Fréttir
Vöktunarmælir var settur upp í Skjálfandafljóti vegna flóðahættu hinn 21. ágúst 2014, neðan við fossinn Gjallanda.

Ósk um upplýsingar varðandi söguleg flóð af völdum veðurs í helstu vatnsföllum landsins

Vinsamlegast sendið frásagnir og fleira

15.6.2016

Veðurstofan vinnur nú að hættumati á helstu vatnsföllum landsins. Hluti af því verkefni er að safna öllum tiltækum upplýsingum um söguleg flóð við eftirfarandi vatnsföll og þverár þeirra:

  • Hvítá í Borgarfirði
  • Héraðsvötn í Skagafirði
  • Eyjafjarðará
  • Skjálfandafljót
  • Lagarfljót

Eins og upptalningin sýnir, beinist þessi áfangi að því að skoða flóð sem orsakast af veðurfarslegum þáttum. Eðlismunur á slíkum flóðum og jökulhlaupum sem orsakast af eldvirkni en það mikilvæga verkefni verður tekið fyrir með öðrum hætti.

Veðurstofan telur afar mikilvægt að yfirstandandi gagnasöfnun byggist eins og kostur er á upplýsingum sem aflað var á vettvangi og af því fólki sem kunnugt er staðháttum.

Veðurstofan leitar eftir öllum tiltækum upplýsingum varðandi fyrri flóð á ofangreindum vatnasviðum, þ.m.t. staðsetningu þeirra, umfang og það tjón sem þau ollu.  Varðandi tjón er einnig átt við truflun á rekstri innviða svo sem: veitukerfa, samskiptakerfa og samgöngukerfa.

Allar upplýsingar eru vel þegnar, sama á hvaða formi þær eru, svo sem ljósmyndir, myndskeið, kort, samtímafrásagnir, gagnagrunnsfærslur, dagbókarfærslur o.s.frv.

Þeir sem hafa slíkar upplýsingar eru hvattir til þess að senda Veðurstofunni þær eða benda á hvar þær er að finna. Netfangið er vatnsflodasaga@vedur.is

Eins má hringja í Veðurstofuna og biðja um Davíð Egilson, sem veitir nánari upplýsingar.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica