Ráðstefnan "Cryosphere 2022" hefst í næstu viku
Stór alþjóðleg vísindaráðstefna í Hörpu á vegum Veðurstofu Íslands um afdrif íss og snævar í hlýnandi loftslagi jarðar
Jöklar hafa undanfarin ár rýrnað um alla jörðina og hinar stóru ísbreiður Grænlands og Suðurskautslandsins leggja sífellt meira til hækkunar heimshafanna. Snjóa leysir fyrr að vori á norðurslóðum, bráðnun sífrera í fjöllum leiðir til aukinnar skriðuhættu og útbreiðsla hafíss fer minnkandi í Norðurhöfum.
Þessi ummerki hlýnandi loftslags eru vel þekkt og á ráðstefnunni Cryosphere 2022, sem haldin verður í Hörpu dagana 21. –26. ágúst, munu vísindamenn frá flestum heimsálfum kynna nýjustu niðurstöður rannsókna á þessu sviði. Freðhvolfið (e. cryosphere) nær yfir allt frosið vatn á jörðinni og er það nýlunda að fjalla um alla þessa þætti á sömu ráðstefnunni. Til stóð að halda ráðstefnuna á 100 ára afmælisári Veðurstofu Íslands árið 2020 en heimsfaraldurinn setti strik í reikninginn í tvígang.
„Ráðstefnan og efniviður hennar er mikilvægt tækifæri til að móta framtíðarstefnu í þessum málaflokki“, segir Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands. „Það að takast á við loftslagsbreytingar er stærsta verkefni samfélagsins um ókomin ár og vöktun, rannsóknir og miðlun upplýsinga um loftslagsbreytingar er að verða sífellt stærri og mikilvægari þáttur í hlutverki Veðurstofunnar", segir Árni. „Viðbrögð okkar þurfa að byggja á samtali fulltrúa ríkisstjórna, alþjóðastofnana og vísindafélaga og þessi ráðstefna er hluti af því samtali. Ég veit að í erindum sem verða flutt koma fram skýr skilaboð um alvarleika stöðunnar sem er ekki hvað síst sýnileg á norðurhveli, en þar eru breytingarnar örari en annarsstaðar á jörðinni“ segir Árni sem gegnt hefur formennsku í Global Cryosphere Watch (GCW) sem er samstarfsvettvangur um vöktun á breytingum í freðhvolfinu á vegum Alþjóðlegu veðurfræðistofnunarinnar (WMO).
Nýmæli að fjalla um alla þætti freðhvolfsins á einni ráðstefnu
Sérhæfð erindi verða flutt frá þriðjudegi til föstudags og er gert ráð fyrir að um 150 vísindamenn taki til máls á ráðstefnunni, auk þess sem niðurstöður margvíslegra rannsókna verða kynntar með um 170 veggspjöldum, en alls sækja fleiri en 330 vísindamenn ráðstefnuna frá 33 löndum í 6 heimsálfum.
„Árlega
eru haldnar ráðstefnur um margvísleg áhrif loftslagsbreytinga en nýmæli er
fólgið í því að fjalla á sama þinginu um alla þætti hins svonefnda freðhvolfs jarðar og samspil þeirra við veðrahvolfið
og úthöfin “ segir Þorsteinn Þorsteinsson, sérfræðingur á sviði jöklarannsókna á Veðurstofu Íslands.
„Fjallað verður um hveljökla, fjallajökla, snjóþekju, hafís, sífrera og lagnaðarís og jafnt um breytingar í fortíð, núverandi ástand og
framtíðarhorfur. Einnig koma þarna saman
stjórnendur og fulltrúar á vegum alþjóðastofnana og samtaka, sem stjórna vöktun
og rannsóknum á veðurfari jarðar, vatnafari og jöklabreytingum. Stefnt er að
því að stilla saman strengi þessara fræðasviða við stefnumótun í
loftslagsmálum“, segir Þorsteinn.
Áhugaverðir opnir fyrirlestrar samhliða ráðstefnunni
Upptaktur að ráðstefnunni verður myndasýning
og erindi sem James Balog, ljósmyndari og rithöfundur flytur, sunnudaginn 21.ágúst kl. 16 –17:30 í Silfurbergi í Hörpu . Erindið er öllum opið og er aðgangur
ókeypis.
James Balog hefur um áratuga skeið unnið að skrásetningu á breytingum á náttúrunni og meðal þekktustu verka hans eru margverðlaunaðar kvikmyndir Chasing Ice og The Human Element, og bókin ICE: Portraits of Vanishing Glaciers. Hann er stofnandi og framkvæmdastjóri Earth Vision Institute og Extreme Ice Survey. Teymið hans hefur rekið myndavélar um 15 ára skeið fyrir framan nokkra skriðjökla á Íslandi, sjá nánar Extreme Ice Survey A program of Earth Vision Institute - Extreme Ice Survey.
Mánudagskvöldið 22. ágúst verður opiðfræðslukvöld á Bryggjan brugghús kl. 20.00, en þar munu vísindamennirnir Eric Rignot (Frakkland/University of Irvine), Guðfinna Aðalgeirsdóttir (Ísland/Háskóla Íslands), Jason Box (USA/GEUS) og Michael Zemp (Sviss/WGMS) leiða gesti í sannleika um áskoranir og raunir vísindamanna við vettvangsvinnu ásamt því að segja okkur fréttir af ástandi jökla á jörðinni. Erindin verða flutt á ensku.
Þriðjudagskvöldið 23. ágúst kl. 20:30 mun Guðmundur Hilmar Guðmundsson jöklafræðingur við Háskólann í Newcastle á Englandi flytja erindi á íslensku um Suðurskautsjökulinn, núverandi þróun hans og líklegar breytingar í framtíðinni. Fyrirlesturinn verður í Stjörnuverinu í Perlunni og er öllum opinn. Gestir geta einnig skoðað sýningar Náttúruminjasafnsins á 2. hæð, Vatnið í Náttúru Íslands og Vorferð, sýningu um sögu Jöklarannsóknafélagsins.