Lítið hlaup í Gígjukvísl
Varað við brennisteinsvetni við útfall
Lítið Grímsvatnahlaup hófst í Gígjukvísl miðvikudaginn 6. maí 2015.
Vatnshæð hefur aukist í ánni undanfarið daga. Rafleiðni, sem er vísbending um hlutfall jarðhitavatns í ánni, hefur einnig aukist. Samkvæmt upplýsingum frá Finni Pálssyni hjá Jarðvísindastofnun Háskólans er ekki mikið vatn í Grímsvötnum (0,2 - 0,3 km³). Miðað við að nú er svipað vatn í Grímsvötnum og fyrir seinasta hlaup, sem var í mars 2014, má búast við að hámarsrennsli hlaupsins verði <700 rúmmetrar á sekúndu og að hlaupið nái hámarki um miðja vikuna.
Vert er að hafa í huga að vatnshæðarmælingar í Gígjukvísl gefa ekki upplýsingar um rennsli, því farvegurinn undir brúnni getur verið mjög breytilegur og áin getur bæði grafið sig niður og breitt úr sér. Því er ekki fast samband milli vatnshæðar og rennslis.
Aukinn hátíðniórói (2 - 4 Hz) hefur mælst á jarðskjálftastöðvum á Grímsfjalli og jökulskerinu Vetti í Skeiðarárjökli vegna hlaupsins.
Vert er að benda á að brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess mjög nálægt útfalli árinnar við jökuljaðar (innan við nokkur hundruð metra) getur orðið svo mikill að það skaði slímhúð í augum og öndunarvegi. Utan þess skapar hlaupið enga hættu fyrir mannvirki og umferð á Skeiðarársandi.
Starfsmenn Veðurstofu fylgjast náið með þróuninni. Línuritin hér undir sýna stöðu mála á hádegi síðastliðinn laugardag, 9. maí. Stækkanleg.