Fréttir
Gefnar hafa verið út gular viðvaranir fyrir fjögur spásvæði: Strandir og Norðurland vestra, Norðurland eystra, Miðhálendið og Austurland að Glettingi. Viðvaranirnar taka gildi kl. 17, fimmtudaginn 3. september.

September hefst með látum

Gefnar hafa verið út gular viðvaranir fyrir fjögur spásvæði

1.9.2020

Gefnar hafa verið út gular viðvaranir fyrir fjögur spásvæði: Strandir og Norðurland vestra, Norðurland eystra, Miðhálendið og Austurland að Glettingi. Viðvaranirnar taka gildi kl. 17, fimmtudaginn 3. september. Útlit er fyrir norðan hvassviðri eða storm, 15-20 m/s og talsverða úrkomu. Hiti verður nærri frostmarki og því líklegt að úrkoma falli sem slydda ofan 200 metra yfir sjávarmáls og sem snjókoma ofan 400 metra. Veðrið gæti skapað vandræði fyrir búfénaði, einkum kindum til fjalla. Líklegt er að færð spillist á fjallvegum og ferðalangar á svæðinu ættu að huga vel að veðurspám.

Tækifæri til að rifja upp viðvarankerfi Veðurstofunnar

CAP_01092020_FylkidÞegar gefnar eru út viðvaranir vinna veðurfræðingar út frá mögulegum áhrifum veðurs og líkum á því að veðrið skelli á. Þetta er útskýrt í því sem við köllum „Áhrifafylkið“. Þar er horft á „líkur“ og „áhrif“. Viðvörunarlitur ákvarðast þannig af mati sérfræðinga á áhrifum væntanlegs veðurs og líkum á því að spáin gangi eftir. Í skýringartextanum fyrir gula viðvörun segir: „Gul viðvörun getur einnig gefið til kynna að litlar eða miðlungs líkur séu á mjög áhrifamiklu veðri 3-5 daga fram í tímann.“ Það er því mikilvægt að átta sig á því að gul viðvörun 3-5 daga fram í tímann táknar ekki endilega hversu slæmt veður er í vændum. Veðurfræðingar á vakt mun því fylgjast náið með þróun mála og mögulega hækka viðvörunarstig.

Nánar má lesa um viðvarankerfi okkar hér





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica