Fréttir
Sóknaráætlun í loftslagsmálum kynnt.
1 2 3

Sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum

Fjölmiðlar boðaðir á fund á Veðurstofu Íslands

25.11.2015

Ríkisstjórn Íslands kynnti í dag sóknaráætlun í loftslagsmálum til þriggja ára, á fundi sem hýstur var í móttökusal Veðurstofu Íslands á Bústaðavegi.

Tilgangurinn með áætluninni er að skerpa á áherslum Íslands í loftslagsmálum og efla starf í málaflokknum til að raunverulegum árangri verði náð í minnkun á nettólosun. Áætlunin byggist á sextán verkefnum sem miða að því að draga úr losun, auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, styðja við alþjóðleg loftslagsverkefni og efla getu stjórnvalda til að takast á við strangari skuldbindingar í loftslagsmálum. Í viðauka við áætlunina gerir ríkisstjórnin frekari grein fyrir einstökum verkefnum og áherslum sóknaráætlunarinnar.

Þau verkefni sem Veðurstofa Íslands leiðir, falla undir Styrkingu innviða:

  • Vísindaskýrsla um afleiðingar loftslagsbreytinga sem gefin verður út haustið 2016
  • Aðlögun að loftslagsbreytingum. Skipulagt starf sem verður m.a. byggt á ofangreindri skýrslu.
  • Jöklar Íslands - Lifandi kennslustofa um loftslagsbreytingar. Vöktun á jöklum Íslands verður efld og stefnt að því að gera niðurstöður aðgengilegar fyrir vísindamenn, almenning og ferðamenn.
""
Fjölmiðlamenn spyrja ráðherrana.

Sóknaráætlun er sett fram í tengslum við 21. aðildarríkjafund Loftslagssamningsins í París, COP21, þar sem reynt verður að ná hnattrænu samkomulagi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eftir 2030. Ísland hefur kynnt landsmarkmið í aðdraganda fundarins um að taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um 40% minnkun losunar til 2030 miðað við 1990.

Verkefni í sóknaráætlun munu setja kraft í vinnu í loftslagsmálum, fá fleiri að vinnunni og leggja línurnar varðandi markvisst starf til lengri tíma við að minnka losun og efla kolefnisbindingu, sjá ítarlegri frétt á vef ráðuneytisins.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica