Starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu uppfært
Nú loks er starfsleyfið ótímabundið
Hinn 18. desember síðastliðinn veitti Samgöngustofa Veðurstofu Íslands ótímabundið starfsleyfi til flugleiðsöguþjónustu en fram að þessu hefur starfsleyfið verið endurnýjað til ákveðins tíma í senn. Nú horfir svo við, að einungis eru í gildi almenn skilyrði. Að þeim uppfylltum er starfsleyfið í rauninni ótímabundið og í skjalinu segir á þessa leið:
Starfsleyfið er í gildi svo lengi sem starfsleyfishafinn heldur áfram að uppfylla kröfurnar og samræmis er gætt við forsendur sem gefnar eru upp í fylgiskjali. Ef kröfur eða skilyrði sem fram koma í starfsleyfinu eru ekki lengur uppfylltar getur Samgöngustofa gripið til ráðstafana sem gætu haft í för með sér afturköllun starfsleyfisins. Ennfremur er tekið fram að breytingar í rekstri, sem geta haft áhrif á flugöryggi eða önnur skilyrði starfsleyfisins, verða að hljóta samþykki Samgöngustofu.
Vissulega mun Veðurstofan gæta þess að uppfylla ofangreind skilyrði og halda áfram því farsæla samstarfi sem verið hefur við Isavia og flugrekstraraðila hingað til.