Fréttir
Gónhóll sést hér nokkurn vegin fyrir miðri mynd af eldstöðvunum frá því í gær tekin af vefmyndavél Almannavarna.

Nýjar sprungur á Gónhóli við eldstöðvarnar

Fylgst náið með svæðinu

10.8.2021

Nýjar sprungur sjást nú í Gónhóli nálægt eldstöðvunum við Fagradalsfjall og virðast þær hafa myndast á síðastliðnum tveimur vikum. Svæðið var fjölfarinn útsýnisstaður við eldstöðvarnar en er núna umlukinn hrauni og einungis aðgengilegur á þyrlum. Sprungurnar eru líklega togsprungur og raða sér nyrst í Gónhóli í stefnu kvikugangsins, suðaustur af megin gígnum. Nokkrar kenningar hafa verið nefndar um hvað veldur sprungunum, til að mynda litlir (>M2) jarðskjálftar, sig í kjölfar minnkandi kvikuþrýstings eða hraunfargið sem umlykur hólinn.


Sprungurnar eru merktar með rauðu inn á kortið. Megin gígurinn sést efst í vinstra horninu. Loftmyndin og landlíkanið er unnið út frá myndum frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Einnig byggt á flygildismyndum frá eldfjallafræði- og náttúruvárhópi Háskóla Íslands.

Ekki er hægt að útiloka að sprungumyndanirnar séu til marks um að kvika sé að færast nær yfirborði við Gónhól. Ef kvika kemst nærri yfirborði má gera ráð fyrir að sprungurnar gliðni enn frekar og að gas og gufur sjáist stíga upp úr þeim. Við slík skilyrði er ekki ráðlegt að vera á Gónhóli. Veðurstofan beinir því þeim tilmælum til þyrluflugmanna sem lenda á Gónhóli að gæta varúðar.

Ef til þess kemur að nýjar gossprungur opnist á Gónhóli þá hefur það ekki afgerandi áhrif á áður útgefnar sviðsmyndir um framvindu eldgossins. Líkt og undanfarna mánuði fylgist Veðurstofan stöðugt með þróun mála við eldstöðvarnar.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica