Nýr jarðskjálftamælir í Hítárdal
Aukin vöktun vegna jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn
- Yfir 360 skjálftar frá maí 2021, þar af um 80 í ágúst 2024
- Ekki talið að skjálftavirknin sem er við Grjótárvatn sé af völdum kvikusöfnunar
Nýr jarðskjálftamælir var settur upp nú í lok september í Hítárdal, um 5 km NV við Grjótárvatn. Síðan í maí 2021 hafa af og til mælst jarðskjálftar við Grjótárvatn á Vesturlandi. Alls hafa mælst um 360 jarðskjálftar síðan vorið 2021 en mest mældust um 20 skjálftar í mánuði þangað til í ágúst 2024 en þá mældust tæplega 80 skjálftar á svæðinu. Flestir skjálftarnir eru af stærð 1 til 2 en sá stærsti mældist 3,0 að stærð þann 7. október 2021 og fannst víða á Snæfellsnesi. Lítil skjálftavirkni hafði verið á þessu svæði fyrir 2021 en einstaka skjálftar höfðu mælst þar síðustu áratugi.
Með tilkomu jarðskjálftamælisins í Hítárdal mun nákvæmni í staðsetningu jarðskjálfta á svæðinu aukast. Áður var nálægasta stöðin á Ásbjarnarstöðum í uppsveitum Borgarfjarðar í um 30 km fjarlægð frá upptökum skjálftanna.
Efsta kortið sýnir staðsetningu jarðskjálfta við Grjótárvatn frá 2021 til september 2024. Á kortinu sýna appelsínugulir þríhyrningar einnig staðsetningu nýja jarðskjálftamælisins í Hítárdal (hit) og næsta jarðskjálftamælis á Ásbjarnarstöðum (asb). Grafið í miðjunni sýnir stærð jarðskjálfta á svæðinu frá 2021 og neðsta grafið sýnir fjölda skjálfta í mánuði fyrir sama tímabil.
Hvað veldur jarðskjálftunum?
Grjótárvatn er innan sprungusveims sem tilheyrir eldstöðvarkerfi Ljósufjalla á Snæfellsnesgosbeltinu. Síðast varð þar lítið eldgos á 10. öld. Nánari upplýsingar um Ljósufjallakerfið má finna í Íslensku eldfjallavefsjánni. Að svo stöddu er ekki talið að skjálftavirknin sem er við Grjótárvatn sé af völdum kvikusöfnunar. Mögulega eru þeir af völdum innflekaskjálftavirkni en rannsaka þarf svæðið betur. Þar mun nýi skjálftamælirinn hjálpa til við að varpa ljósi á virknina sem hefur verið í rúm þrjú ár.