Viðvörun vegna fárviðris
Vindur gæti náð fárviðri á Austfjörðum
Langt suður í hafi er 958 mb ört vaxandi lægð sem fer hratt til norðurs. Gert er ráð fyrir að loftþrýstingur verði um 934 mb þegar hún kemur upp að suðaustur-ströndinni fljótlega eftir miðnætti í kvöld og 933 mb við Melrakkasléttu um kl. 07 í fyrramálið. Heldur lægðin síðan áfram til norðurs og fer þá veður batnandi.
Stutt spá fyrir landið í kvöld og nótt
Suðaustan 8 - 15 m/s og slydda með köflum eða él en úrkomulítið NA-lands. Hiti um eða yfir frostmarki. Ört vaxandi austan- og norðaustanátt í kvöld, víða 18 - 23 upp úr miðnætti, en 23 - 28 og mikil rigning eða slydda á SA- og A-landi. Sunnan 25 - 33 austantil á landinu seint í nótt og fyrramálið, hvassast austast. Snýst í suðvestan 15 - 25 á morgun, hvassast norðantil. Rigning eða slydda og síðar él. Hiti yfirleitt 0 til 5 stig.
Viðvörun
Spáð er ofsaveðri eða fárviðri austantil á landinu í nótt og í fyrramálið, fyrst suðaustanlands.
Nánar um útlitið
Hvessir í kvöld, austan stormur eða rok (20 - 27 m/s). Suðlægari þegar líður á nóttina og gæti vindur náð fárviðri eða allt að 33 m/s á Austfjörðum. Talsvert hægari norðaustan og síðar norðanátt um landið vestanvert. Úrkoma verður í formi rigningar og á köflum talsverð rigning SA- og A-til. Rigning eða slydda á köflum annars staðar.
Í fyrramálið snýst suðvestan 18-25 með skúrum og síðar éljum en dregur síðan smám saman úr vindi og kólnar.
Samfara svona verðurhæð, lágum loftþrýstingi og stöðu sjávarfalla (flóð eftir miðnætti austantil á landinu) má búast við að sjávarstaða verði talsvert há og eru eigendur báta hvattir til að tryggja báta sína. Einnig er fólk hvatt til að festa lausamuni.
Ofsaveður eru 11 gömul vindstig (vindstigakvarði Beaufort) og er þá meðalvindhraði meiri en 28 m/s. Fárviðri eru 12 gömul vindstig og er þá meðalvindhraði meiri en 32 m/s; sjá Nöfn vindstiga og greining veðurhæðar.
Vakthafandi veðurfræðingar:
Elín Björk Jónasdóttir
Teitur Arason
Haraldur Eiríksson
Þorsteinn V. Jónsson