Fréttir
Spá fyrir vind kl. 12 sunnud. 22. febrúar. Rautt og gulbrúnt sýnir mesta hættu.

Viðvörun - ofsaveður syðst á landinu

21.2.2015

Veðurstofan vekur sérstaka athygli á eftirfarandi:

Búist er við stormi (meðalvindi yfir 20 m/s) á landinu í nótt og á morgun og ofsaveðri (meðalvindi yfir 28 m/s) syðst.

Stutt veðurspá fyrir daginn í dag og á morgun er svohljóðandi:

Norðlæg og síðar austlæg átt 3-10 m/s. Víða bjart veður og frost 5 til 20 stig, kaldast í innsveitum norðaustantil. Gengur í austan 13-20 m/s sunnantil seint í kvöld með snjókomu. Hvessir meira í nótt. Austan 20-30 á sunnanverðu landinu á morgun, snjókoma og skafrenningur, hvassast með suðurströndinni. Austan 13-23 norðantil, dálítil él og skafrenningur. Minnkandi frost á morgun, 0 til 8 stig síðdegis, mildast syðst. Fólki er ráðlagt að fylgjast með uppfærðri textaspá á vefnum.

Athugasemd veðurfræðings:

Búast má við að hviður við fjöll sunnan- og suðvestanlands geti farið yfir 40 m/s í nótt og á morgun. Versta veðrið verður sunnanlands og hár vindstyrkur ásamt snjókomu og skafrenningi þýðir að skyggni verður lítið sem ekkert og ekkert ferðaveður. Þó úrkomuminna verði í öðrum landshlutum er vindstyrkur þar nægur til að hreyfa lausan snjó sem fyrir er og mynda kóf og tefja ferðalög eða hamla þeim.

Á mánudaginn er útlit fyrir hvassa norðanátt og ekki er útlit fyrir að lægi að gagni á landinu fyrr en á þriðjudag.

Lognið á undan storminum
""
Gervitunglamynd 21.02.2015 12:40. Heiðskírt yfir snæviþöktu landinu. Kyrrt í dag en von á óveðri.

21. febrúar 2015 kl. 13:00
Vakthafandi veðurfræðingar
Teitur Arason og Óli Þór Árnason





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica