Fréttir
flugvél
FAAM flugvél notuð við gasmælingar

Rannsóknarflugvél mælir gas

10.10.2017

Vikuna, 2.-6 október var breska rannsóknarflugvélin FAAM (Facility for Airborne Atmospheric Measurements) hér á landi við mælingar á gasi frá íslenskum eldfjöllum. Áhersla var lögð á Kötlu auk hefðbundinna veðurmælinga. Mæliflugin eru hluti af breska VANAHEIM verkefninu.  

Tveir starfsmenn Veðurstofunnar, Guðrún Nína Petersen og Melissa Anne Pfeffer, auk Haraldar Ólafssonar prófessors við Háskóla Íslands, komu að undirbúningi og ákvarðanatöku um mæliflugin og tóku virkan þátt í mæliflugunum sjálfum.

vísindamenn

Melissa Anne Pfeffer og breskir vísindamenn undirbúa mæliflug.

Það viðraði vel til flugs. Á mánudeginum var flogið meðfram stórum hluta suðurstrandar Íslands og mælt í nokkrum hæðum fyrir sunnan Mýrdalsjökul. Þriðjudagurinn var vinnu- og undirbúningsdagur því vindafar hentaði ekki til mælinga. Á miðvikudag var flogið í kringum Mýrdalsjökull í nokkrum hæðum og einnig yfir og suður af Vatnajökli. Á fimmtudag var meðal annars flogið í kringum Vatnajökul og Heklu. Á föstudag hélt vélin til baka til Bretlands en mælt var í upphafi ferðar.

Jökull

Öræfajökull síðdegis miðvikudaginn 4. október.

BBC Northwest fylgdist með undirbúningi og flaug með vélinni á miðvikudeginum þar sem unnið var að frétt fyrir BBC1 .

flötur

Flugferill síðdegis miðvikudaginn 4. október.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica