Undirbúningur fyrir væntanlega ofurtölvu
Aukið samstarf við dönsku veðurstofuna
Í nóvember síðastliðinn var undirritaður samstarfssamningur Veðurstofu Íslands og dönsku veðurstofunnar, DMI, um rekstur á ofurtölvu. Hún mun hafa tíu sinnum meiri reiknigetu en sú tölva sem danska veðurstofan er með í dag og þarf mun meira rafmagn.
Í Morgunútgáfunni á Rás 1 í dag er viðtal við Theodór Frey Hervarsson, framkvæmdastjóra Eftirlits- og spásviðs Veðurstofunnar, um dönsku ofurtölvuna og þær framfarir sem hún mun hafa í för með sér. Tölvan er væntanleg í nóvember.
Ofurtölva er þörf
Veðurspár hafa þróast mikið á síðustu árum. Mælingar með fjarkönnunargögnum eins og gervitunglum og veðursjám hafa þar mikla þýðingu. Líkönin sem notuð eru hafa þróast samhliða. Með betri líkönum og fleiri gögnum er unnt að spá fyrir um veður af enn meiri nákvæmni. Til þess þarf mikla reiknigetu sem fæst aðeins með ofurtölvum.
Flestar veðurstofur í Evrópu reka sínar eigin ofurtölvur til þess að reikna veðurspár. Þróun ofurtölva er hröð og kröfur til veðurstofa um nákvæmari og hraðari uppfærslu á veðurspám kallar á hraðari uppfærslur á ofurtölvunum en áður. Á sama tíma er þrengt að fjárhag veðurstofa, þær verða að leita leiða til að hagræða og ein leið er samstarf um ofurtölvur og þar með hagkvæmni í rekstri.
Ávinningur Dana
Orka í Danmörku er dýr og ekki framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum nema að mjög litlu leyti. Opinberar stofnanir í Danmörku eru undir ströngum kvótum um losun gróðurhúsaloftegunda sem gerir þeim nær ómögulegt að endurnýja ofurtölvu sína og reka hana í Danmörku. Ísland býr vel hvað þetta varðar. Við framleiðum rafmagn með endurnýjanlegum orkugjöfum á samkeppnishæfu verði. Með samstarfi um rekstur ofurtölvunnar njóta Danir umhverfisvænna orkugjafa Íslands.
Ávinningur Íslendinga
Þegar ofurtölvan verður tekin í notkun mun Veðurstofan stækka reiknisvæðið í kringum Ísland og þá sérstaklega suðvestur af landinu, sem er mikilvægur hluti þjónustusvæðisins.
Framfarir verða mögulegar í veðurspám, hafísspám, reikningum á fortíðarloftslagi og framtíðarsviðsmyndum mögulegra loftslagsbreytinga. Einnig batna tækifæri til styrkumsókna, bæði úr norrænum og evrópskum rannsókna- og þróunarsjóðum.