Fréttir
Stóra skriðan á Seyðisfirði er sú stærsta sem fallið hefur í þéttbýli á Íslandi

Nýr búnaður til að vakta skriðuhættu settur upp á Seyðisfirði

Hlíðin ofan við byggðina haldist nokkuð stöðug

7.1.2021

Ekki hefur orðið vart við skriðuföll úr hlíðinni ofan Seyðisfjarðar frá því fyrir jól. Óveruleg hreyfing hefur mælst síðan 23. desember í daglegum mælingum. Vatnsþrýstingur í hlíðinni hefur lækkað niður undir fyrra horf og breytist ekki mikið þó nokkuð hafi rignt eða snjóa leyst. Hlíðin hefur fengið á sig nokkra hlýindakafla frá því að stóra skriðan féll þann 18. desember og talsverða rigningu þann 27. desember án þess að skriður tækju að falla. Talið er að jarðlög sem los kom á í skriðuhrinunni hafi að mestu sest í sínar fyrri skorður og að nýtt úrkomutímabil þurfi til þess að skapa hættu á skriðuföllum. Enn er þó talin hætta á að hrunið geti úr skriðusárum en ekki að slík skriðuföll nái byggðinni utan svæðisins þar sem stóra skriðan féll. Almannavarnir hafa aflétt að mestu rýmingu húsnæðis nema fyrir hús næst skriðusvæðinu. Umferð hefur verið heimiluð um svæðin þar sem varað hafði verið við skriðuhættu nema að sérstök aðgæsla er viðhöfð í sambandi við umferð um skriðusvæðin og starfsemi þar. Einnig hefur fólk verið varað við að fara um þau svæði hlíðarinnar þar sem skriður áttu upptök og sprungur mynduðust í skriðuhrinunni. 

Hluti af nýjum vöktunarbúnaði sem flytja þarf til landsins þegar kominn upp

Vöktun hlíðanna ofan bæjarins hefur þegar verið efld umtalsvert frá því sem var áður en skriðurnar féllu. Fylgst er með hreyfingu jarðlaga sem og vatnshæð í borholum í hlíðinni, en hvort tveggja gefur vísbendingar um skriðuhættu. Unnið er að því að auka tíðni og nákvæmni mælinga enn frekar með sjálfvirkum búnaði og hafa sérfræðingar Veðurstofunnar og samstarfsaðilar unnið hörðum höndum að undirbúningi frekari vöktunar ásamt  uppsetningu á nýjum vöktunarbúnaði. Mikið af þessum nýja búnaði þarf að kaupa erlendis frá. Búnaður til mælingar á hreyfingu jarðlaga kom til landsins á mánudag 4. janúar og verður uppsetningu þess búnaðar lokið í vikunni.


Meðal þess búnaðar sem fest hafa verið kaup á er sjálfvirk alstöð sem sett hefur verið upp norðan fjarðar, en slíkur búnaður skýtur geisla í spegla sem komið var fyrir í Neðri-Botnum og Botnabrún og nemur hreyfingu á þeim. Helstu gallar við mælingar á speglum eru að þær eru háðar skyggni og snjóalögum og því er erfitt að mæla í þoku, mikilli úrkomu eða þegar mælisvæðið er hulið snjó. Mælingarnar eru punktmælingar þar sem hreyfing er einungis mæld á stöðum þar settir hafa verið speglar. (Ljósmynd: Veðurstofan / Bjarki Borgþórsson)

Aðstæður til vöktunar á Seyðisfirði mjög krefjandi

Veðurskilyrði geta haft áhrif á virkni vöktunarbúnaðar og því mikilvægt að sú tækni sem notuð er sé sem mest óháð aðstæðum s.s. lélegu skyggni eða snjóalögum. Meðal þess búnaðar sem veður hefur lítil áhrif á eru síritandi GPS-stöðvar. Slíkur búnaður gefur tíðari og nokkuð nákvæmar mælingar nánast óháð veðri. Unnið að því að koma fyrir samfelldum og síritandi GPS-stöðvum á helstu hugsanlegum upptakasvæðum stórra skriðna. Að auki verður sjálfvirkur úrkomumælir settur upp í hlíðinni í Neðri-Botnum.  Sjálfvirkur úrkomumælir er þegar rekinn í bænum á Seyðisfirði og annar aðeins utan við þéttbýlið á Vestdalseyri. Það getur verið mikill munur á úrkomu milli staða innan fjarðarins og því er talið mikilvægt að mæla úrkomu uppi á stallinum til að fá sem besta mynd af aðstæðum hverju sinni.


Stóra skriðan sem féll 18. desember var um 190 m breið þar sem hún féll niður í gegnum byggðina og út í sjó. Hún var um 435 m löng frá efsta brotsári út í ysta hluta tungunnar. Flekinn sem fór af stað úr meginupptakasvæðinu var 15−17 m að þykkt þar sem hann var þykkastur. Á myndinni er afmarkaður fleki sem gæti mögulega hlaupið fram og er þessi hluti hlíðarinnar vaktaður sérstaklega. (Ljósmynd: Sérsveit ríkislögreglustjóra)

Hraða uppsetningu á nýjum vöktunarbúnaði eftir bestu getu

Gengið verður frá mælikerfinu þannig að vöktunartæki sendi sjálfvirkar aðvaranir á vakt Veðurstofunnar þegar ákveðnum þröskuldsgildum í uppsafnaðri úrkomu og hreyfingu jarðlaga er náð. Stefnt er að því að ljúka uppsetningu á GPS búnaðinum og úrkomumælinum í janúar. „Við höfum reynt að hraða uppsetningu á nýjum og öflugri búnaði eins mikið og kostur er“, segir Magni Hreinn Jónsson ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni. „Það er mikilvægt að við reynum að draga úr óvissu fyrir íbúana og þá jafnframt þeirri óvissu sem sérfræðingar standa frammi fyrir við að meta hættu á skriðum. Með fleiri mælitækjum og aukinni sjálfvirkni getum við minnkað þessa óvissu, en jafnframt verðum við að horfast í augu við það að við getum aldrei eytt henni. Því má búast við því að grípa þurfi til rýminga oftar en áður. Markmiðið er auka öryggi íbúa eftir bestu getu en í því samhengi þarf hinsvegar að fara saman vöktun, rannsóknir, uppsetning varnarmannvirkja en kannski ekki síst langtímastefnumörkun í skipulagi þannig að skriðuhætta og önnur ofanflóðahætta fari minnkandi þegar til lengri tíma er litið“, segir Magni.

Auk þess búnaðar sem nefndur er hér að ofan skoða sérfræðingar Veðurstofunnar fleiri leiðir til þess að vakta hlíðina ofan bæjarins, en eins leiðir til að afla gagna til frekari rannsókna á jarðlögum svæðisins.

  • Í Botnabrún og Þófa eru nú þegar borholur til mælingar á grunnvatni. Þær voru þáttur í undirbúningi vegna frumathugunar á vörnum á svæðinu. Í fimm þeirra eru nú síritandi þrýstingsmælar og fest hafa verið kaup á síritandi mælum fyrir fimm holur til viðbótar.
  • Kannaður verður möguleiki á því að setja upp togmæla yfir einhverjar af þeim sprungum sem nú eru á svæðinu. Þeir eru síritandi og mæla gliðnun og hafa reynst vel á Svínafellsheiði, þar sem fylgst er með gliðnun á sprungum í bergi. Í þessu tilfelli er um að ræða sprungur í jarðvegi og setlögum og því þarf að kanna hvort að þessi tækni hentar við þær aðstæður. Mögulega verða þá staurar reknir niður djúpt í jörðu og togmælar settir upp á milli þeirra.
  • Líklega þarf einnig að rannsaka jarðlög svæðisins betur með því að bora holur sem ná alla leið í gegnum setlögin niður á berg.  Í holurnar er hægt að setja mælikapla sem mæla aflögun og geta verið með síritandi búnaði. Þetta er talið mikilvægt til þess að greina betur jarðlög á svæðinu og átta sig á því á hvaða dýpi hreyfing á sér stað. Vöktun með mælingum í borholum hefur þann kost að hún er óháð veðri og snjóalögum.

Veðurstofan leggur til að búnaður sem nýtist til að kortleggja óstöðugar hlíðar á Íslandi verði prófaður á Seyðisfirði

Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa bent á mikilvægi þess að greina og kortleggja óstöðugar hlíðar hér á landi með skipulögðum hætti og hófst það verkefni á árinu 2020. Taka þarf með í reikninginn hversu mikil hætta fólki kann að stafa af framhlaupi á viðkomandi stöðum. Þar sem óstöðugar hlíðar geta ógnað byggð, samgönguleiðum eða fjölmennum ferðamannastöðum þarf að setja upp viðeigandi vöktun. Eitt af því sem hægt er að nota til þess að greina og kortleggja óstöðugar hlíðar eru bylgjuvíxlmælingar (InSAR-mælingar). Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa lagt til að slíkur búnaður yrði prófaður í vetur á Seyðisfirði. Mælingar með InSAR radar eru óháðar skyggni og skila niðurstöðum á hreyfingu fyrir heil svæði. Með slíkum mælingum er hægt að sjá aflögun lands með millimetra nákvæmni.

InSAR tæknina er bæði hægt að nota með búnaði sem komið er fyrir á jörðu niðri, líkt og gert yrði á Seyðisfirði, sem og með notkun gervitungla. Í Noregi er lokið stóru verkefni þar sem sett hefur verið upp regluleg úrvinnsla bylgjuvíxlmælinga úr gervitunglum fyrir allt landið. Slíkar mælingar gagnast ekki aðeins til þess að greina óstöðugar hlíðar, heldur er einnig hægt að sjá t.d. landhæðarbreytingar við ströndina og í borgum. Bylgjuvíxlmælingar hafa verið notaðar hér á landi til þess að fylgjast með jarðskorpuhreyfingum, m.a. af völdum landreks, rýrnunar jökla og í tengslum við eldgos. Í þeim rannsóknum hafa komið fram hreyfingar sem tengjast framhlaupum og aðdraganda þeirra.


Bylgjuvíxlmælingar sýna að fjallshlíðin á Osmundsnesi við Hyefjörð í Sogn- og Firðafylki í Vestur-Noregi er að hreyfast á um 1 km löngum kafla skammt undir fjallsbrúninni þar sem hlíðin er sprungin af völdum hreyfingarinnar. Svæði þar sem hreyfing er lítil sem engin eru litið blá en gulur og rauður litur auðkennir svæði sem hreyfast um u.þ.b. 0,5 cm á ári.

Unnið að frumathugun á því hvaða varnavirki henta best

Veðurstofan kynnti nýtt ofanflóðahættumat fyrir Seyðisfjarðarbæ í ágúst 2019 en þar kom fram að nýja matið kallaði meðal annars á varnaraðgerðir fyrir íbúðabyggðina í suðurbænum vegna hættu á stórum skriðum úr Neðri-Botnum. Í sumar hófu starfsmenn verkfræðistofunnar Eflu í samráði við svissneska sérfræðinga að meta hvaða kostir komi helst til greina og hefur þeirri vinnu nú verið flýtt. Næsta vor er miðað við að fyrir liggir fyrstu upplýsingar úr frumathugun á því hverskonar varnarmannvirki henta best.

Upptök stóru skriðunnar þann 18. desember 2020 unnin með landlíkani og ljósmyndum sem teknar voru úr flygildi sérsveitar ríkislögreglustjóra þann 26. desember. Rúmmál geilarinnar sem myndaðist í brúnina þar sem skriðan fór af stað er um 65 þúsund m³ samkvæmt mælingum á landhæðarbreytingum með flygildi. Það magn samsvarar um 5000 vörubílsförmum og er þetta stærsta skriða sem fallið hefur á þéttbýli á Íslandi.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica