Fréttir
Myndin er af GPS mælastöð Jarðvísindastofnunar HÍ, sem nú skilar gögnum í rauntíma til Veðurstofunnar.

Ný gögn sýna áframhaldandi landris á svæðinu við Þorbjörn

Nýjar gasmælingar gefa engar vísbendingar um að kvika sé komin nálægt yfirborði

29.1.2020

Með auknu eftirliti berast nú fleiri gögn í hús sem gefa skýrari mynd af þróun mála við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga. Ný gögn sýna áframhaldandi landris á svæðinu vestan við Þorbjörn. Erfitt er að túlka breytingar út frá einstaka mælipunktum, en með því að skoða meðaltal þéttari mælinga, sem nú berast í hús, er greinilegt að landrisið er enn í gangi. Þar sem um er að ræða langtíma atburð þarf að fylgjast vel með svæðinu og mælingunum þar til lengri tíma, til að átta sig betur á heildarferli jarðhræringanna.

Sérfræðingar Veðurstofunnar í samvinnu við starfsmenn HS-orku hafa í dag unnið að gasmælingum á svæðinu umhverfis Þorbjörn. Þær mælingar gefa engar vísbendingar um að kvika sé komin nálægt yfirborði. Það styðja einnig vatnssýni sem HS-orka tók, en slíkt er gert þrisvar í viku.

Dregið hefur úr skjálftavirkninni frá því í morgun þegar tveir skjálftar fundust í Grindavík; kl. 04:31 þegar skjálfti af stærð M3,5 mældist og aftur kl. 04:59, þegar skjálfti M3,2 mældist. Búast má við áframhaldandi skjálftavirkni á svæðinu og að áfram finnist stærstu skjálftarnir í grennd við Grindavík. Líklegasta skýring á þessarar virkni er kvikuinnskot á 3-5 km dýpi rétt vestan við Þorbjörn. Algengast er að slíkri virkni ljúki án eldsumbrota.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica