Fréttir
Sentinel-tunglmynd af Hofsjökulsöskjunni, tekin í haust. Lega nýja sigketilsins er sýnd með rauðum hring.

Önnur mesta rýrnun Hofsjökuls frá upphafi mælinga

5.12.2025

Þrír starfsmenn Veðurstofu Íslands fóru á Hofsjökul dagana 12. til 15. nóvember til að mæla sumarleysingu. Það er mjög óvenjulegt að geta enn mælt leysingu svo seint á árinu.

Hausthlýindi náðu fram í miðjan október og féll lítill snjór á jökla fyrr en komið var fram í nóvember.

Eru aðstæður nú orðnar þannig á jöklum landsins að bíða þarf eftir að fyrstu snjóar að hausti fylli sprungur og ójöfnur, svo yfirborðið verði fært farartækjum.

Skyggni var gott á jöklinum og þegar komið var í um 1500 m hæð, norðan gosöskjunnar miklu, sem liggur undir jöklinum, kom í ljós nýmyndaður sigketill á þeirri leið sem jafnan er ekin áleiðis upp á hábunguna.

Ketillinn sást ekki í vorferðinni og hefur því myndast yfir sumarið. Auðvelt reyndist að sveigja austur fyrir hann en þarna þarf að hafa varann á framvegis. 

Meðfylgjandi gervitunglamynd sýnir legu hins nýja sigketils og sprungurnar í kringum hann.

Afkoma-hofsjokuls-1Sentinel-tunglmynd af Hofsjökulsöskjunni, tekin í haust. Lega nýja sigketilsins er sýnd með rauðum hring.

Fært var í 19 af 20 leysingarstikum sem settar eru í fastákveðna punkta á Hofsjökli á hverju vori. Sumar stikurnar höfðu sligast af hrími sem á þær hafði safnast um sumarið og haustið og lagst flatar. Allar fundust þær þó og var þar ekki síst fyrir að þakka snjóflóðaleitartæki, sem greinir sk. Recco-flögur sem festar eru á stikurnar. Ófært var í eina stikuna vegna nýja sigketilsins sem sést á myndinni.

Leysingin var mikil á Hofsjökli sumarið 2025. Neðstu stikurnar, sem eru í 800 til 900 m hæð, sýna að allur snjór síðasta vetrar bráðnaði og þar að auki 5 til 6 metrar af jökulís. Þegar heildarniðurstaðan er tekin saman kemur í ljós að ákoma um veturinn var í lægra lagi; vatnsgildi vetrarlagsins nam að jafnaði 1,2 m og raðast árið því í 35. sæti af 38 á kvarða vetrarafkomu. Sumarafkoman mældist hins vegar –3,0 m og hefur aðeins þrívegis mælst meiri leysing, árin 1991, 2003 og 2010. Þar vógu samspil hlýinda og eldfjallagjósku þungt, gjóska frá Heklu árið 1991 og frá Eyjafjallajökli árið 2010 hafði veruleg áhrif.

Við útreikninga þarf að taka tillit til þess að sumir mælistaðir eru í snjóakistum og ekki er unnt að mæla á sprungusvæðum. Landlíkanafkoma er notuð til að leiðrétta fyrir hliðrun í stikumælingunum og reiknast ársafkoman 2024–2025 þá –2,1 metra vatnsgildi. Aðeins einu sinni hefur hún mælst meira neikvæð, –3,1 m árið 2010. Meðfylgjandi súlurit sýnir ársafkomu Hofsjökuls 1989–2025, sem nú hefur verið mæld í 38 ár samfleytt. Á þessum tíma hefur afkoman aðeins verið jákvæð fimm sinnum, en neikvæð í 33 skipti. Rúmmál jökulsins hefur á þessu tímabili rýrnað úr um 200 rúmkílómetrum í um 165 rúmkílómetra, sem jafngildir um 17 prósenta minnkun. Flatarmálið hefur dregist saman um 15 prósent á sama tímabili og er nú komið niður fyrir 790 km2. Hofsjökull fer því enn síminnkandi í hlýju loftslagi líkt og aðrir jöklar landsins.

 Afkoma-hofsjokuls-2Ársafkoma Hofsjökuls 1989-2025.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica