Fréttir
Ein af upptakakvíslum Vestari Jökulsár.

Ársafkoma Hofsjökuls nú jákvæð

Hofsjökull stækkar eftir rýrnun í tuttugu ár

21.10.2015

Í haustferðum er sumarleysing jökla mæld.

Starfsmenn Veðurstofu Íslands mældu sumarleysingu á Hofsjökli í leiðangri á jöklinum 6. - 10. október síðastliðinn, sjá mælipunkta á kortinu hér undir.

Ársafkoma jökulsins mældist nú jákvæð í fyrsta sinn frá árinu 1994 og jafnvægislína lækkaði um 200 m frá meðaltali. Niðurstaðan skýrist af óvenju mikilli ákomu síðastliðinn vetur og lítilli leysingu í sumar.

Mælipunktar á Hofsjökli

Á Hofsjökli má finna Sátujökul, Þjórsárjökul og Blágnípujökul og þar eiga að minnsta kosti fimm vatnsföll upptök sín: Vestari- og Austari Jökulsá, Þjórsá, Jökulfall og Blanda.

Mynd 1 (stækkanleg) sýnir legu 25 mælipunkta á Hofsjökli. Einnig eru sýndir þrír punktar (rautt) sem nú eru aflagðir vegna hörfunar jökulsins hin síðustu ár.

Vatnasvið einstakra vatnsfalla, sem upptök eiga í jöklinum, eru dregin með gulum línum. Nöfn vatnsfallanna (blátt letur) og skriðjökla Hofsjökuls (svart letur) eru tilgreind.

Kortið gerði Bogi Brynjar Björnsson (en mælipunktarnir eru teiknaðir inn á kort frá 2006 sem gefur ekki alveg réttar upplýsingar um núverandi útlínur jökulsins).

Vorferð

Í vorferðum er vetrarafkoma jökla mæld.

Vetrarafkoma Hofsjökuls var mæld í 10 daga leiðangri í maíbyrjun. Kom þá í ljós að mikið hafði snjóað á jökulinn sl. vetur (mynd 2) og ofan við 1400 m hæð mældist mesta snjóþykktin rúmir 8 m. Sé miðað við meðaltöl hins hlýja tímabils 1995 - 2014 var ákoman að jafnaði 25% yfir meðaltalinu á Sátujökli og Þjórsárjökli en 60% yfir meðaltalinu á Blágnípujökli.

Snjóþykkt á Sátujökli
""
Mynd 2. Snjóþykkt við lok vetrar á N-S mælilínu á Sátujökli (norðanverðum Hofsjökli), frá 980 m hæð upp á hæsta koll jökulsins í 1790 m hæð. Meðalsnjóþykkt tímabilsins 1995 - 2014 er sýnd til samanburðar.

Um sumarhitann

Vetrarsnjórinn lá enn yfir jökulís á leysingarsvæðinu þegar langt var liðið á sumar enda var sumarið svalt. Má sem dæmi nefna að meðalhiti sumarsins á Hveravöllum (frá júníbyrjun til ágústloka) mældist 5,9°C sem er 1,5°C undir sumarmeðaltali næstu 20 ára á undan (1995 - 2014). Dæmið snerist við í september og mældist meðalhiti á Hveravöllum þá 5,4°C eða um 1,5°C yfir meðaltalinu 1995 - 2014. Tók leysing þá nokkurn kipp og stóðu hlýindin fram í október.

Haustferð

Sem fyrr segir, var farið í haustferð á Hofsjökul nú í október. Á mynd 3 sést hvernig stikur heilsuðu leiðangursmönnum í haustferðinni. Þær stóðu þá mun styttra upp úr yfirborðinu en að loknu venjulegu sumri og reiknaðist sumarleysing að jafnaði innan við helmingur af meðaltalinu 1995 - 2014.

Mynd 3 (stækkanleg). Leysingarstika á Sátujökli 9. október 2015. Stikan er hvít og hæð hennar er sýnd með gulu striki. Rautt strik er teiknað inn á til að sýna hve hátt stikur standa upp úr jökulísnum þegar afkoma jökulsins er neikvæð. Ljósmynd: Bergur Einarsson.


Ársafkoman

Stöplaritið (mynd 4) sýnir ársafkomu Þjórsárjökuls frá upphafi mælinga árið 1989. Afkoma nýliðins árs er jákvæð um tæpan metra samkvæmt frumniðurstöðum og er það veruleg breyting frá árinu á undan, þegar metri tapaðist af Þjórsárjökli. Afkoman hefur verið neikvæð 23 ár af 27 og Hofsjökull allur hefur rýrnað um nálægt 25 km³ á þessu árabili.

Jafnvægislína á Þjórsárjökli var við 1030 m hæð árið 2015, um 200 metrum neðar en að jafnaði.

Þjórsárjökull
""
Mynd 4. Ársafkoma Þjórsárjökuls 1989 - 2015. Afkoman hefur verið neikvæð 23 ár af 27.

Niðurstaða

Afkoma jökla stjórnast einkum af vetrarákomu og sumarhita og niðurstaðan á þessu ári er í samræmi við veðurlag á landinu sl. vetur og sumar.

Of snemmt er að segja til um hvort hér er um að ræða skammvinnt frávik frá hlýindunum síðastliðna tvo áratugi eða hvort hafin geti verið nokkurra ára niðursveifla í lofthita, svipuð þeirri sem átti sér stað eftir 1965. Veðurfar hefur verið með svalara móti á Norður-Atlantshafssvæðinu undanfarin misseri en ekki er þó lát á hnatthlýnun, því allar líkur eru á að ársmeðalhiti jarðar slái öll met á árinu 2015.

Efni fréttar:
Þorsteinn Þorsteinsson

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica