Framtíðaráhrif loftslagsbreytinga - Tími til aðgerða
Opinn fundur Landsvirkjunar
Landsvirkjun stendur fyrir opnum fundum í tilefni af 50 ára afmæli sínu um þessar mundir. Viðfangsefnin eru fjölbreytt og kalla á opin samskipti við hagsmunaaðila um allt land með gagnsærri og faglegri umræðu.
Föstudaginn 22. maí 2015 kl. 8:30 verður haldinn í Silfurbergi í Hörpu slíkur fundur um framtíðaráhrif loftslagsbreytinga og hvernig fyrirtæki geta unnið gegn áhrifum þeirra. Allir eru velkomnir. Mælst er til skráningar á vef Landsvirkjunar.
Á fundinum mun Halldór Björnsson, hópstjóri rannsókna á loftslagsbreytingum hjá Veðurstofu Íslands, flytja erindi er nefnist Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Ísland. Hann kynnti erindi sitt í Mannlega þættinum á Rás 1 (mín. 37:03 til 51:56).
Önnur erindi eru Áherslur stjórnvalda í loftslagsmálum, Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra; Hvernig vinnur Landsvirkjun gegn loftslagsbreytingum, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar; og Ábyrgð, samstaða og samstarf um lausn vandans, Halldór Þorgeirsson, forstöðumaður stefnumörkunar hjá skrifstofu Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.
Að loknum erindum verða pallborðsumræður sem tveir fyrirlesaranna taka þátt í, þeir Halldór Björnsson og Halldór Þorgeirsson, ásamt þeim Árna Finnssyni, formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands, Rannveigu Rist, forstjóra Rio Tinto Alcan, Hólmfríði Sigurðsdóttur, umhverfisstjóra Orkuveitu Reykjavíkur og Huga Ólafssyni, skrifstofustjóra í umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
Fundarstjóri verður Magnús Halldórsson, blaðamaður á Kjarnanum.