Skjálfti af stærð 3,6 í öskju Öræfajökuls
Jarðskjálfti af stærð 3,6 varð í öskju Öræfajökuls klukkan 5:07 í morgun, 9. febrúar. Um 10 eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið. Nokkrir íbúar í nágrenni Öræfajökuls fundu skjálftann en flestir sváfu.
Jarðskjálftinn er sá stærsti sem mælst hefur í Öræfajökli en jarðskjálftamælir var fyrst settur upp á þessu svæði árið 1976. Skjálftinn átti upptök undir öskjunni, rétt suðaustur af katlinum sem myndaðist í nóvember á síðasta ári. Upptökin virðast hafa verið á nokkurra kílómetra dýpi. Meira en ár er síðan jarðskjálftamælar fóru að sýna merki um aukna skjálftavirkni í Öræfajökli. Frá síðasta hausti hafa auk þess mælst tveir aðrir skjálftar stærri en 3 (3.5 þann 3. október 2017 og 3.1 þann 18. janúar 2018).
Ekki hafa orðið aðrar breytingar á síðustu vikum samkvæmt gögnum sem berast til Veðurstofunnar frá mælistöðvum, þar á meðal frá aflögunarmælingum (GPS) og vatna- og jarðefnamælum. Flogið verður yfir svæðið til að mæla yfirborð jökulsins um leið og veður leyfir, en slíkar mælingar geta gefið til kynna breytingar í undirliggjandi jarðhitakerfi. Farið verður yfir gervitunglamyndir á næstu dögum til að kanna hugsanlegar breytingar á yfirborði jökulsins. Engar verulegar breytingar hafa orðið á þessu ári samkvæmt gervitunglamyndum.
Litakóði fyrir flugumferð í nágrenni Öræfajökuls er áfram gulur. Á Veðurstofunni er fylgst með Öræfajökli allan sólarhringinn og allar breytingar á ástandi eldfjallsins eru tilkynntar.
Rauðu hringirnir sýna upptök skjálfta í Öræfajökli 9. febrúar 2018. Svörtu þríhyrningarnir sýna jarðskjálftamælistöðvar Veðurstofunnar.