Fréttir
Norðurljós við Rauðavatn um miðjan apríl.

Tíðarfar í apríl 2016

Stutt yfirlit

2.5.2016

Tíðarfar var hagstætt að mestu, hiti var vel ofan meðallags 1961 til 1990, en þó var að tiltölu kaldara um landið austanvert heldur en í öðrum landshlutum. Úrkoma var mikil austast á landinu en þurrviðrasamt og sólríkt um landið vestanvert. Snjór var víðast hvar minni en í meðalári nema inn til landsins á Norðausturlandi.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 4,3 stig, +1,4 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,6 ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhiti á Akureyri var 2,8 stig, 1,2 stigum ofan meðaltals 1961 til 1990 og 0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 röð af vik 2006-2015
Reykjavík 4,3 1,4 31 146 0,6
Stykkishólmur 3,6 2,0 19 171 0,9
Bolungarvík 2,7 2,0 16 til 17 119 1,1
Grímsey 1,8 1,8 25 143 0,4
Akureyri 2,8 1,2 43 135 0,1
Egilsstaðir 1,7 0,5 41 62 -0,5
Dalatangi 2,1 0,6 29 78 -0,5
Teigarhorn 2,9 0,7 42 til 46 144 -0,2
Höfn í Hornaf. 4,2 1,4 0,1
Stórhöfði 4,3 0,9 31 til 32 140 0,4
Hveravellir  -1,6 1,8 12 51 0,8
Árnes 3,6 1,5 23 137 0,9

Meðalhiti og vik (°C) í apríl 2016

Að tiltölu var hlýjast á Vestfjörðum, jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest á Flateyri og á Þverfjalli, +1,3 stig. Kaldast að tiltölu var á Austurlandi. Þar og á stöku stað norðanlands var hiti lítillega undir meðallagi síðustu tíu ára, mest var neikvæða vikið á Seyðifirði, -0,9 stig, og -0,8 í Neskaupstað.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Önundarhorni undir Eyjafjöllum, +5,4 stig, en lægstur á Gagnheiði, -4,8 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum, -2,0 stig.

Mest frost í mánuðinum mældist -14,6 stig á Brúarjökli þann 26. Mest frost í byggð mældist í Svartárkoti þann 4., -13,9 stig. Mest frost á mannaðri veðurstöð mældist –12,0 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 4.

Hæsti hiti mánaðarins mældist í Skaftafelli þann 24., +15,7 stig. Hæsti hiti á mannaðri stöð, 13,0 stig, mældist þann 13. á Akureyri og þann 25. og 26. í Hjarðarlandi.

Úrkoma

Úrkoma var í rúmu meðallagi um landið norðaustan- og austanvert, en með minna móti vestan- og suðvestanlands og austan og aprílmánuður þar sá þurrasti um nokkurra ára skeið.

Úrkoman í Reykjavík mældist 30,4 mm og er það rétt rúmur helmingur meðalúrkomu 1961 til 1990 og mánuðurinn þurrasti apríl frá 2008. Á Akureyri mældist úrkoman 35,3 mm og er það um 20 prósent umfram meðallag. Í Stykkishólmi mældist úrkoman aðeins 11,8 mm, eða rétt rúmur fimmtungur meðalúrkomu, heldur þurrara var þó í apríl 2008. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 88,5 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 7 í Reykjavík, 5 færri i en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 6 og er það í meðallagi.


Vorkoma
""
Æðarbliki og kolla á Pollinum á Ísafirði hinn 28. apríl síðastliðinn. Ljósmynd: Guðrún Pálsdóttir.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 202,2, 62 stundum yfir meðallagi, þær voru lítillega fleiri í apríl 2008. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 154,2 og hafa ekki mælst fleiri í apríl síðan árið 2000, en hafa þó nokkrum sinnum síðan þá orðið litlu færri en nú.

Vindur

Meðalvindhraði var um 0,3 m/s undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og á sjálfvirku stöðvunum var hann 0,6 m/s undir meðallagi síðustu tíu ára, ámóta og 2012. Þetta eru viðbrigði frá apríl í fyrra. Norðlægar áttir voru lengst af ríkjandi.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1015,8 hPa, 5,3 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og hefur ekki verið hærri í apríl síðan 2008. Lægstur mældist þrýstingurinn í Grindavík þann 1., 979,7 hPa, en hæstur 1035,0 hPa á Reykjavíkurflugvelli þann 22.

Snjór

Snjóþungt var sums staðar inn til landsins á Norðausturlandi, en annars var snjóhula víðast minni en að meðallagi. Aðeins einn dagur var alhvítur í Reykjavík, 2 færri en í meðalári.  Alhvítir dagar voru 5 á Akureyri, 6 færri en í meðalaprílmánuði.

Fyrstu fjórir mánuðir ársins (janúar til apríl)

Meðalhiti í Reykjavík er +0,9 stigum ofan meðallags 1961 til 1990, en -0,3 undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi er meðalhitinnn +1,4 stigum ofan meðallags lengra tímabilsins, en -0,1 stigi undir meðallagi þess styttra. Á Akureyri er meðalhitinn +0,3 stigum ofan meðallags 1961 til 1990, en -1,2 undir meðallagi síðustu tíu ára. Fyrstu fjórir mánuðir ársins hafa ekki verið kaldari á Akureyri síðan 2002, en voru þó ámóta kaldir 2008 og nú.

Úrkoma fyrstu fjóra mánuði ársins er 16 prósentum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 í Reykjavík, en 10 prósentum yfir því á Akureyri.

Fjöldi alhvítra daga er í meðallagi þessa fjóra mánuði í Reykjavík, en á Akureyri eru þeir 9 fleiri en í meðalári. Meðalloftþrýstingur tímabilsins er nærri meðallagi.

Skjöl fyrir apríl

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í apríl 2016 (textaskjal)

Þessa grein, Tíðarfar í apríl 2016, er hægt að sækja eða lesa sem pdf

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum má sækja í sérstaka töflu






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica