Fréttir
Eldstöðvarnar rúmum mánuði eftir upphaf gossins. Horft til norðurs yfir gosstöðvarnar úr vél Icelandair í aðflugi til Keflavíkur frá Amsterdam síðdegis 27. apríl. (Ljósmynd: Ágúst J. Magnússon)

Veruleg aukning í hraunrennsli

12.5.2021

Spá veðurvaktar um gasdreifingu

Sjálfvirk spá fyrir Fagradalsfjall og veðurathuganir

Sjá einnig færslur á Facebook og Twitter síðum Veðurstofunnar

Uppfært 12.05.

Jarðvísindastofnun Háskóla Ísland hefur birt nýjustu gögn um stærðir hrauns og hraunrennsli eldgossins í Fagradalsfjalli.

Niðurstöðurnar nú eru nokkur tíðindi, segir í samantektinni.  „Veruleg aukning hefur orðið í hraunrennsli í Fagradalsfjalli síðustu vikuna.  Meðalrennslið yfir tímabilið mælist 13 m3/s sem er miklu meira en þeir tæplega 8 m3/s sem áður hafa mælst. Aukið flæði hefur haldist í hendur við hækkandi kvikustróka og öfluga framrás hraunsins í Meradölum.  Gosið er nú tvöfalt öflugra en það hefur verið lengst af.   Merki um aukningu hafa þó verið undanfarnar tvær vikur en mælingin nú tekur af öll tvímæli“, segir í tilkynningu á vef Jarðvísindastofnunar.

Rúmmál hraunsins er nú orðið rúmlega 30 millj. rúmmetrar og flatarmál þess tæplega 1,8 ferkílómetrar.

Einnig er að finna á vef Jarðvísindastofnunar áhugaverð samantekt á þróun gossins á þeim rúmlega 50 dögum sem liðnir eru frá upphafi þess.


Samantekt af vef Jarðvísindastofnunar


Á sama tíma og hraunrennsli hefur aukist, hefur gaslosun einnig aukist og gosefni að berast hærra upp í andrúmsloftið og lengra en áður. Á þessari mynd úr Sentinel 5P gervitunglinu frá laugardeginum 8. maí, sést vel hversu langt gasmengun getur borist út fyrir landsteinana. Á myndinni hefur tunglið mælt SO2 í andrúmsloftinu í um 450 kílómetra fjarlægð suður af gosstöðvunum við Fagradalsfjall. (Gögn frá Copernicus/Sentinel 5P)

Uppfært 11.05.

Virkni eldgossins í Geldingadölum hefur verið kaflaskipt síðustu daga. Um helgina mátti sjá á um 10 mínútna fresti háa stróka frá gíg 5, en talað er um kvikustrók þegar sprenging verður þegar gas sleppur úr kvikunni. Kvikustrókarnir hafa náð allt að 500m hæð upp fyrir sjávarmál og hafa gróðureldar kveiknað í um nokkur hundruð metra fjarlægð frá gígunum vegna gjóskufalls.


Inn á milli komu tímabil þar sem kvikustrókavirknin hjaðnaði tímabundið og þá mældist óróinn samfelldur. Á meðan að kvikustrókavirknin hjaðnaði hélt hraunflæði úr gígunum þó áfram sem fóðraði dalina umhverfis gosið. Myndin sýnir órróa dagana 8.-9. maí.

„Líklegasta skýringin á þessu er breytingar rétt undir gígunum þar sem kvikan safnast saman. Það svæði er að taka breytingum. Eftir því sem það svæði stækkar eða minnkar þá getur gasið náð að safnast í bólur og valda kvikustrókavirkni“, sagði Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni í samtali við RÚV.

Framleiðslan á hrauninu sé jöfn og engin merki séu um að gosinu fari að ljúka. Kvikan komi upp af 15-20 kílómetra dýpi og renni upp í beinni rás upp en á um 100 metra dýpi hafi nú orðið til kvikusöfnunarstaður í einhvers konar hólfi.


Tilkomumikill strókur frá því á sunnudag. (Mynd: Almannavarnir/Vefmyndavél)

Uppfært 07.05. kl. 11:45

Vísindaráð almannavarna hittist á fundi í gær til að fara yfir framgang gossins, dreifingu hrauns, framleiðslu gosefna og þá mengun sem fylgir eldgosinu.

Skjálftavirkni á Reykjanesskaga er lítil og þeir skjálftar sem mælast á því svæði þar sem gangurinn myndaðist í aðdraganda eldgossins í Geldingatölum eru metnir sem eftirskjálftar.  Engar markverðar landbreytingar hafa mælst á GPS tækjum og gervitunglamyndir sýna auk þess litlar breytingar.

Mælingar á hlutfalli gass sem streymir frá gosstöðvum sýna að lítil breyting er á því. Gosmengun er mest við gosstöðvarnar og dvínar hratt með aukinni fjarlægð frá þeim.

Niðurstöður mælingar á þungmálmum sem koma upp með hrauninu voru kynntar. Ekki er talið uppsöfnun þeirra valdi skaðavaldandi mengun að svo stöddu, en mikilvægt er að vakta mengunina við gosstað ef gosvirkni heldur áfram næstu mánuði.

Breyting í virkni gossins

Á sunnudag varð breyting á yfirborðsvirkni eldgossins. Stöðug kvikustrókavirkni hætti og lotubundin kvikustrókavirkni tók við, en talað er um kvikustrók þegar sprenging verður þegar gas sleppur úr kvikunni.  Núverandi kvikustrókavirkni er með reglulegu bili og getur þeytt kviku nokkur hundruð metra upp fyrir gíg. Sú kvika verður að ösku og kleprum sem geta fallið til jarðar nokkur hundruð metrum frá gígnum.  Vegna þess var hættusvæði í kringum gosstöðvarnar stækkað.  Þessi breyting er ekki vísbending um að eldgosinu sé að ljúka.

Hvellsuða undir yfirborði gígsins

Mælingar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands sýna að hraunflæði er enn nokkuðstöðugt og framrás hrauns heldur áfram.  Líklegt er að lotubundna hegðunin tengist breytingum í lögun og rúmtaki efsta hluta gosrásarinnar. Aðstæður nú benda til þess að hvellsuða eigi sér stað frekar grunnt undir yfirborði gígsins, en við það verður aðskilnaður á kvikugösum og kvikunni sjálfri og rúmtak hennar eykst með þeim afleiðingum að kvikustrókar myndast. Á sama tíma er uppstreymi kviku nokkuð stöðugt úr neðri hluta jarðskorpunnar. Mest af hraunrennslinu á sér stað í hraunrásum undir gígbarminum og hafa sprengingarnar ekki áhrif á það.


Smelltu á myndina til að sjá hana stærri. Sjá einnig á vefsíðu Jarðvísindastofnunar.


Uppfært 02.05. kl. 15:40

Töluverðar breytingar urðu á gosvirkni í nótt. Kvikustrókavirkni sem hafði verið nokkuð stöðug undanfarna daga tók að sveiflast með þeim hætti að hún dettur niður í um 3 mínútur og eykst svo með miklum krafti með hærri strókum en áður hafa sést og stendur yfir í um 10 mínútur. Þessir taktföstu púlsar hafa einkennt gosið frá því klukkan 1 í nótt.

Vindátt var norðlæg í nótt en snérist í hæga austlæga um klukkan 6 í morgun. Nokkrum klukkustundum síðar verður vart við reyk í suðvesturhlíðum Geldingadals. Hugsanlega hefur heit gjóska úr gosstróknum borist með vindi suðvestur fyrir hraunbreiðuna um 300 metra leið og kveikt í og veldur nú sinubruna sem sést á vefmyndavél RÚV.

Ekki er ljóst hvað veldur þessum breytingum í gosvirkni, en ekki er hægt að útiloka að breytingar hafi orðið í kvikuflæði, efnasamsetningu kviku/gass eða að breytingar hafi orðið í aðfærslukerfinu.

Í ljósi þessarar breyttu virkni er verið að endurmeta stærð hættusvæðis við gosstöðvarnar.

Screenshot-from-2021-05-02-10-47-05

Hér má sjá óróagraf frá jarðskjálftamælum í grennd við gosstöðvarnar sem sýnir púlsa í gosvirkni frá miðnætti.

 


Uppfært 27.04. kl. 10:30

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur birt nýjustu gögn um stærðirhrauns og hraunrennsli sem eru byggðar á flugi sem farið var í gær. Þá voru teknar loftmyndir og unnin eftir þeim landlíkön af hrauninu í og umhverfis Geldingadali.

Heildarrennsli frá öllum gígum síðustu 5 daga hefur að meðaltali verið rúmir 6 m3/s. Þessi tala er svipuð langtímameðaltalinu, en þá 38 daga sem gosið hefur staðið reiknast það 5,6 m3/s.

Rúmmál gosefna er nú orðið 18,4 milljón rúmmetrar og flatarmál hraunsins 1,13 km2 ferkílómetrar. Meðalþykktin er rúmir 16 metrar.

Hraunrennsli_27042021

Sjá einnig færslu á vefsíðu Jarðvísindastofnunar.

Uppfært 21.04. kl. 16:50

Vísindaráð almannavarna hittist á fjarfundi í dag til að ræða stöðuna á eldgosinu við Fagradalsfjall. Nýjustu mælingar og gögn gefa til kynna að gangur gossins helst stöðugur.

Skjálftavirkni í kvikuganginum milli Fagradalsfjalls og Keilis hefur minnkað frá því sem var í síðustu viku. Í gærkvöld varð skjálfti af stærðinni 4.1 um 3 km NA af Þorbirni, undir Sundhnjúkagígum. Þetta er stærsti skjálfti sem mælst hefur á Reykjanesskaga síðan 15. mars eða frá því áður en gos hófst. Þessi skjálfti tengist spennuhreyfingum í jarðskorpunni vegna eldgossins og myndi flokkast sem svokallaður gikkskjálfti.

Frá því að gosið hófst fyrir rúmum þrjátíu dögum hefur komið upp fremur þunnfljótandi kvika með lítilli sprengivirkni og tiltölulega stöðugu hraunrennsli.  Þó hefur gosið verið síbreytilegt.  Þessi breytileiki hefur lýst sér í að ný gosop hafa orðið til og að virkni hefur verið mismikil í gígum. Verið er að gera nýjar hraunflæðismælingar í dag, mælingar sem gefnar voru út í byrjun vikunnar sýna að í samanburði við flest önnur gos er rennslið tiltölulega stöðugt. Því er ekkert er hægt að fullyrða út frá þessum mælingum um það hversu lengi gosið mun standa.

Unnið að frekari þróun á gasdreifingarlíkani

Fram kom á fundinum að Veðurstofan og Umhverfisstofnun hafa unnið að því að efla vöktun og upplýsingagjöf vegna gasmengunar í byggð og eins við gosstöðvarnar. Veðurstofan mun taka að sér að vakta gildi mengunar í byggð allan sólarhringinn og gera almannavörnum viðvart ef gildin fara yfir heilsufarsmörk.

Veðurstofan hefur einnig í samvinnu við sérfræðinga hjá Umhverfisstofnun verið rýna í gögn til að meta hversu áreiðanleg spálíkön eru varðandi gasmengun í byggð. "Það hefur komið hefur í ljós að gasdreifingarlíkanið er að "ofspá" eins og við köllum það. Magn af SO2 sem líkanið spáir að nái niður á yfirborð jarðar er meira en mælist síðan í raun", segir Elín Björk Jónasdóttir, hópstjóri veðurþjónustu á Veðurstofu Íslands. "Þetta kallar á frekari þróun á spálíkaninu okkar og má segja að þetta eldgos er að gefa okkur verðmætar upplýsingar um hvernig gasmengun hagar sér í andrúmsloftinu. Þær vonandi nýtast okkur til þess að bæta þjónustu Veðurstofunnar þegar kemur að spá fyrir um gasmengun", segir Elín.


Uppfært 21.04. kl. 8:30

Klukkan 23:05 varð skjálfti af stærðinni 4.1 um 3km NA af Þorbirni. Tilkynningar hafa borist Veðurstofunni að hann hafi fundist víða á Suðvestur- ,Suður- og Vesturlandi eða allt austur á Hellu og norður í Grundarfjörð. Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið.

Þetta er stærsti skjálfti sem mælst hefur á Reykjanesskaga síðan 15. mars eða frá því áður en gos hófst.Líklegast er að skjálftinn tengist spennuhreyfingum í jarðskorpunni vegna eldgossins


Uppfært 20.04. kl. 15:15

Þegar um þrjátíu dagar eru liðnir frá því að eldgos hófst við Fagradalsfjall er eðlilegt að spyrja sig hvort hægt sé að segja til um hversu lengi eldgosið muni standa. Nýjar sprunguopnanir hafa myndast nokkrum sinnum frá því að gos hófst og nú hefur til að mynda engin kvika komið upp úr nyrsta gígnum á gosstöðvunum síðustu tvo sólarhringa eða svo.

„Það er ekki augljóst hvað það táknar varðandi framgang gossins“, segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofunni. „Frá því að gosið hófst fyrir um þrjátíu dögum hefur það verið síbreytilegt. Nú er engin kvika að streyma upp úr fyrsta gígnum sem opnaðist utan Geldingadala, það til dæmis endurspeglar þennan síbreytileika og ekki víst að gígurinn sé alveg sofnaður“, segir Sara. „Því er ekkert hægt að fullyrða um að það séu fyrstu merki þess að gosið sé að dvína. Þvert á móti þá sýnir nýjasta samantekt samstarfsfélaga okkar í Háskólanum að hraunflæði hefur ekki minnkað og hefur jafnvel aukist síðustu daga“, segir Sara að lokum.

Nordur_Gigur_

Loftmynd af nyrsta gígnum við gosstöðvarnar tekin sunnudaginn 18. apríl. Af myndinni að dæmi virðist engin virkni vera í gígnum. (Ljósmynd: Náttúrufræðistofnun Íslands).

Hægt að áætla mátt gossins út frá upplýsingum frá gervihnöttum

Til að meta mátt gossins er einnig hægt að notast við upplýsingar úr gervitunglum sem greina hitageislun á yfirborði jarðar. Slíkar mælingar má til dæmis sjá á vefsíðu MIROVAverkefnisins (Middle InfraRed Observation of Volcanic Activity) sem greinir og birtir nánast í rauntíma upplýsingar um frávik í hitageislun á yfirborði jarðar

ThermalAnomaly_Krisuvik_20042021

Yfirlit af vefsíðu MIROVA sem sýnir hitafrávik yfir gosstöðvunum. (Mynd: MIROVA)

30days

Skemmtileg samantekt sem sýnir hvernig hraunbreiðan frá gosstöðvunum hefur þróast. Útlínur hraunbreiðunnar eru byggðar á mælingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands og úrvinnslu frá Landmælingum Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.Uppfært 19.04. kl. 12:10

Í dag eru um 30 dagar frá því að eldgos hófst við Fagradalsfjall. Í samantekt frá Jarðvísindastofnun Háskólans segir að meðalhraunrennslið fyrstu 30 dagana er 5,6 m3/s. Í samanburði við flest önnur gos er rennslið tiltölulega stöðugt. Mælingarnar á hrauninu sýna nú að nokkur aukning hefur orðið síðustu 1-2 vikur. Meðalrennslið fyrstu 17 dagana var 4,5-5 m3/s, en síðustu 13 daga er það nálægt 7 m3/s.

Samanburður við önnur gos sýnir að þrátt fyrir aukninguna er rennslið nú aðeins um helmingur þess sem kom að meðaltali upp fyrstu 10 dagana á Fimmvörðuhálsi vorið 2010, sem var þó lítið gos. Samanburður við Holuhraun sýnir að rennslið nú er 6-7% af meðalhraunrennsli þá sex mánuði sem það gos stóð. Rennslið er svipað og var lengst af í Surtsey eftir að hraungos hófst þar í apríl 1964 til gosloka í júní 1967.

Afl gossins hefur aukist samhliða opnun fleiri gíga

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit sem Jarðvísindastofnun Háskólans gaf út í morgun á mælingum á hraunflæði gossins. Niðurstöðurnar eru að heildarrennsli frá öllum gígum á sex daga tímabili, 12.-18. apríl hafi að meðalatali verið tæpir 8 m3/s. Þetta er nokkur aukning frá meðalrennslinu í gosinu og staðfesting á því að samhliða opnun fleiri gíga í síðustu viku hefur afl gossins aukist nokkuð, Flatarmál hrauns er orðið 0,9 km2 og heildarrúmmál er nú rúmlega 14 milljónir rúmmetrar.

Hraunflaedi_19042021

Gröfin hér að ofan sýna meðal annars þróun á flatarmáli og rúmmáli hrauns og hraunflæði. Sjá má að þróun á flatarmáli hraunsins er ekki jafn „línuleg“ og þróun rúmmálsins, en það er vegna þess að til að byrja með óx hraunbreiðan á þykktina innan Geldingadala frekar en að dreifa úr sér. Vinna við úrvinnslu gagna varðandi jarðefnafræði og gas stendur yfir og verða línuritin uppfærð um leið og henni er lokið

Þrívíddarlíkan af gosstöðvunum

Hjá Náttúrufræðistofnun Íslands er starfrækt loftljósmyndastofa þar sem unnið er að jarðfræðikortlagningu með myndmælingatækni, þar sem teknar eru ljósmyndir úr lofti og myndirnar notaðar við gerð þrívíddarlíkana. Þessi aðferð hefur nýst vel við kortlagningu á gossvæðinu í við Fagradalsfjall en með þrívíddarlíkönunum má áætla rúmmál og þykkt hraunsins, hraunrennsli og margt fleira. Hægt er að skoða þrívíddarlíkanið með því að smella á myndina hér að neðan.

Skjamynd-2021-04-19-114118

Uppfært 17.04. kl. 18:15

Upp úr klukkan þrjú í dag var staðfest að ný sprunguopnun hafi myndast við gosstöðvarnar. Um litla opnun er að ræða sem staðsett er inn á hraunbreiðu og þétt upp við annan gíg á svæðinu. Ekki er líklegt að þessi nýja opnun breyti miklu um framgang gossins.

Á fundi vísindaráðs fyrr í vikunni var talsvert rætt um möguleikan á að greina fyrirvara um nýjar sprunguopnanir. Um klukkan 13:20 í dag tóku náttúruvársérfræðingar á vakt Veðurstofunnar eftir lækkun í styrk á óróamælum næst gosstöðvunum. Staðfest hefur verið að styrkur í óróa hefur fallið í um klukkustund, eða lengur, áður en nýjar gossprungur opnast við Fagradalsfjall. Eftir að vakt Veðurstofunnar varð vör við lækkun í óróastyrk var tilkynning send á almannavarnir og björgunarsveitarmenn sendar á staðinn til þess að fylgjast vel með hvort breytingar yrði á gosvirkni eða nýjar sprungur væru að opnast. Stuttu síðar kom tilkynning frá vettvangi að ný opnun hafi myndast.

MicrosoftTeams-image--16-

Nýja opnunin sést hér fyrir miðri mynd og er staðsett þétt við gíg sem áður hafði myndast. (Ljósmynd: Almannavarnir)

Eins og rætt var á fundi vísindaráðs síðasta fimmtudag er fylgni milli þess að styrkur óróa falli og að nýtt gosop myndast. Hinsvegar eru einnig nokkur dæmi um að styrkur á óróamælum minnki án þess að ný gosop myndist. Eins er ekki hægt að greina mögulega staðsetningu á nýjum opnunum út frá óróamælingunum. Hér er hægt er að lesa stutta fróðleiksgrein um greiningu á styrk óróa og möguleg tengsl við myndun nýrra sprunguopnanna við Fagradalsfjall.

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar mun halda áfram að vakta svæðið og fylgjast sérstaklega vel með breytingum á óróa sem gefur vísbendingar um að ný gosop gætu myndast við Fagradalsfjall.


Uppfært 15.04. kl. 16:30

Vísindaráð almannavarna hittist á fundi í dag. Á fundinum var farið yfir skjálftagögn og mælingar á aflögun, framgang gossins, dreifingu hrauns, framleiðslu gosefna og þá mengun sem fylgir eldgosinu.

Áfram er mesta skjálftavirkni á Reykjanesskaga norðarlega í kvikuganginum, við Litlahrút og að Keili.  Lítil aflögun mælist á þessu svæði bæði á GPS tækjum og í gervitunglagögnum.

Síðustu vikuna hafa opnast nýir gígar á sprungunni á milli Geldingadala og þess gígs sem opnaðist annan í páskum.  Þetta hefur haft áhrif á hvert hraun rennur og bunkast nú upp hraun í SA hluta Geldingadala og má búast við að það renni úr skarðinu sem þar er á næstunni.  Rætt var um hvort hægt væri að sjá fyrir þegar nýjar opnanir verða á sprungunni innan eldgosasvæðisins, en merkin eru afar lítil og erfitt að mæla þau með þeim hætti að hægt verði að vara fyrir með mikilli vissu og fyrirvara.

Hraunflæði hefur verið nokkuð stöðugt frá upphafi goss, þó hægt sé að greina litlar sveiflur inn á milli.  Ekkert bendir til þess að það sjái fyrir endan á gosinu.  Gosmengun er mest gosstöðvarnar og dvínar hratt með aukinni fjarlægð frá þeim.


Uppfært 15.04. kl.0:30

Frá því að ný gossop mynduðust á þriðjudaginn er hægt að tala um að kvika komi nú upp á 8 stöðum við Fagradalsfjall. Hraun hefur runnið frá nýjustu opnunum yfir nýja gönguslóðann – gönguleið A – það gerðist síðdegis í gær. Ekki eru komnar nýjar mælingar á heildar hraunrennsli frá gosstöðvunum en samkvæmt mælingum Jarðvísindastofnunar sem gerðar voru áður en nýju opin mynduðust hafði hraunrennsli haldist nokkuð jafnt síðustu fjóra sólarhringa, eða um tæpir fimm rúmmetrar á sekúndu að meðaltali. Vísindaráð almannavarna mun funda í dag til að fara yfir nýjustu gögn og mælingar.

Lokað er við gosstöðvarnar í dag. Talsverð mengun var við gosstöðvarnar í gær og allnokkur verkefni hjá viðbragðsaðilum þeim tengdum. Við minnum á að hægt hér er að nálgast nýjustu gasmengunarspána og hægt er að fylgjast með loftgæðum á vefsíðu Umhverfisstofnunar, loftgaedi.is


Myndir teknar með um tveggja klukkustunda millibili. Á seinni myndinni er hraunbreiðan komin yfir nýja gönguslóðan. Ef miðað er við slóðann fyrir miðri mynd sést framrás hraunjaðarins vel. (Ljósmyndir: Almannavarnir/Björn Oddsson).


Ljósmynd tekin síðdegis á þriðjudaginn eftir að nýjustu opin mynduðust. Þarna má telja átta stróka. (Ljósmyndi: Almannavarnir/Björn Oddsson).


Uppfært 10.04. kl. 9:15

Um eða upp úr klukkan þrjú í nótt varð sólarhringsvakt Veðurstofunnar þess vör að líklega hefði enn önnur opnunin myndast við gosstöðvarnar. Við birtingu varð það ljóst á vefmyndavélum að fjórða opnunin er miðja vegu milli þeirra sem opnuðust á hádegi þann 5. apríl og á miðnætti aðfaranótt 7. apríl.

Við sjónrænt mat af vefmyndavélum virðist megin hrauntaumurinn sameinast því hraunflæði er rennur í Geldingadali úr norðri.

Við bendum á nýjustu gasmengunarspána og veðurspá fyrirgosstöðvarnar .

Eins bendum við á nýtt kort af gosstöðvunum sem er í færslunni hér að neðan, þar sem hættusvæði við Fagradalsfjall er skýrt afmarkað.

Screenshot-from-2021-04-10-05-49-39

Skjáskot af vefmyndavél á MBL tekin í birtingu í morgun.

Uppfært 09.04. kl. 20.30

Vísindaráð almannavarna hittist á fundi til að ræða framgang gossins við Fagradalsfjall. Á fundinum var farið yfir skjálftagögn og mælingar, dreifingu hrauns, framleiðslu gosefna og mengun sem fylgir eldgosinu. 

Á fundinum voru einnig ræddar þær hættur sem snúa að fólki sem sækir gosstöðvarnar heim og hvaða svæði væru hættulegust með tilliti til hraunflæðis, gasmengunar og mögulegrar opnunar á nýjum sprungum.

Nýjar sprungur geta opnast án fyrirvara

Á fundinum var farið yfir GPS mælingar og gervitunglamyndir til að meta breytingar sem hafa orðið á svæðinu eftir að nýjar sprungur opnuðust. Merki um breytingar komu fram við nýjar gossprungur sem opnuðust annan í páskum og aðfaranótt þriðjudags.  Breytingarnar eru hinsvegar mjög litlar og fyrirboðar áður en sprungurnar opnast ekki greinanlegir.  Vísbendingar eru um að á svæðinu frá sunnanverðum Geldingadölum og norðaustur fyrir gossprungurnar liggi kvika grunnt og ekki hægt að útiloka að fleiri gossprungur geti opnast á næstu dögum eða vikum. Opnun nýrrar gossprungu án sjáanlegra fyrirvara gæti valdið bráðri hættu fyrir fólk.  Svæðið sem þessi hætta nær til er talið vera þar sem kvikan náði næst yfirborði eða frá suðvestur hluta Geldingadala og í norðaustur að Litla-Hrúti.

MicrosoftTeams-image--8-

Kortið afmarkar það svæði þar sem fólk getur verið í bráðri hættu vegna skyndilegra atburða sem geta orðið á gosstöðvum. Innan hættusvæðisins er allra mesta hættan á opnun fleiri gossprungna án fyrirvara og því getur fylgt skyndilegt og hratt hraunflæði sem erfitt er að forðast. Utan þessa svæðis eru einnig aðrar hættur sem fylgja framrás hrauns og uppsöfnunar gass. Á kortinu má sjá drög að nýrri gönguleið austan við hættusvæðið.

Brattar og háar brúnir á hraunbreiðunum við gosstöðvarnar geta verið óstöðugar. Stór glóandi hraunstykki geta hrunið úr þeim án fyrirvara sem getur skapað mikla hættu. Eins getur kvika skotist út undan hraunbrúninni og sú kvika getur ferðast mjög hratt.

Mesta skjálftavirknin síðustu tvær vikur er norðarlega í kvikuganginum og nær að Keili. Rétt sunnan við Keili, við Litla-Hrút, mælast grunnir skjálftar og er fylgst vel með þeirri virkni. Grunnir skjálftar geta verið vísbending um að kvika sé að leita til yfirborðs. Ekki er því hægt að útiloka að kvika nái til yfirborðs norðar yfir í kvikuganginum sem nær að Keili. 

Líkur á því að með auknu hraunrennsli aukist gasmengun

Bráðabirgðamælingar benda til þess að hraunflæði hafi frekar aukist við opnun síðustu gossprungna, en nákvæmari mælinga er að vænta í dag. Hraun rennur frá öllum sprungunum þremur og fer það niður í Meradali og Geldingadali. 

Við opnun á fleiri sprungum og auknu hraunflæði má leiða líkur að því að magn gass frá gosstöðvunum hafi aukist miðað við það sem var þegar einungis gaus í Geldingadölum. Mesta afgösunin kemur frá gígunum en mun minna frá hraunrennslinu sjálfu, en talað er um afgösun þegar gas sem veldur mengun losnar úr kvikunni út í andrúmsloftið. 

Mikil mengun mælist í kringum gosstöðvarnar, en utan hennar dvínar hún hratt.  Veðurstofan hefur sett upp tvo gasmæla, annan við gönguleið A og hinn í Meradölum til að fá skýrari mynd af gasmenguninni næst gosstöðvunum.


Uppfært 07.04. kl. 18.15

Á myndum sem voru teknar í könnunarflugi nú síðdegis má sjá að hraunbreiðurnar úr gosopunum þremur ná nú saman. Hraun frá þriðja gosstaðnum sem opnaðist á miðnætti hefur runnið bæði til suðurs niður í Geldingadali og í norðaustur í áttina að gosopinu ofan við Meradali. Samfeld hraunbreiða er því á milli gosstaðanna þriggja sem í raun tilheyra einni og sömu gossprungunni yfir kvikuganginum við Fagradalsfjall.

BO1_07042021

Samfelld hraunbreiða er nú á milli gosstaðanna þriggja við Fagradalsfjall. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)

Lava_078042021_2

Yfirlitskort sem sýnir staðsetningu gosstaðanna þriggja með rauðu og hraunflæði úr þeim eins og staðan er síðdegis í dag. Ekki er búið að kortleggja hraunflæðið úr nýjasta gosopinu sem opnaðist á miðnætti nákvæmlega. Útlínur þess hrauns eru innan skástrikaða svæðisins og unnið út frá ljósmyndum.


Uppfært 07.04. kl. 8:45

Hraunflæðið úr nýjustu gosrásinni virðist að mestu renna niður í Geldingadali. Þessi þriðja gosrás opnaðist á miðnætti og er á milli gosstaðanna tveggja sem fyrir voru. Björgunarsveitir höfðu séð jarðsig á svæðinu í gær um 420 metrum norðaustan við upptakasvæðið í Geldingadölum sem var um 150m að lengd og um 1 metri að dýpt. Það er þar sem nýjasta gosrásin er staðsett.

Uppfært 06.04. kl. 17:50

Hraun heldur áfram að renna úr nýju sprungunum til austurs og niður í Meradali og er hraunflæði talið vera um 7 rúmmetrar/sekúndu. Til samanburðar er hraunflæði úr gígunum í Geldingadölum talið vera um. 5,5 rúmmetra/sekúndu.

New_sprungur_05042021_3--005-

Nýju gossprungurnar sem mynduðust í gær, um kl 12 á hádegi, eru um 700 m norðaustan við gosstöðvarnar, á Fagradalsfjallsheiðinni norðan við Geldingadali. Sprungurnar eru í heild um 200 m langar og eru í sömu stefnu og sprungur á fyrri gosstöðvum. Rauða línan táknar sprunguna sem opnaðist 19. mars.

BO1

Hraunið frá nýju sprungunum er þunnfljótandi og rennur í langri og mjórri hrauná austur í Meradali og er hraunbreiða þegar farin að myndast þar eins og þessi mynd sýnir sem tekin var um klukkan 15 í dag. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)


Uppfært 05.04. kl. 14:50

Myndir frá nýjum gossprungum í nágrenni gosstöðvanna í Geldingadölum sýna að um er að ræða tvær gossprungur og er miðja þeirra staðsettar um 700 metra norðaustan við eldgígana í Geldingadölum. Sprungurnar eru samtals um 100 – 200 metra langar. Hraunið frá sprungunum er þunnfljótandi og rennur í langri og mjórri hrauná austur í Meradali og er hraunbreiða þegar farin að myndast þar.

Ný gossprunga

Yfirlitsmynd sem sýnir nýjar gossprungur ausutur af eldgígunum í Geldingadölum, hrauná sem rennur úr nýju sprungunum og hraun sem er að myndast í Meradölum (til hægri á myndinni.


MicrosoftTeams-image--2-

Hraunið er þunnfljótandi og rennur eftir gili í Meradali.


Ný gossprunga

MicrosoftTeams-image--7-

Ljósmyndirnar tók Björn Oddsson hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.


Uppfært 05.04. kl. 13.20

Ný gossprunga opnaðst um klukkan 12 í dag í grennd við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Fyrsta mat er að sprungan sé sennilega um 200 metra löng og er miðja hennar staðsett um kílómetra norðaustur af gosstöðvunum í Geldingadölum. Hraunið frá nýju sprungunni rennur niður í Meradali.

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar eru nú við gosstöðvarnar til að rýma svæðið. Flugvél með vísindamönnum er á leiðinni og munu þeir meta nánar staðsetningu og stærð nýju gossprungunnar.

Flugkóði fyrir Keflavíkurflugvöll er áfram appelsínugulur þar sem um er að ræða hraungos með lítilli sem engri öskudreifingu og er því ekki talin hætta af gosinu fyrir flugumferð.

Nýja gossprungan er vel sýnileg í gegn um vefmyndavél RÚV sem fylgjast má með á RÚV 2

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica