Tíðarfar í janúar 2007
- stutt yfirlit
Janúar var sveiflumikill mánuður um allt land. Dagana 6.-20. janúar gerði mikið kuldakast um allt land. Lægsti hiti mánaðarins í Reykjavík mældist -10 stig, þann 20. janúar. Hámarkshiti í Reykjavík mældist 29. janúar, 8,5 stig.
Lægsti hiti á Akureyri mældist þann 16. janúar, -17 stig. Hæsti hitinn þar mældist 9,3 stig, einnig þann 29. Lægsti hiti á Höfn í Hornafirði mældist - 9.6 stig, 10. janúar. Þar mældist hæsti hitinn, 10,5 stig 24. dag mánaðarins.
Meðalhitinn í Reykjavík var 0,1 gráðu undir meðallagi, eða -0,6 stig. Á Akureyri var 0,7 gráðum hlýrra en í meðalári, -1,5 stig. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn -0,7 stig og á Hveravöllum mældist meðalhiti -6,4 stig.
Úrkoma var þó nokkur í janúar, sérstaklega á suðvesturhorninu. Úrkoman í Reykjavík mældist 60 mm, sem eru um 80% af úrkomu í meðalári. Snjódýpt mældist mest 27 cm 14. janúar. Það er mesti snjór í janúar í Reykjavík frá 1993. Meiri snjór var í höfuðborginni í desember 2001 og febrúar árið 2000.
Á Akureyri var úrkoman 43 mm, einnig um 80% af úrkomu meðalárs. Þar mældist snjódýptin mest 35 cm 21. janúar. Á Höfn í Hornafirði var mæld úrkoma 73 mm.
Sólskinsstundir voru 31 í Reykjavík, tæpum fjórum stundum yfir meðaltali. Á Akureyri voru sólskinsstundirnar tæpar tvær, sex stundum færri en í meðalári.