Hitamet í apríl
Síðustu daga aprílmánaðar var óvenjuhlýtt á landinu og hitamet féllu víða. Landshitamet aprílmánaðar féll þ. 29. (sunnudag) þegar hiti komst í 23,0°C á sjálfvirku stöðinni í Ásbyrgi í Öxarfirði og í 21,9°C á mönnuðu stöðinni á Staðarhóli í Aðaldal. Hvoru tveggja er met í sínum flokki.
Áður hafði hiti á sjálfvirkri stöð orðið hæstur á Hallormsstað 21,4°C þ. 19. apríl 2003, en á mannaðri stöð 21,1°C á Sauðanesi við Þistilfjörð 18. apríl 2003.
Auk landsmetanna féllu mjög mörg met á einstökum stöðvum. Aprílhitamet féllu á 18 af 32 skeytastöðvum (56%). Mislengi hefur verið athugað á stöðvunum, en sérlega athyglisverð eru hitametin í Stykkishólmi, á Akureyri og á Grímsstöðum á Fjöllum, en á þessum stöðvum hefur verið athugað í meir en 100 ár.
Skeyti berast nú frá 144 sjálfvirkum veðurstöðvum og féllu aprílhitamet á 96 þeirra í mánuðinum eða 67%. Athuga ber þó að flestar stöðvarnar hafa aðeins athugað i fáein ár. Aprílhitamet féllu á 44 af 57 stöðvum Vegagerðarinnar (77%).
Miðað við árstíma voru einnig óvenjuleg hlýindi í háloftunum yfir landinu, m.a. komst hiti í 1500 metra hæð yfir Keflavík í 8°C sem er um 12 stigum hlýrra en að meðaltali á þessum árstíma. Í 5,5 km hæð komst hitinn í -20°C og er það 6 til 7 stigum hlýrra en að meðaltali um mánaðamótin apríl og maí. trj
Listi um ný met á skeytastöðvum:
Ný aprílhitamet | °C | Eldra met |
Stafholtsey | 17,2 | 2005 |
Stykkishólmur | 16,4 | 2005 |
Ásgarður | 19,2 | 2005 |
Hólar í Dýrafirði | 17,2 | 2005 |
Bolungarvík | 16,3 | 2005 |
Litla-Ávík | 14,6 | 2003 |
Reykir í Hrútafirði | 17,6 | 2005 |
Bergstaðir | 19,6 | 2003 |
Akureyri | 21,5 | 1976 |
Torfur | 20,8 | 2003 |
Mýri í Bárðardal | 17,3 | 2003 |
Staðarhóll | 21,9 | 2003 |
Grímsstaðir á Fjöllum | 19,8 | 2003 |
Dalatangi | 19,1 | 1972 |
Höfn í Hornafirði* | 17,0 | 1981 |
Hæll í Gnúpverjahreppi | 15,5 | 2003 |
Hjarðarland í Biskupstungum | 15,6 | 2003 |
*Ekki mælt 1986-2006
Eins og sjá má eru eldri met oftast nýleg, ýmist úr hitabylgjum í apríl árin 2003 og 2005.