Safetravel
Hlúð að öryggi ferðamanna
Forvarnir í ferðamennsku hafa eflst með aukinni samvinnu þeirra er koma að öryggi ferðafólks. Vefurinn Safetravel er rekin af Landsbjörgu í því augnamiði og er hluti af heildarverkefninu Safetravel sem hleypt var af stokkunum 2010.
Nýjung á vefnum er áberandi tilkynningaborði sem fyllir skjáinn við fyrstu sýn á hverri vefsíðu; skilaboðin þar geta ekki farið framhjá nokkrum. Hægt er að stilla borðann þannig að hann birtist ekki sama notanda aftur fyrr en fleiri tilkynningar berast.
Málefnum vefsins er skipt í nokkra flokka: Útivist, Akstur, Ferðaáætlun, Sprungukort, Útbúnaðarlista og 112 Iceland App. Þetta er meðal annars reifað:
- Helsti óvissuþáttur þegar ferðast er á Íslandi er veðrið en það getur breyst skyndilega og gert ferðalög erfið eða ómöguleg. Fjölmörg dæmi eru um að illa hafi farið við slíkar aðstæður og því skal fylgjast vel með veðurspá.
- Lögð er áhersla á ferðaáætlun, sem skilja skal eftir hjá einhverjum í byggð, og réttan útbúnað miðað við aðstæður en tillögur eru gefnar að búnaðarlistum fyrir mismunandi tegundir ferða. Ef ferðaáætlun er skilin eftir á vefnum Safetravel, liggja allar upplýsingar fyrir þegar til óhapps kemur og það tryggir skjót og fumlaus viðbrögð.
- Ferðalög á jöklum eru ekki hættulaus enda er þar síbreytilegt landslag auk þess sem veður geta orðið með versta móti. Kynnt eru kort sem sýna kortlögð sprungusvæði á jöklum. Hægt er hafa slíkt sprungukort sem glæru á snjalltækinu sínu.
- Snjallsímaforritið 112 Iceland er einfalt í notkun. Annarsvegar er hægt að kalla á aðstoð ef um slys eða óhapp er að ræða. Hinsvegar er hægt að skilja eftir sig slóð en slíkt má nota ef óttast er um afdrif viðkomandi og leit þarf að fara fram.
- Varðandi akstur, ber að hægja vel á þegar komið er að einbreiðri brú en við þær eru alvarleg slys algeng. Hægja skal vel á þegar ekið er af malbiki yfir á malarveg en margir missa stjórn á bílnum við þær aðstæður.
Fjölmargar og ítarlegri upplýsingar má fá á vefnum Safetravel, um allt sem tengist ferðalögum á Íslandi og öryggi í ferðamennsku.
Myndaborðinn er af vefsíðu Safetravel en þar er einnig boðið upp á myndbönd, blogg og fyrirspurnir og kallað eftir styrktaraðilum. Eldri fréttir um Safetravel: 2014, 2013, 2012, 2011, 2010.