Skaftárhlaup er yfirvofandi
Sterkar vísbendingar eru um að hlaup sé yfirvofandi í Skaftá. Meðal annars er fylgst grannt með gögnum úr GPS-stöð í Eystri Skaftárkatli í Vatnajökli enda er nú komið á 6. ár síðan hann hljóp.
Verið er að athuga gögn úr vatnshæðarmælanetinu og fara yfir stöðuna.
Frekari upplýsingar verða gefnar síðar í dag.
Eystri Skaftárketill, hæð á íshellu mæld með GPS-tæki, dagana 17. - 29. september 2015.
Bakgrunnur
Skaftárhlaup eins og þau þekkjast nú hófust árið 1955 en til eru heimildir um eldri hlaup. Frá árinu 1955 hafa um 50 jökulhlaup komið í Skaftá, sem jafngildir nær árlegu hlaupi að meðaltali. Þegar hleypur úr Eystri- eða Vestari Skaftárkatli, rennur vatnið um 40 km undir Vatnajökli og síðan 28 km eftir farvegi Skaftár áður en það kemur að fyrsta vatnshæðarmæli við Sveinstind (sjá skýrslu VÍ Handbók um Skaftárhlaup. Viðbragðsáætlun pdf 9.4 Mb).
Við hlaup getur rennsli Skaftár vaxið, á innan við sólarhring, úr eðlilegu rennsli í leysingum síðsumars (~200 m³/s) í stórfljót með rennsli um 1.500 m³/s.