjá stórauka þekkingu á dreifingu vetrarsnævar á jöklinum

Snjóþykktarmælingar með svokallaðri snjósjá eru nú að verða reglulegur liður í vormælingum Veðurstofunnar. Tækið er dregið á eftir vélsleða, sendir stöðugt rafsegulbylgjur niður í snjóinn og nemur endurkast þeirra frá hausthvörfunum (eða frá jökulís undir vetrarlaginu). Gögn úr snjósjánni hafa stóraukið þekkingu á dreifingu vetrarsnævar á Hofsjökli, enda er hægt að ná um hálfri milljón mælinga á snjóþykkt meðan eknar eru helstu mælilínur á jöklinum.


Snjósjármæling. Í snjósjánni er sendir og móttakari auk GPS-staðsetningartækis. Tækinu er komið fyrir í bátlaga sleða sem dreginn er af vélsleða. Ökumaður sleðans stjórnar mælingunni með fartölvu sem er í þráðlausu sambandi við snjósjána.

Til samanburðar fást 20–30 mælingar með borunum og er fyrirhöfnin við þær margfalt meiri. Boranirnar eru hins vegar ómissandi til mælinga á eðlisþyngd vetrarlagsins og útreikninga á vatnsgildi þess. Myndirnar hér að neðan sýna tvö dæmi um endurkast rafsegulbylgjanna úr snjósjánni og samanburð við snjóþykkt mælda með borunum.


Endurkast rafsegulbylgju frá hausthvörfum á um 330 cm dýpi í punktinum HN14 á Hofsjökli. Rauða strikið táknar snjókjarna sem boraður var á þessum stað. Samkvæmt honum mældist snjódýpið 334 cm og má því heita að mælingarnar tvær gefi sömu niðurstöðu (munurinn er aðeins um 1%). Sjá dýptarkvarða snjósjárinnar t.h.


Endurkast rafsegulbylgju frá neðra borði vetrarlags í punktinum HN10 á Hofsjökli. Hér er þéttur jökulís undir vetrarlaginu og endurkastið því skýrara en í HN14. Snjóþykkt er hér um 230 cm og ber mælingum með snjósjá mjög vel saman við kjarnann.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica