Fréttir
Ekið eftir Kísilvegi frá Mývatni til Húsavíkur.

Tíðarfar í ágúst 2015

Stutt yfirlit

1.9.2015

Tíðarfar í ágúst var talið óhagstætt allvíða um landið norðan- og austanvert en annars skárra. Hiti var nærri meðallagi áranna 1961 til 1990 en víðast hvar nokkuð undir meðallagi síðustu tíu ára. Sérlega úrkomusamt var á norðanverðu Austurlandi, sums staðar í útsveitum norðanlands og á Ströndum; og úrkoma á fáeinum stöðvum meiri en hún hefur áður mælst í ágústmánuði. Suðvestanlands var úrkoma nærri meðallagi.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík mældist 10,9 stig, 0,6 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 10 stig og er það í meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Höfn í Hornafirði var meðalhiti 10,7 stig og 9,8 á Egilsstöðum.

 Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalhiti °C vik 1961-1990 röð af vik 2005 til 2014
Reykjavík 10,9 0,6 51 145 -0,4
Stykkishólmur 9,4 -0,2 101 169 -1,3
Bolungarvík 7,9 -0,8 103 118 -2,0
Grímsey 8,3 0,5 51 142 -0,8
Akureyri 10,0 0,0 64 til 66 134 -0,9
Egilsstaðir 9,8 0,2 30 til 31 61 -0,3
Dalatangi 8,3 0,0 54 77 -0,9
Teigarhorn 9,6 0,8 30 143 0,1
Höfn í Hornafirði 10,7
Stórhöfði 9,8 0,2 73 139 -0,9
Hveravellir  6,6 0,4 29 51 -0,7
Árnes 11,0 1,0 29 136 0,0

Meðalhiti og vik (°C) í ágúst 2015

Á landinu var að tiltölu hlýjast í Skaftafelli, en langkaldast á Vestfjörðum og við Breiðafjörð utanverðan. Þar var hiti allt að -2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Önundarhorni og við Skarðsfjöruvita, 11,2 stig, en lægstur á Þverfjalli, 3,0 stig (753 m y.s.). Á láglendi var meðalhitinn lægstur á Hornbjargsvita, 6,9 stig.  

Landsmeðalhiti í byggð var lægstur þann 29. en hæstur þann 25.  Hæsti hiti mánaðarins mældist 22,9 stig á Sauðanesvita þann 25. Daginn áður mældist hæsti hiti á sjálfvirkri stöð, Mánárbakka, 22,3 stig. Lægsti hiti á landinu mældist -4,5 stig á Torfum í Eyjafirði þann 30. Jafnaði sá hiti landsdægurlágmark. Lægsti hiti á mannaðri stöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 30. -3,9 stig.

Úrkoma

Sérlega úrkomusamt var um landið norðan- og norðaustanvert og metúrkoma á nokkrum stöðvum. Sunnanlands var úrkoma nærri meðallagi.

Úrkoman í Reykjavík mældist 66,2 mm og er það um um 7 prósent umfram meðalúrkomu áranna 1961 til 1990.  Í Stykkishólmi mældist úrkoman aðeins 72,2 mm og er það um 40 prósent umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 79,4 mm og er það meira en tvöföld meðalúrkoma í ágústmánuði og sú mesta í ágúst síðan 1992. Litlu minni úrkoma mældist þó í ágúst 2005.  

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 11 í Reykjavík, einum færri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 12, þ.e. 5 fleiri en í meðalári. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 1 mm eða meiri 12 daga, 3 fleiri en í meðalári.

Á eftirtöldum stöðvum hefur úrkoma aldrei mælst meiri í ágúst heldur en nú (fyrsti ágústmánuður mælinga í sviga): Á Sauðanesvita (1990), Skjaldþingsstöðum (1994), í Litlu-Ávík (1996), Miðfjarðarnesi (2000) og á Hánefsstöðum í Seyðisfirði (2003). Í Litlu-Ávík, á Sauðanesvita og í Miðfjarðarnesi hefur ekki mælst meiri úrkoma í nokkrum mánuði.

Skýjabylgjur
""
Skemmtilegar skýjabylgjur. Horft frá Sauðárkróki hinn 8. ágúst 2015. Ljósmynd: Þórhildur B. Jakobsdóttir.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 158,1 og er það 3 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 23 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 104,5 og er það 31 stund færri en í meðalári. Færri sólskinsstundir mældust á Akureyri í ágúst 2013.

Vindur og loftþrýstingur

Meðalvindhraði var um 0,4 m/s ofan meðallags. Norðlægar og austlægar áttir voru ríkjandi í mánuðinum.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1003,5 hPa og er það -5,1 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Lægstur mældist þrýstingurinn í Grindavík þann 13., 983,4 hPa. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1026,0 hPa á Keflavíkurflugvelli og í Reykjavík þann 31.

Sumarið (júní til ágúst)

Meðalhiti í Reykjavík var 10,4 stig og er það +0,5 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna þriggja 9,1 stig, -0,8 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, og -1,8 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára. Þessir mánuðir hafa ekki verið kaldari á Akureyri síðan 1993 en þó var nærri því jafnkalt sömu mánuði 1998.

Úrkoma í Reykjavík mældist 122 mm og er það um 75 prósent meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 116 mm sem er um 20 prósent umfram meðallag. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 105 mm sem er um 80 prósent meðalúrkomu. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 7 færri en í meðalári í Reykjavík.

Sólskinsstundir mældust 577 í Reykjavík, 89 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990, en í meðallagi sé miðað við síðustu tíu sumur. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 343 og er það 127 stundum undir meðallagi. Sólskinsstundir hafa ekki verið færri á Akureyri í júní til ágúst síðan 1993 en árið 2005 og 2002 voru þær þó litlu fleiri en nú.

Fyrstu átta mánuðir ársins 2015

Hiti fyrstu átta mánuði ársins hefur verið nærri meðallagi áranna 1961 til 1990; lítillega undir því um landið sunnan- og vestanvert en lítillega yfir því austast á landinu. Í Reykjavík er meðalhitinn -0,1 stigi undir meðallagi 1961 til 1990, -0,5 stigum á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og -0,2 stigum í Stykkishólmi. Á Akureyri er hitinn nákvæmlega í meðallagi en +0,2 ofan við það á Teigarhorni.

Engu að síður verður árið það sem af er að teljast frekar kalt miðað við það sem verið hefur á síðari árum. Jafnkalt var síðast í Reykjavík 1999 en töluvert kaldara 1995. Á Stórhöfða hefur ekki verið kaldara síðan 1995 og síðan 2002 á Akureyri og í Stykkishólmi.

Úrkoma er um 10 prósent ofan meðallags áranna 1961 til 1990 í Reykjavík en um 20 prósent ofan þess á Akureyri. Sólskinsstundir hafa verið 177 umfram meðallag áranna 1961 til 1990 í Reykjavík en 183 stundum undir meðallagi á Akureyri. Sólskinsstundir fyrstu átta mánuði ársins 2012 voru fleiri en nú í Reykjavík, en á Akureyri þarf að fara allt aftur til ársins 1983 til að finna færri sólskinsstundir fyrstu átta mánuði ársins heldur en nú.

Skjöl fyrir ágúst

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í ágúst 2015 (textaskjal).

Þessa grein, Tíðarfar í ágúst 2015, er einnig hægt lesa sem pdf (0,3 Mb).

Daglegt yfirlit mánaðarins á fjórum ákveðnum veðurstöðvum má sækja í sérstaka töflu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica