Viðvörun vegna óveðurs
Nýjustu spár frá því í morgun gefa áfram til kynna að óveðurslægð að dýpt um 940 mb verði skammt suður af landinu síðdegis í dag. Miðju lægðarinnar er spáð austar en í gær og er nú búist við að hún verði 130 km suður af Kirkjubæjarklaustri kl. 18 í kvöld.
Þetta þýðir það að vindur verður norðaustlægari og það er líklegast að Vestmannaeyjar sleppi við ofsaveðrið. Hér fylgir uppfærður texti að teknu tilliti til þessarar áherslubreytingar.
Viðvörun
Búist er við stormi (meðalvindi yfir 20 m/s) á landinu síðdegis í dag og mestallan morgundaginn. Búist er við ofsaveðri (meðalvindi yfir 28 m/s) við Öræfajökul, Mýrdalsjökul og Eyjafjöll milli kl. 15 og 20 í dag.
Nánar um útlitið
Óveðurslægðin er nú í örum vexti suður í hafi á hraðri leið til norðurs og er miðju hennar spáð 130 km suður af Kirkjubæjarklaustri kl. 18, þá að dýpt 940 mb.
Eftir hádegi fer vindur hratt vaxandi syðst á landinu og á Suðausturlandi. Búast má við vindhviðum milli 40 og 50 m/s undir Eyjafjöllum og Mýrdalsjökli en hviður fara væntanlega yfir 50 m/s við Öræfajökul milli kl. 15 og 20. Úrkoma á þessum slóðum byrjar sem snjókoma en færir sig yfir í slyddu/rigningu með tilheyrandi krapa á vegum. Þarna verður því ekkert ferðaveður síðdegis.
Annars staðar á landinu bætir einnig í vind síðdegis og undir kvöld verður víða orðið norðaustan hvassviðri eða stormur (15-23 m/s) með skafrenningi og síðar snjókomu þegar úrkomubakkinn færir sig norður yfir landið. Suðvesturland (þ.m.t. höfuðborgarsvæðið) sleppur best við veðrið en þar verður samt orðið allhvasst undir kvöld með skafrenningi og dálítilli ofankomu um tíma.
Nú er nýsnævi víða um land og getur snjósöfnun í skafrenningi verið mjög hröð í gil og fjallsbrúnir sem snúa undan vindi. Við þessar aðstæður getur snjóflóðahætta skapast á skömmum tíma.
Athygli er einnig vakin á því að á morgun, laugardag, er útlit fyrir norðanstorm með stórhríð á norðanverðu landinu en sunnanlands verða stöku él og skafrenningur. Í nótt og á morgun má búast við að snjóflóðahætta aukist á Vestfjörðum og Norðurlandi.
Að lokum er útlit fyrir að lægi mikið á sunnudag og létti til, fyrst um landið vestanvert. Þá má búast við talsverðu frosti.
Vakthafandi veðurfræðingar
Teitur Arason
Haraldur Eiríksson
Þorsteinn V. Jónsson