Fréttir

Samtalið hafið um aðlögun sveitarfélaga að breyttum heimi

Vel sóttur fundur um áherslur sveitarfélaga í aðlögun að loftslagsbreytingum

5.9.2022

Loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á íslenskt samfélag og lífríki bæði með beinum og afleiddum hætti og byggja þarf upp þekkingu á því hver möguleg áhrif loftslagsbreytinga gætu orðið á byggðir landsins. Þetta var meðal umræðuefna á fundinum Aðlögun að breyttum heimi – hefjum samtalið, sem haldin var á Grand hótel í dag.

Það voru umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og innviðaráðuneytið sem stóðu að fundinum, ásamt Veðurstofu Íslands, Byggðastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Var áherslan á aðlögun að loftslagsbreytingum í sveitarfélögum og ætlað að vekja umræðu um mikilvægi þess að hefja skipulagningu aðlögunaraðgerða á sveitarstjórnarstigi. Meðal umfjöllunarefna var hvað áhrif loftslagsbreytingar þýða fyrir mismunandi landshluta, atvinnugreinar og hópa fólks og hverjar mögulegar afleiðingar kunni að vera fyrir samfélögin, atvinnuvegi, innviði, efnahag og umhverfi, sem og hvernig áhættumat og aðlögunaraðgerðir geti lágmarkað skaðleg áhrif loftslagsbreytinga og hjálpað til við að grípa möguleg tækifæri.

Ný skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands mun veita ríki, sveitarfélögum, fyrirtækjum og almenningi aðgang að bestu mögulegu upplýsingum um áhrif loftslagsbreytinga.

Vinna hafin við undirbúning fyrstu landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum

Adlogunarfundur-Gudlaugur-Thor„Við verðum við öll að læra á næstu árum að hugsa um áhrif loftslagsbreytinga þegar við byggjum húsin okkar, skipuleggjum byggðir, hugum að líffræðilegri fjölbreytni og tökum ákvarðanir innan fyrirtækjanna okkar sem móta framtíð atvinnuvega og þjóðarhag,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í ávarpi sínu. Ísland sé hins vegar ekki á byrjunarreit, því hér sé til staðar umtalsverð þekking er komi að því að vakta náttúruna og bregðast við þegar vá ber að garði.

Vinna við undirbúning fyrstu landsáætlunar íslenskra stjórnvalda um aðlögun að loftslagsbreytingum er hafin í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Með áætluninni verður Íslandi búinn rammi utan um þá mikilvægu vinnu sem þarf að fara fram í öllu samfélaginu, meðal almennings, stofnana, fyrirtækja og sveitarfélaga.

„Jafnframt er ég að skipa í fyrsta skipti stjórn yfir samráðsvettvang um þekkingarsköpun um áhrif loftslagsbreytinga, þar sem tilgangurinn er að öðlast yfirsýn yfir þá þekkingu sem við höfum. En ekki síður hvaða þekkingu okkur vantar svo að við getum unnið markvisst að því að efla rannsóknir á áhrifum og afleiðingum loftslagsbreytinga á Íslandi,“ sagði Guðlaugur Þór.

Mikilvægt að málaflokkar aðlögunar og mótvægisaðgerða tali saman

Adlogunarfndur-Sigurdur-Ingi„Við þurfum að öðlast dýpri skilning á því hvernig þær breytingar sem vænta má munu snerta okkar helstu atvinnugreinar, byggðirnar okkar, innviðina, skipulagsmálin, fráveitukerfin og hvernig við vinnum saman að laga okkur að þeim. Þótt tími aðlögunar sé runninn upp, gefur það þó okkur ekki leyfi til þess að slá slöku við í aðgerðum til samdráttar í losun. Þvert á móti, því um er að ræða tvo málaflokka með fjölmarga snertifleti og mikilvægt að þeir tali saman, bæði hjá ríki og sveitarfélögum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.


Styðji við loftslagsþolna þróun

„Loftslagsbreytingar eru stærsta áskorun okkar tíma“, segir Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands. „Það er mikilvægara en áður að þróun samfélaga um heim allan sé með þeim hætti að þau auki þanþolsitt gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga og styðji þannig við loftslagsþolna þróun, eins og það er kallað. En til þess að ná því markmiði þá þarf aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga að vera þáttur í heildarstefnu samfélaga“ segir Árni.

Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands, var ein af þeim sem var með erindi á fundinum í dag. „Það er mikilvægt að hefjast handa strax þar sem bæði mótvægisaðgerðir og aðlögun taka tíma og vegna þess að horfur um árangur í loftslagþolinni þróun versna með hlýnandi heimi. Sérstaklega ef horft er til þess möguleika að hlýnun jarðar fari fram úr 1,5 °C í nálægri framtíð“, segir Anna Hulda. „Ef viðbrögð við loftslagsbreytingum eru vandlega ígrunduð og byggja á upplýstri og samhæfðri ákvarðanatöku geta þau haft jákvæð áhrif á þjóðarhag”.

Myndband um hvað felst í aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga

Upptaka frá fundinum á Grand Hótel í Reykjavík, 5. september 2022.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica