Fréttir
runoff
Aukning afrennslis frá jöklum.
1 2
næsta

Loftslagsbreytingar og endurnýjanlegar orkulindir

9.7.2007

Loftslagsbreytingar munu í framtíðinni hafa veruleg áhrif á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda á Norðurlöndum samkvæmt nýútkominni lokaskýrslu samnorræna rannsóknarverkefnisins „Loftslag og orka" (Climate and Energy, CE).

Myndir 1 og 2 hér til hliðar eru úr CE verkefninu og bregða ljósi á helstu þætti loftslagsbreytinganna. Athugið að smella þarf á myndirnar til þess að fá þær stærri og með ítarlegum texta.

Lokaskýrslan nefnist Áhrif loftslagsbreytinga á endurnýjarlegar orkulindir (Nord 2007:003, ISBN: 978-92-893-1465-7).

Á vefsíðu Norden, opinbers samstarfs Norðurlandanna, er unnt að panta skýrsluna beint frá útgefanda. Sjá einnig nánari upplýsingar um verkefnið, m.a. ýmsar skýrslur á PDF formi.

Í verkefninu, sem styrkt var af norræna orkurannsóknarsjóðnum, tóku þátt vatna- og veðurfræðistofnanir á Norðurlöndum, auk ýmissa fyrirtækja og stofnana. Verkefnið var unnið í nánu samráði við orkuvinnslufyrirtæki sem tóku jafnframt þátt í fjármögnun þess. Verkefnisstjórn var í höndum Vatnamælinga Orkustofnunar.

Unnar voru sviðsmyndir fyrir hugsanlegar loftslagsbreytingar til loka aldarinnar fyrir öll Norðurlöndin og sýnir 1. mynd hvernig talið er að hlýnun á Íslandi í framtíðinni muni dreifast á mánuði innan ársins.

Talið er að hlýnun á næstu 100 árum kunni að nema 2-4°C víða á Norðurlöndum og að úrkoma aukist heldur, einkum á svæðum sem liggja að Atlantshafi. Hlýnun verður meiri inn til meginlandsins, t.d. í Finnlandi, heldur en þar sem úthafsloftslag ríkir eins og hér á landi og í Vestur-Noregi.

Áhrif hlýnunarinnar eru mest á vatnsorku, sér í lagi fyrir virkjanir sem nýta afrennsli frá jöklum.

Talið er að jöklar á Norðurlöndum, að Grænlandi undanskildu, muni hopa hratt og hverfa að mestu á næstu 100-200 árum. Mun það hafa í för með sér verulega aukningu á rennsli til margra virkjana hér á landi og í Noregi á næstu áratugum ef að líkum lætur eins og fram kemur á 2. mynd. Breytingar í rennslisháttum kunna að hafa áhrif á rekstur miðlunarlóna og hönnunarforsendur stíflumannvirkja.

Í skýrslunni kemur einnig fram að hlýnandi veðurfar muni hafa áhrif á orkunotkun, fyrst og fremst á þann veg að minni þörf verður fyrir orku til upphitunar. Þessar breytingar hafa áhrif á forsendur sem lagðar eru til grundvallar ákvörðunum um byggingu og rekstur virkjana. Hingað til hafa menn byggt slíkar ákvarðanir á rannsóknum á veður- og vatnafari liðinna ára og áratuga. Í framtíðinni er nauðsynlegt að hafa í huga líklegar breytingar á veðurfari, meðal annars af mannavöldum.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica