Óvenjuleg snjóalög í Esjunni
Þessa dagana má sjá óvenjulega sjón frá Reykjavík og hefur Veðurstofunni borist nokkrar fyrirspurnir og myndir af fyrirbrigðinu. Hlíðar borgarfjallsins Esjunnar, hafa verið snævi þaktar og alhvítar upp í um 300 m hæð en fyrir ofan er mun minni snjór, sums staðar enginn, og fjallið grátt, eins og sjá má á forsíðumyndinni sem var tekin 11 janúar 2023.
Algengt er að fjöll séu snævi þakin að ofan þótt lítill snjór sé á láglendi. Þetta er vegna þess að lofthiti fer alla jafna lækkandi með hæð en úrkoma vaxandi og getur hún því fallið sem snjór í fjalllendi þó rigni á láglendi. Stundum má þó sjá meiri snjó á láglendi en hálendi eins og síðustu daga.
Ástæða þessarra öfugu snjóalaga, ef svo má kalla þau, er að finna í hitanum. Mjög kalt hefur verið á landinu upp á síðkastið en með nokkrum stuttum undantekningum. Mynd 1 sýnir lágmarkshita í 2 m hæð á veðurstöðinni á Skrauthólum á Kjalarnesi, 1.-11. janúar. Skrauthólar eru í 20 m hæð yfir sjávarmáli undir Esjuhlíðum. Þann 2. janúar og fram á morgun 3. janúar var lágmarkshiti yfir frostmarki en síðan tók við kaldur kafli fram að kvöldi 7. janúar. Frá 8. janúar og fram á kvöld 11. janúar var lágmarkshiti aftur að jafnaði yfir frostmarki á Skrauthólum.
Mynd 1: Lágmarkshiti (°C) á veðurstöðinni Skrauthólum á Kjalarnesi, 1.-11. janúar 2023.
Í þessu þíðviðri varð snjórinn á láglendi og í neðri hlíðum Esjunnar rakur og þéttist. Í efri hluta hlíðanna var hiti hinsvegar alltaf vel undir frostmakri og snjórinn þurrari og lausari í sér. Slíkan snjó er mun auðveldara að koma á hreyfinu í vindi. Og einmitt í blotanum 8.-9. janúar fór vindhraði á Skrauthólum í allt að 20 m/s. Sá snjór sem var í efri hlíðum fauk því að mestu í burtu meðan snjórinn fyrir neðan lá óhreyfður.
Hér er að finna frétt á Tímarit.is frá árinu 1959 sem einnig fjallar um óvenjuleg snjóalög í Esjunni.